131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegs.

583. mál
[14:09]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga eins og fram hefur komið um breytingu á lögum nr. 43 frá því í maí 1998, um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins, eins og þau lög heita.

Það kemur fram strax í heiti laganna hvað þarna er um að vera og m.a. er verið að taka hluta af þeim peningum sem til voru í síldarútvegsnefnd og stofna sjóði í þágu síldarútvegsins. Með því frumvarpi sem hér liggur fyrir er verið að hverfa frá þessu upprunalega markmiði og breyta lögunum með þeim hætti að nú megi styrkja nánast hvað sem er í sjávarútvegi. Veltir maður þá fyrir sér hvort ekki væri nær, úr því að svo er, að sameina þennan sjóð einhverjum öðrum sjóðum sem hafa nákvæmlega sama hlutverk. Í svari hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar við spurningu minni um mat fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins á því hvað til væri í sjóðnum kom fram að sjóðirnir eru orðnir svo margir að það er farið að rugla þeim saman.

Ég hefði gaman af því að fá svar við því hjá hv. framsögumanni nefndarinnar hvernig á því stendur að menn prenta þá ekki upp svona álit áður en til umræðu kemur. Hvernig stendur á því að látið er standa í frumvarpi til laga að eignir ákveðins sjóðs sem verið er að fjalla um séu 150 milljónir þegar búið er að fara í gegnum það og komast að því að þær eru ekki nema 88. Af hverju leiðrétta menn ekki svona í texta, af hverju láta menn svona lagað fara í gegn á þingskjölum? Svo stendur þetta óleiðrétt. Getur verið að tíminn til að moka málum út úr nefnd sé orðinn það lítill og flumbrugangurinn það mikill að menn gefi sér ekki einu sinni tíma til að snyrta svona hortitti af texta eins og þarna kemur fram?

Auðvitað er það rétt sem fram kom hjá formanninum að þegar við fórum að skoða þetta og bera saman við ársreikning sjóðsins gat þetta ekki staðist. Formaður brást snöfurmannlega við og athugaði með hvaða hætti þetta væri, en svörin voru þau að þetta væri einhver annar sjóður á vegum sjávarútvegsins sem hefði með síldarrannsóknir eða eitthvað svoleiðis að gera. Auðvitað fannst manni þetta hálfklént svar en vissi, þar sem tíminn var stuttur og formaður hafði reynt að fá þetta svar símleiðis, að kannski var ekki við meiru að búast á þeim tíma.

Þegar síldarútvegsnefnd var lögð niður á árinu 1998 var stofnað hlutafélag um þær eignir sem síldarútvegsnefnd átti og einnig var ákveðið að taka fjármuni út úr nefndinni og leggja til tveggja sjóða sem annars vegar áttu að vera vöruþróunar- og markaðssjóður og hins vegar sjóður til síldarrannsókna. Ef maður fer í gegnum lögin á þeim tíma sem ákveðið var að stofna hlutafélag um síldarútvegsnefnd og stofna þessa tvo sjóði skín alveg skýrt í gegn, í gegnum lagatextann, gegnum umræðuna og gegnum öll þau gögn sem hægt er að kynna sér í þessu máli, að það átti einmitt að passa upp á að þeir fjármunir sem var verið að taka sérstaklega út úr síldarútvegsnefndinni yrðu notaðir til að efla síldarútveg á landinu, en ekki til neins annars.

Nú er liðinn það langur tími og einhverra hluta vegna virðist mönnum það að afla markaða fyrir síld eða stunda vöruþróun og rannsóknir á síld ekki nógu göfugt verkefni fyrir sjóðinn, sem var þó sérstaklega stofnaður til þess, og vilja þá fara að þynna út eða breiða þennan sjóð yfir önnur svið í sjávarútvegi. Ég hef verulegar efasemdir um að það sé skynsamlegt, sérstaklega þegar við veltum því fyrir okkur að síldin er jú að koma upp aftur og síldarafurðir eru mikilvægur hluti af sjávarafurðum landsins. Ég er alveg viss um að með aukinni síldveiði og sérstaklega með styrkingu norsk-íslenska síldarstofnsins verði full ástæða til að leggja verulegt fé einmitt í markaðsþróun og markaðsöflun. Ef veiðar koma til með að aukast mikið og framleiðsla sömuleiðis hlýtur að þurfa að afla markaða til að selja þessa síld. Það er ekki til neins að vera að framleiða sjávarafurðir hverju nafni sem þær nefnast ef ekki er markaður fyrir hendi til að taka við þeim og borga fyrir þær það verð sem þarf til að hægt sé að reka þann iðnað almennilega.

