131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Fjárframlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands.

[13:36]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Málið hefur verið rætt töluvert í þinginu, bæði við tækifæri eins og þetta, sem er ekkert athugavert við að sé gert, af hálfu hv. þingmanns og fleiri þingmanna og eins var það rætt í tengslum við umræðu um störf um utanríkismál fyrir fáeinum dögum. Allmikill tími fór einnig í þá umræðu og ekkert athugavert við það heldur. Menn hafa því ekki verið að koma sér undan umræðu um málið og miðað við umfang málsins held ég að þetta hafi fengið mjög eðlilega og góða umræðu hér.

Ég hef svarað því áður að ég tel eðlilegt að framlag utanríkisráðuneytisins gangi til reksturs mannréttindamála á vettvangi þess ráðuneytis. Ráðuneytið mun ekki verja minni fjármunum til mannréttindamála en áður og reyndar hefur það verið gert í vaxandi mæli í tíð fyrirrennara míns og því verður haldið áfram. Það hefur verið vaxandi þungi á þann málaflokk af hálfu Íslands og enginn að draga úr því.

Það má vel vera að hin ágæta Mannréttindaskrifstofa hafi unnið að þörfum mannréttindamálum. En það er svo skrýtið að í öllum þessum umræðum hefur aldrei verið upplýst með hvaða hætti hún hefur bætt mannréttindi hér á landi. Ég vona að hún hafi gert það á undanförnum árum.