131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegs.

583. mál
[14:08]

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í ræðu minni áðan að tölurnar frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins voru ekki réttar. Þar var sagt að eignir sjóðsins væru 150 milljónir, við könnuðum þetta, gerðum smáhlé á fundi hjá okkur, og þá kom í ljós að miðað við ársreikninga eru eignir 88 milljónir. Þetta ósamræmi liggur í því að sjóður til síldarrannsókna á vegum Hafró stendur í 150 milljónum og þar var misskilningurinn. Það eru því ekki til nema 88 milljónir í þetta verkefni sem óskað er að fara í.

Það er verið að ræða um að rýmka þessar heimildir. Menn vilja fara að styrkja nýsköpun, rannsóknir, fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir þennan sjóð.