Eitt vakti athygli mína þegar ég fór í gegnum frumvarpstextann. Í 1. gr. segir að það eigi að koma nýr málsliður sem orðist svo, með leyfi forseta:

„Jafnframt er stjórn sjóðsins heimilt að styrkja nýsköpun, rannsóknir og fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi.“

Þarna er meira að segja vikið verulega frá hlutverki sjóðsins eins og það var, þ.e. til vöruþróunar og markaðsöflunar. Nú er það nýsköpun, rannsóknir og fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi. Það er verið að breiða þennan sjóð sem eingöngu var til vöruþróunar á síldarafurðum og markaðsöflunar fyrir síldarafurðir út á hinn mikla akur í sjávarútvegi þar sem allt er undir. Er hugsanlegt að þessi sjóður fari þá að styrkja rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar eins og aðrir sjóðir sem heyra undir sjávarútvegsráðuneytið? Getur verið að með þessu séu menn að velta fyrir sér að útvíkka starfssvið sjóðsins svo mikið að í raun og veru verði hægt að ganga í hann að einhverju leyti til að fara í hefðbundnar rannsóknir sem annars ættu að vera greiddar úr ríkissjóði?

Maður hlýtur að velta þessu fyrir sér þegar maður sér hve mikil breyting verður á hlutverki sjóðsins ef það frumvarp sem við erum að ræða hér verður að lögum.

Á árinu 1998 ákváðu menn að nú skyldi síldarútvegsnefnd lögð niður og stofnað hlutafélag sem mundi nefnast Íslandssíld hf., hlutafélag um þá starfsemi sem áður var í síldarútvegsnefnd. Sjávarútvegsráðherra var falið með lögunum að annast undirbúning að stofnun þessa nýja hlutafélags. Hlutverkið sem Íslandssíld hf. átti að hafa með höndum var að annast viðskipti með síldarafurðir og aðrar sjávarafurðir og hvers konar aðra starfsemi sem því tengist. Það var heimilt að breyta tilgangi félagsins á hluthafafundi. Íslandssíld hf. tók við öllum eignum, skuldum og skuldbindingum síldarútvegsnefndar við stofnun félagsins, öðrum en þeim sem ráðstafað var í þessa tvo sjóði sem ég minntist á áðan.

Síðan vitum við hvað gerst hefur. Það er ekki lengur til neitt sem heitir Íslandssíld hf. Ef ég man rétt sameinaðist Íslandssíld SÍF, er orðin partur af því og eigendur Íslandssíldar hf. þar með eigendur að stærri hluta í SÍF.

Hvað voru menn að hugsa þegar þeir ákváðu að leggja niður síldarútvegsnefnd? Jú, menn ákváðu að stofna hlutafélag sem átti að sinna viðskiptum með síldarafurðir, opnuðu reyndar á það að þetta félag gæti líka verið að selja aðrar afurðir og að 75% af eignum síldarútvegsnefndar ættu að renna inn sem hlutafé í þetta félag, ekki allt saman. Menn ákváðu að það ætti ekki að taka allar eignir síldarútvegsnefndar og gera að hlutafé í Íslandssíld hf., heldur yrðu 25% af heildareignunum undanskildar og yrðu ekki hlutafé í þessu nýja fyrirtæki. Ráðherra skipaði matsnefnd til að meta eignir og skuldir síldarútvegsnefndar til að miða upphæð hlutafjár við þannig að hægt yrði að ákvarða hve mikið ætti að renna í sjóðina.

Það er því alveg ljóst að það hefur verið metnaður og vilji til þess af hálfu síldarútvegsins á þessum tíma að taka frá hluta af fjármunum síldarútvegsnefndar til að sinna vöruþróun og markaðsöflun.

