131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Fjárframlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands.

[13:51]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er leitt til þess að vita að athyglisgáfa hæstv. utanríkisráðherra sé orðin svo slök sem raun ber vitni í ræðustólnum að hann hafi ekki orðið var við vaxandi mannréttindastarf og umræðu í landinu. Hann hefði t.d. getað kynnst því í gagnrýninni og vitundarvakningunni um borgaraleg réttindi þegar Falun Gong málið reið hér sem hæst yfir og gagnrýndar voru lögregluaðgerðir hans hér og erlendis í því sambandi. Hann hefði getað kynnst því þegar umræða um tjáningarfrelsið stöðvaði fjölmiðlafrumvarpið á síðasta ári. Hann hefði getað kynnst því þegar dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, var gerður afturreka með frumvarp um refsingar, um meðferð fanga o.fl. Hann hefði getað kynnst því þegar ýmsar tillögur í þinginu um óhemju miklar heimildir til handa lögreglunni í rannsóknum voru gerðar afturreka á mannréttindaforsendum og hann hefði getað kynnst því í hæstaréttardómum Hæstaréttar Íslands um mannréttindabrot gegn öryrkjum þar sem ríkisstjórn hans hefur aftur og aftur verið gerð afturreka með ákvarðanir sínar.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur svipt Mannréttindaskrifstofuna fjárveitingum sínum án þess að færa efnislegar röksemdir fyrir þeirri sviptingu. Hún hefur séð um alþjóðleg samskipti fyrir okkur á þessu sviði og nú hefur hæstv. utanríkisráðherra bitið höfuðið af skömminni með því að lýsa því hér yfir að hann hafi svipt þessa skrifstofu fjárveitingum sínum án þess að hafa kynnt sér starfsemina, því að hæstv. utanríkisráðherra stóð hér í ræðustólnum og lýsti því yfir að hann hafi ekki kynnst sér gjörla þá starfsemi sem fram fer í stofnuninni sem hann er nýbúinn að svipta fjárveitingum sínum. Auðvitað afhjúpar það að hér er aðeins um pólitískar refsiaðgerðir að ræða gegn Mannréttindaskrifstofunni sem hefur leyft sér að vera óþægur ljár í þúfu ráðamanna, pólitískar refsiaðgerðir eins og svo margir hafa mátt þola áður, margar stofnanir og (Forseti hringir.) embættismenn og jafnvel sóknarprestur hæstv. utanríkisráðherra.