131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Fjárframlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands.

[13:38]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Það er tilefni til að hafa áhyggjur af viðhorfi ráðamanna til mannréttinda hér á landi. Ítrekað fáum við frumvörp og aðgerðir sem ættu að vekja þingheim til umhugsunar á hvaða vegferð við erum. Nú síðast aðgerðir gegn Mannréttindaskrifstofu Íslands eftir gagnrýni hennar á sum lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar og loks ákvörðun stjórnarmeirihlutans um að neita að taka umrætt þingmál á dagskrá.

Ég vil hins vegar líta á aðgerðirnar í stærra samhengi. Hvert frumvarpið á fætur öðru, sérstaklega frumvörp frá hæstv. dómsmálaráðherra, ber þess merki að ætíð skal ganga eins langt og hægt er á kostnað mannréttinda og persónuréttinda. Skemmst er að minnast á frumvarp ráðherrans um að heimila hleranir án dómsúrskurðar. Svo kom frumvarp um útlendinga sem enn fleiri töldu að væri mannréttindabrot, frumvarp ráðherrans um fangelsismál sem birtist í fyrra var svo vont að ráðherrann neyddist til að draga það til baka og að lokum tókst ráðherra rétt fyrir jól að skerða almennan rétt borgaranna til gjafsóknar einmitt í þeim málum þar sem reynir á mannréttindi.

Hugsanlega má rekja frumvörpin og hugmyndafræðina til ræðu hæstv. dómsmálaráðherra sem hann hélt á málþingi Lögfræðingafélags Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands þann 26. september 2003. Í þeirri ræðu hafnaði hæstv. dómsmálaráðherra þeirri almennu skoðun fræðimanna í lögfræði að löggjöf ætti að vera túlkuð í ljósi mannréttindasáttmálans. Í ræðunni kom fram hjá hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Allt tal um að mannréttindasáttmálinn hafi nokkurs konar stjórnarskrárígildi er einungis lögfræðileg óskhyggja þeirra sem láta berast með tískustraumum jafnvel frá Strassborg.“

Af orðum hæstv. dómsmálaráðherra má ráða að hann telji einnig að einungis eigi að túlka mannréttindasáttmálann frá orðanna hljóðan sem er þvert á allar almennar fræðikenningar sem kenndar eru í lögfræði. En sú hugmyndafræði fulltrúa ríkisstjórnarinnar getur þó vel útskýrt af hverju staða Mannréttindaskrifstofu Íslands er með þeim hætti sem hún er nú í og af hverju umrætt þingmál fæst ekki rætt á þingi.