Hverjir voru það sem eignuðust þessa hluti í Íslandssíld hf.? Jú, það voru síldarsaltendur sem höfðu greitt lögmæta söluþóknun af útfluttri síld samkvæmt lögum sem um það giltu og það var ákveðið að þeir væru eigendur að 85% hlutafjár í félaginu við stofnun þess. Íslandssíld sjálf átti að eiga 10% af hlutafé félagsins og síðan á Lífeyrissjóður sjómanna í hlutfalli við fjölda sjómanna í hverjum sjóði við gildistöku laganna 5% í Íslandssíld. Ekki hef ég fylgst það vel með að ég viti hvort þessi eignarhlutur Lífeyrissjóðs sjómanna hefur haldið sér í SÍF eða hvort þetta hefur verið selt út á einhverju tímabili en þarna er alveg auðséð að menn eru vitandi vits að skipta þessum fjármunum með þessum hætti, vitandi og metandi það að ýmsir komu að því að leggja þessa fjármuni inn í síldarútvegsnefnd á sínum tíma og voru auðsjáanlega að reyna að finna út hvernig ætti að meta eignir hvers og eins þegar ákveðið var að stofna Íslandssíld hf.

Það var sagt að hlutdeild hvers aðila skyldi miðast við hlutfall verðmætis útfluttrar síldar viðkomandi aðila á vegum síldarútvegsnefndar á árunum 1. janúar 1975 til 31. desember 1997.

Í 6. gr. laga um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins er kveðið á um að halda skuli stofnfund fyrir 1. ágúst 1998 og, eins og áður sagði, að þetta nýja félag taki þá við öllum eignum, skuldum og skuldbindingum síldarútvegsnefndar, öðrum en þeim sem ákveðið var að ráðstafa í sjóðina tvo sem ég kem að á eftir.

Það var kveðið á um það á þessum tíma eins og oft var í lögum að fastráðnir starfsmenn síldarútvegsnefndar skyldu eiga kost á starfi hjá Íslandsmarkaði. Þetta var hefðbundið í lögum á þessum tíma. Síðan segir í 8. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Stofna skal sjóð sem skal renna til síldarrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Sjóðurinn skal vera í vörslu Hafrannsóknastofnunarinnar. Stofnfé sjóðsins skal vera 110 millj. kr. af eigin fé síldarútvegsnefndar. Ráðstöfun fjár úr sjóðnum skal háð samþykki sjávarútvegsráðherra og skal árleg ráðstöfun miðast við að ekki sé gengið á eigið fé sjóðsins.“

8. gr. segir til um stofnun þessa sjóðs sem fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins var að meta þegar við spurðum hvernig stæði á því að það væri mismunur á þeirra mati og síðan ársreikningi Vöruþróunar- og markaðssjóðs síldarútvegsins. Það er sem sagt til sjóður sem hafði 110 millj. kr. stofnfé, stærri sjóður í upphafi en þessi Vöru- og markaðsöflunarsjóður, sem á að ganga til síldarrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar og menn ákveðið að styrkja þær rannsóknir með eigin fé síldarútvegsnefndar með þeim hætti sem þar kemur fram.

Af hverju er menn þá núna að tala um að sjóðurinn sem átti að gera eitthvað allt annað eigi líka að fara að styrkja rannsóknir? Af hverju leggja menn þá ekki bara til að steypa t.d. þessum tveimur sjóðum saman og að verksvið þeirra væri þá að stunda síldarrannsóknir og einnig að afla markaða og styrkja vöruþróun í síld? (EOK: … makríl.) Það getur vel verið að það sé sniðugt að útvíkka sjóðinn að einhverju leyti þannig að hann taki til uppsjávarfiska almennt en hér er verið að leggja til, eins og fram kemur í nefndaráliti nefndarinnar sem minni hlutinn er með fyrirvara á, að þetta verði breitt út miklu þynnra en þar um segir.

Síðan kemur 9. gr. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stofna skal sérstakan sjóð sem hefur þann tilgang að efla vöruþróun síldarafurða og afla nýrra markaða fyrir síldarafurðir. Sjóðurinn skal vera sjálfseignarstofnun. Stofnfé sjóðsins skal vera 80 millj. kr. af eigin fé síldarútvegsnefndar.

Sjávarútvegsráðherra skal annast gerð skipulagsskrár fyrir stofnunina sem skal staðfest af dómsmálaráðuneyti, sbr. lög nr. 19/1988.“

Í 10. gr. segir: „Sjóður sá sem um er rætt í 8. gr. skal undanþeginn opinberum gjöldum og sköttum hverju nafni sem þeir nefnast. Framlag til sjóðs þess sem um er rætt í 9. gr. skal undanþegið tekjuskatti.“

Það kemur alveg skýrt fram í 9. og 10. gr. í lögunum um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins hvað menn ætluðu sér að gera með þeim fjármunum sem verið var að ráðstafa í þennan seinni sjóð. Stofnfé sjóðsins var 80 millj. kr. í upphafi, 110 milljónir voru settar í síldarrannsóknir og alveg auðséð að menn vildu skipta þarna á milli þannig að hluti fjármunanna færi til rannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar og hún hefði með þann sjóð að gera en síðan væri svona sjálfseignarstofnun sett á laggirnar sem gæti veitt styrki bæði til vöruþróunar og leitar að nýjum mörkuðum.

