131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Fjárframlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands.

[13:47]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur ekki enn tekið við en það verður fljótlega og þá minnka áhyggjur þeirra herramanna sem sitja hér á hægri hönd.

Ég sit í fjárlaganefnd fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þar var málið rætt mjög ítarlega í haust. Allt til þess tíma hefur Mannréttindaskrifstofan fengið fjárveitingar beint á fjárlögum Alþingis. Alþingi hefur kveðið á um það. Nú var ákveðið að það færi undir ráðuneytin. Í fjárlaganefnd var sagt að hér væri aðeins um formbreytingu að ræða, ekki eðlisbreytingu. Sama minnir mig að hv. formaður fjárlaganefndar hafi sagt þegar gerð var grein fyrir afgreiðslu fjárlaga í haust. Hv. formaður fjárlaganefndar, Magnús Stefánsson, sagði a.m.k. í viðtali nú á dögunum að hann hefði ekki vitað annað en að hér væri bara um formbreytingu að ræða en ekki að skera ætti niður fjárveitingar til stofnunarinnar.

Ég vil því ítreka það að þannig leit fjárlaganefnd á hlutina og þegar nefndin lagði málið fyrir þingið var litið svo á að hér væri um formbreytingu að ræða en ekki niðurskurð. Allt annað kemur síðan á daginn, og ég dreg í efa, miðað við þá umræðu eins og ég upplifði hana, að hæstv. ráðherrar, utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra, hafi rétt til þess gagnvart þinginu að skera fjárveitinguna niður í ljósi þeirrar umræðu sem fram fór bæði innan fjárlaganefndar og á Alþingi um málið, staðfesting á því að hér væri um formbreytingu að ræða en ekki að skera ætti starfsemina og stofnunina niður við trog. Það var ekki sagt við afgreiðslu fjárlaga á haustdögum og ég dreg í efa að þeir hafi stjórnsýslulega heimild til að koma fram með þessum hætti gagnvart þinginu.