Í framhaldi af þessu er sjóðnum sett skipulagsskrá, heitir reyndar skipulagsskrá Vöruþróunar- og markaðsöflunarsjóðs síldarútvegsins. Ég tek eftir því í þessu frumvarpi hér til laga að í athugasemdum við það er alltaf talað um Vöruþróunar- og markaðssjóð síldarútvegsins en skipulagsskráin hefur annað nafn á þessum sjóði og það er nafnið sem sjálfseignarstofnunin notar en ekki það nafn sem kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu. Það getur vel verið að þetta sé ástæðan fyrir því að þegar starfsmenn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins fóru að fletta því upp vegna umsagnar um þetta frumvarp hvert eigið fé sjóðsins væri hafi akkúrat sú ónákvæmni sem þarna kemur fram orðið til þess að þeir flettu upp eigin fé annars sjóðs en þess sem við erum að ræða hér.

Það kemur alveg skýrt fram í skipulagsskránni að sjóðurinn skuli heita Vöruþróunar- og markaðsöflunarsjóður síldarútvegsins og ákveðið að hann mundi hafa heimilisfang og varnarþing í Reykjavík.

Í 2. gr. skipulagsskrár er farið yfir það í samræmi við þau lög sem ég var að fara yfir áðan að eigið fé sjóðsins skyldi vera 80 millj. kr. og höfuðstóllinn 10 millj. kr. Í samræmi við lögin eru sjóðnum sett markmið í skipulagsskrá. Þau eiga að vera að efla vöruþróun og markaðsöflun á síldarafurðum samkvæmt nánari ákvæðum skipulagsskrárinnar. Það fer sem sagt ekkert á milli mála, hvorki í lögunum né skipulagsskránni, að þetta er hið þrönga hlutverk sjóðsins og hefur verið frá stofnun.

Í 4. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Markmiðum sjóðsins skal m.a. náð með veitingu styrkja vegna kostnaðar tengdum vöruþróun og markaðsöflun fyrir síldarafurðir, svo sem kostnaðar vegna rannsókna, tækjakaupa, kynninga og auglýsinga.“

Þarna er verið að tala um markaðsrannsóknir. Þarna er verið að tala um þróun á nýjum tækjabúnaði vegna síldarútvegsins. Þarna er verið að tala um kynningu á síldarafurðum á nýjum mörkuðum og það er opið á það að styrkja jafnvel auglýsingar söluaðila sem selja síldarafurðir. Þarna er ekkert verið að tala um rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar. Það er mikill munur á því sem stendur í skipulagsskránni um hlutverk sjóðsins og síðan hinu sem verið er að leggja til í frumvarpi til laga sem við fjöllum hér um.

Hverjar eru tekjur þessa sjóðs? Jú, eftir að búið er að leggja 80 milljónirnar inn í sjóðinn sem stofnframlag sem sjóðurinn síðar ávaxtar, og má ekki ganga um of á höfuðstól, eru ávöxtunartekjurnar af þessu stofnfé, fjárframlög og gjafir, ef einhverjar eru, og aðrar tekjur ef um það er að ræða. Útgjöldin eru einnig skilgreind í skipulagsskránni og þar segir að gjöld hans séu útgjöld og kostnaður við að sinna verkefnum sjóðsins, almennur rekstrarkostnaður hans og önnur útgjöld, ef um þau er að ræða.

Í skipulagsskránni er tekið fram að gæta skuli hagsýni í hvívetna við meðferð eigna og fjármuna sjóðsins. Fé sjóðsins skuli ætíð ávaxta á tryggan og arðbæran hátt og ekki skuli ráðstafa hærri fjárhæð á ári hverju en sem nemur árstekjum sjóðsins auk 1/10 af upphaflegu eigin fé sjóðsins að frádregnum höfuðstól, samanber það sem stendur í 2. gr. Sjóðurinn má sem sagt á hverju ári styrkja vöruþróunar- og markaðsstarf um 8 millj. kr. plús árstekjurnar sem í hann koma vegna ávöxtunartekna.

Það er kveðið á um hvernig stjórn þessarar sjálfseignarstofnunar skuli skipuð. Segir í 8. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Í stjórn Vöruþróunar- og markaðsöflunarsjóðs síldarútvegsins eiga sæti fjórir menn og fjórir til vara. Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi og Félag síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi skulu hvort um sig tilnefna tvo stjórnarmenn og tvo til vara til tveggja ára í senn. Stjórnin skal kjósa sér formann.“

Sjóðstjórnin á síðan að funda þegar þurfa þykir en ekki sjaldnar en tvisvar á ári. Sú lágmarkskrafa er sem sagt sett að á sex mánaða fresti hittist stjórnin, væntanlega til að fara yfir ef um umsóknir er að ræða og hvernig taka eigi á þeim. Afl atkvæða ræður úrslitum þannig að það þarf hreinan meiri hluta í stjórninni til að ákveða með hvaða hætti fjármunum sjóðsins skuli varið svo lengi sem menn gera það innan þeirra reglna sem skipulagsskráin setur. Það segir einnig að sjóðstjórnin skuli setja sér starfsreglur. Hún á að stýra daglegum rekstri sjóðsins og ræður öllum málefnum hans til lykta með þeim takmörkunum sem greindar eru í þeirri skipulagsskrá sem ég er að fara hér yfir, þ.e. það má ekki ganga um of á eigið fé sjóðsins. Stjórnin ber ábyrgð á því að meginmarkmiðum sjóðsins eins og þeim er lýst í 3. og 4. gr. í stofnskránni verði náð að svo miklu leyti sem kostur er.

Sjóðstjórnin getur ráðið sér framkvæmdastjóra Vöruþróunar- og markaðsöflunarsjóðs síldarútvegsins sem verður gjaldkeri sjóðsins, hafi prókúruumboð og sjái um bókhald og fjárreiður sjóðsins eða ákveði vistun sjóðsins á annan hátt og hvernig ávaxta skuli fé hans. Síðan er kveðið á um að sjóðstjórnin skuli fela löggiltum endurskoðanda að annast endurskoðun bókhaldsins.

Í 13. gr. er kveðið nánar á um skipulagsskrána fyrir þennan sjóð. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Leita skal staðfestingar dómsmálaráðuneytis á skipulagsskránni. Á staðfestingardegi skal Vöruþróunar- og markaðsöflunarsjóður síldarútvegsins taka til starfa.“

Nú væri gott að hv. formaður sjávarútvegsnefndar hlustaði á seinni hluta greinarinnar því þar segir:

„Skipulagsskrá þessari má breyta með samþykki sjávarútvegsráðherra og tekur breytingin gildi þegar hún hefur hlotið staðfestingu dómsmálaráðuneytis.“

Samkvæmt þessum orðum í skipulagsskránni og þeim lagatexta sem ég fór yfir áðan má gera ýmsar breytingar á hlutverki sjóðsins án þess að breyta lögum eins og verið er að gera hér, svo lengi sem menn fara ekki út úr síldarútveginum. Það er það sem segir alveg skýrum stöfum, að menn verða að halda sig við síldarútveginn og það sem að honum snýr en menn geti þar farið í annað en upprunalega var hugað að. Nefni ég þá sérstaklega t.d. frystar síldarafurðir. Við sem erum eldri en tvævetur í fiskiðnaði vitum að síldarútvegsnefnd var á sínum tíma í kringum síldarsöltun og síldarsaltendur sem þar voru inni en mér er til efs að ekki mætti breyta skipulagsskránni hér þannig að sjóðurinn gæti farið að styrkja vöruþróun, markaðsöflun, þróun tækjabúnaðar, rannsóknir á markaði, nýjar umbúðir, nýjar vinnsluaðferðir o.s.frv., einnig í frystri síld, ekki bara í saltaðri síld eða söltuðum síldarafurðum.

Ef við horfum á þróunina sem verið hefur í veiðum á norsk-íslenska síldarstofninum og þá þróun sem orðið hefur á vinnslu síldar og um borð í vinnsluskipum þar sem síld er að mestu leyti fryst hefði ég einmitt talið kannski sniðugt að velta því fyrir sér andartaksögn hvort ekki væri rétt að halda þessum sjóð sérstaklega til haga fyrir síldarútveginn, ekki bara söltun síldar heldur líka frystingu. Ég sé í fljótu bragði ekki betur, miðað við lögin eins og þau voru sett á sínum tíma, á árinu 1998, og skipulagsskrána sem sett var í kjölfarið og staðfest af dómsmálaráðuneytinu, en það hefði verið hægt án þess að breyta lögunum. Spurning er hvort það sé ekki nær anda þeirra laga sem sett voru, nær hugmyndum þeirra manna sem stóðu að því að taka fjármuni út úr síldarútvegsnefnd þannig að það yrði ekki hlutafé fyrirtækjanna í einhverju framtíðarfyrirtæki, til að tryggja vöruþróun og markaðsöflun. Þessir menn vissu að ekki var hægt að ganga að mörkuðum vísum. Markaðir komu og markaðir fóru og stundum var erfitt ástand á mörkuðum í Austur-Evrópu og þá björguðu stundum gamlir hefðbundnir markaðir í Vestur-Evrópu síldarsöltuninni á þeim tíma. Menn vissu að þeir yrðu að vera á tánum við að afla markaða fyrir síld og ef markaður lægi ekki fyrir þegar vinnslan ætti sér stað, hvort sem um var að ræða frystingu eða söltun, sátu menn uppi með miklar birgðir sem oft var erfitt að selja. Þá gat tekið langan tíma, sérstaklega ef verkið gekk vel í Noregi, að losa sig við umframbirgðir af síld sem ekki voru seldar fyrir fram eða jafnóðum og þær voru framleiddar.

Menn sáu nefnilega á þessum tíma og skildu að fjármunum til vöruþróunar og rannsókna var vel varið. Það er í tísku núna að tala um rannsóknar- og þróunarkostnað fyrirtækja og nauðsyn þess að fyrirtæki séu með ákveðinn hluta af veltu sinni í R&D eins og sérfræðingarnir kalla það, research & development. Þetta eru ekki ný vísindi. Þeir sem stóðu að því að leggja niður síldarútvegsnefnd á sínum tíma ákváðu að ráðstafa hluta af þeim fjármunum sem þar voru til, og ekki litlum fjármunum, 110 millj. kr. í annan sjóðinn og 80 millj. kr. í hinn. Á þeim tíma voru þetta miklir fjármunir. Það er alveg sama á hvorn sjóðinn við lítum í dag, þrátt fyrir að búið sé að veita styrki og slíkt eins og úr vöruþróunarsjóðnum og markaðsöflunarsjóðnum hefur höfuðstóllinn verið óskertur og virðist hafa tekist nokkuð vel til um það. Ef menn vilja hætta því að styrkja vöruþróun og markaðsöflun sérstaklega í síldarafurðum er tekið á því í skipulagsskránni. Þeir sem hana settu gerðu sér grein fyrir því að ekkert er eilíft. Hvað er sagt í 14. gr. um það ef menn vilja hætta og leggja niður þennan sjóð? Jú, þar segir, með leyfi forseta:

„Sjóður þessi verður lagður niður sé stjórn hans einhuga um það og að fenginni umsögn sjávarútvegsráðherra. Sjávarútvegsráðuneytið tekur þá við öllum eigum sjóðsins til ráðstöfunar og varðveislu. Eignunum verður aðeins ráðstafað í samræmi við markmið sjóðsins sbr. 3. og 4. gr.“

Þarna eru þeir sem settu sjóðinn á laggirnar enn og aftur að tryggja það að þessir fjármunir fari ekki í eitthvað annað en þeim var ætlað að fara í. Jafnvel þó að stjórnin væri einhuga um að leggja niður sjóðinn skyldu fjármunirnir ganga til sjávarútvegsráðuneytisins sem tæki við öllum eignum sjóðsins til ráðstöfunar og varðveislu og gæti einungis ráðstafað þeim í samræmi við þessa staðfestu skipulagsskrá og í samræmi við þau markmið sem hér koma fram.

Getur verið að þessi grein sé ástæða þess að nú vilja menn breyta lögunum? Það þarf nefnilega að breyta lögunum til að hunsa vilja þeirra sem gerðu þetta á sínum tíma. Það er ekki nægjanlegt að fara í gegnum skipulagsskrána því hún heimilar ekki að menn taki þessa fjármuni og setji þá í rannsóknir á vinnslu á karfa eða grálúðuútbreiðslu einhvers staðar á vegum Hafrannsóknastofnunar. Ríkið kemur að þeirri vinnu með öðrum hætti. Ríkið sér Hafrannsóknastofnun fyrir, eða á að sjá Hafrannsóknastofnun fyrir, nægum fjármunum til að stunda þær rannsóknir sem nauðsynlegt er að stunda í þessum mikilvæga atvinnuvegi okkar. Það á ekki að vera að seilast í svona sjóð til að opna fyrir það að hugsanlega fari hann að styrkja ýmsar rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar eða annarra.

Það eru kannski ekkert voðalega miklir peningar í þessum sjóði í dag þó að þeir hafi verið talsverðir þegar þeir voru settir í hann á sínum tíma. (Gripið fram í: Þetta er tiltekið.) Það eru samt sem áður 88 millj. kr. til í sjóðnum. Ég veit að verðbréfagúrúum einhverjum og stórrekstrarmönnum sem eru vanir að höndla með hundruð milljóna á degi hverjum, og þúsundir, þykir þetta ósköp rýr sjóður og rétt í vasann setjandi. Þetta eru þó fjármunir upp á þessa upphæð og eyrnamerktir sérstaklega í þetta verkefni. Ekki hafa komið fram nein rök, hvorki í umræðum á Alþingi né í starfi nefndarinnar, sem útskýra af hverju þörf er fyrir að ásælast þessa fjármuni í annað en í upphafi var búist við að þeir ættu að fara í, af hverju sú þörf hefur risið og af hverju stjórn sjóðsins er að leggja það til, væntanlega, við sjávarútvegsráðuneytið að útvíkka hlutverk hans. Það var rætt í nefndinni að hugsanlega væri það vegna þess að svo lítið væri sóst eftir styrkjum. Ég hef enga trú á því að ef opnað yrði fyrir það að hægt væri að styrkja rannsóknir á markaði fyrir bæði saltaða og frysta síld, ef opnað yrði á að hægt væri að styrkja auglýsingar, markaðssókn inn á nýja markaði, styrkja sérstaklega nýjungar í tækjum og þróun á þeim eins og heimilt er samkvæmt skipulagsskrá sjóðsins, væru ekki einhverjir til að sækjast eftir þeim fjármunum, að fá þá styrki. Ég neita einfaldlega að trúa því að dýnamíkin sé ekki meiri í þessari grein en svo að menn þurfi að fara að opna þennan sjóð fyrir fleirum vegna þess að þeir sem eiga rétt á styrkjum úr honum sæki ekki um þá. Ég held að þá væri nær að sjóðurinn færi í markaðsöflun fyrir sjálfan sig og fyndi sér viðskiptavini til að leggja góðum málum lið.

Ársreikningur fyrir árið 2004 liggur fyrir og sýnir það okkur kannski að sjóðurinn er vel rekinn og vel hugsað um að skila hlutum frá sér á vandaðan hátt eins og þarf að vera þegar farið er með sjóði, hvort sem þeir eru á vegum fyrirtækja, einstaklinga eða ríkisins. Í reikningnum kemur fram að sjóðurinn greiddi út einn styrk á árinu 2004, að fjárhæð 8 millj. kr. Það kemur líka fram að vaxtatekjur og verðbætur af eignum sjóðsins námu 7,1 millj. kr. að frádregnum fjármagnstekjuskatti. Eignir sjóðsins í árslok nema 88,2 milljónum.

Það kom fram í 10. gr. laga þegar verið var að leggja niður síldarútvegsnefnd og stofna Íslandssíld hf. og þessa tvo sjóði sem ég hef gert að umtalsefni að menn vildu að sjóðurinn yrði undanþeginn tekjuskatti. Menn sáu fyrir sér að kannski væri rétt að vera ekki að leggja skatta á sjóð sem hefði það göfuga markmið að styðja við vöruþróun og markaðsöflun fyrir afurðir síldarútvegsins. Sjóðurinn hefur ekki sloppið undan fjármagnstekjuskatti. Hann borgar sín 10% af fjármagnstekjum til ríkisins aftur og er þar af leiðandi orðinn skattgreiðandi hjá ríkinu þó að lögin hafi kannski ekki gert ráð fyrir því þegar þau voru sett. En þarna virðist stjórn sjóðsins hafa ákveðið að greiða út einn styrk upp á 8 millj. kr. sem er 10% af upprunalegum höfuðstól sjóðsins en ekki að nýta sér þá heimild sem skipulagsskráin gerir ráð fyrir og greiða út 7,1 millj. sem eru tekjurnar að frádregnum fjármagnstekjuskatti.

Einhverra hluta vegna, kannski vegna skorts á umsóknum, virðist starfsemi sjóðsins hafa legið í láginni en það kostar samt svolítið að reka hann. Þó að ég eigi ekki von á að stjórnin hafi þurft að koma oft saman kostar samkvæmt rekstrarreikningi tæpar 864 þús. kr. að reka sjóðinn, laun og launatengd gjöld. Annar rekstrarkostnaður er upp á 551 þús. Það er um 1.200–1.300 þús. kr. rekstrarkostnaður á sjóðnum þrátt fyrir að lítið komi inn af umsóknum og ein umsókn sé afgreidd á árinu öllu.

Ég held sem sagt, frú forseti, að það sem sé verið að gera hér sé skref í ranga átt. Ég tel að þarna sé verið að breyta lögum í þá veru að gjörbreyta ráðstöfun þeirra fjármuna sem teknir voru til hliðar þegar ákveðið var að gera síldarútvegsnefnd að hlutafélagi. Ég held líka að það gæti orðið þannig innan ekki mjög langs tíma að síldarútvegurinn í þeirri styrkingu sem hann er þyrfti á þessum fjármunum að halda og sæi kannski svolítið eftir þeim ef þetta frumvarp yrði að lögum og farið yrði að ráðstafa þessum fjármunum í óskyldan iðnað.

Það voru síldarútvegsmenn sem bjuggu til þessi verðmæti á sínum tíma. Það var síldarútvegurinn, aðallega síldarsöltunin, sem bjó til þau verðmæti sem fólgin voru í síldarútvegsnefnd og alveg auðséð að þegar ákveðið var að leggja síldarútvegsnefnd niður vildu þeir sem að henni stóðu og höfðu búið til þessa fjármuni að sá hluti þeirra sem hér um ræðir færi til að afla markaða og stunda rannsóknir og vöruþróun fyrir síldarafurðir.

Það er kannski ekki miklu við þetta að bæta, frú forseti, í fyrri ræðu minni en ég mundi þó vilja hvetja hv. formann sjávarútvegsnefndar til að velta því fyrir sér með okkur hvort ástæða sé til að vera að gera þetta, hvort ekki sé nær að láta þá fjármuni í friði sem þarna eru, vera ekki að opna á að hægt verði að nota þá til allra mögulegra og ómögulegra hluta nánast, heldur að leggjast á sveif með okkur í stjórnarandstöðunni sem höfum velt þessu máli talsvert mikið fyrir okkur og tryggja það að öflugur síldarútvegur, t.d. í Vestmannaeyjum, eigi möguleika á því að sækja um styrki í þennan sjóð.

Það eru ekki orðnir svo margir staðir á landinu. Það eru Austfirðirnir og Vestmannaeyjar og svolítið vestur um sem eru talsvert í síldariðnaði. Ég veit að frystiskipin eru komin til viðbótar og hafa kannski ekki bólfestu í neinni höfn meðan á því stendur, en væri ekki með aukinni síld, síldveiði, síldarvinnslu og síldargengd, ráð fyrir fyrirtæki eins og í Vestmannaeyjum að eiga möguleika á því að sækja í þennan sjóð og að sjóðurinn sé þá til að styðja við síldarútveginn en ekki allt annað? Ég hlakka til, frú forseti, að heyra ræður sem ég vona að hv. formaður sjávarútvegsnefndar fari í og fari aðeins betur yfir það með okkur og fyrir okkur af hverju þurfi að breyta þessu.

Ég tel mig hafa farið yfir það í nokkuð löngu máli, rakið hvernig þessi sjóður varð til og hvaða hugsun var á bak við það að hann var settur á laggirnar. Mér finnst ég ekki hafa fengið nægilega greinargóð svör við því af hverju kasta eigi núna fyrir róða öllum þeim hugmyndum og hugsjónum sem lágu að baki þegar menn settu þennan sjóð á laggirnar. Hver er hin knýjandi þörf til þess? Af hverju þarf að gera þetta? Þetta eru spurningar sem ég vona að hv. þm. Guðjón Hjörleifsson svari af því að mér fannst hann ekki svara mínu stutta andsvari. Ég er reiðubúinn að ræða þetta talsvert miklu lengur við hann eftir að hafa heyrt sjónarmið hans.