131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegs.

583. mál
[15:43]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þegar maður lítur á frumvarpið skyldi maður í upphafi ætla, ef maður þekkti ekki söguna, að um tiltölulega lítið mál væri að ræða. Eins og tveir hv. síðustu ræðumenn, hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Jón Bjarnason, hafa rakið skilmerkilega er málið ekki alveg eins einfalt og það virðist í upphafi þegar litið er á þetta litla frumvarp sem hér er til umræðu.

Síldveiðisaga Íslendinga er mjög fróðleg og fullt tilefni til að velta henni fyrir sér. Hér ræðum við um það að þeir sem síldarútveginn stunduðu mynduðu samtök síldarsaltenda á Norðurlandi og Norðausturlandi og samtök síldarsaltenda á Suðvesturlandi. Þeir höfðu með sér samtök til margra ára. Á vegum þeirra störfuðu oft frábærir einstaklingar sem höfðu geysilega mikið til síldarútvegsins að leggja og auðvitað þjóðarinnar. Þó að ég fari ekki sérstaklega að minna á þá sem oft voru nefndir síldarspekúlantar á fyrri hluta síðustu aldar ætla ég samt að leyfa mér að minna á einn mann sem lengi hafði með síldarútveginn að gera, stóð fyrir okkur í samningum og stóð að sókn inn á nýja markaði og lagði íslensku þjóðarbúi geysilega mikið til ásamt því að vera margfróður um síldina og hegðun hennar. Þessi maður heitir Gunnar Flóvenz og starfaði á vegum síldarútvegsnefndar áratugum saman. Liggja eftir hann margar mjög merkilegar greinar um þróun síldveiðanna hér við land, síldarútveginn, vöruþróun og markaðssókn að því er varðar íslensku síldina.

Við erum reyndar að tala um að við Ísland hafi síldarútvegurinn verið byggður á veiðum á þremur síldarstofnum, þ.e. íslensku vorgotssíldinni, íslensku sumargotssíldinni og síðan norsk-íslensku síldinni svokallaðri.

Það er algjörlega rétt sem hér var vikið að í ræðum manna að á árum áður voru Íslendingar ákaflega háðir síldarútveginum um afkomu sína og síldarútvegurinn skipti sköpum um það hvernig tekjur Íslendinga komu út á sumum árum. Hér var réttilega nefnt að Siglufjörður lagði þjóðarbúinu til allt að 30% af tekjum þess á ákveðnu tímabili. Auðvitað hafa mörg fleiri sjávarþorp notið síldarinnar í gegnum árin og áratugina. Síldarútvegurinn hefur alltaf verið mjög breytilegur vegna þess að síldin er kenjóttur fiskur. Mig minnir að Jakob Jakobsson hafi skrifað ansi góða samantekt um síldina, grein eða kver sem hann kallaði „Síldin veður og kveður“ og greinir frá sögu þessa merkilega fisks og hvaða stöðu hann hafði í afkomu þjóðarinnar og hvernig við nýttum þessa fisktegund.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram hjá fyrri ræðumönnum um að ástæða sé til að staldra við og skoða það sem hér er verið að gera. Hér er verið að taka sérmerktan sjóð sem hefur sérstaka reglugerð og var ætlaður til ákveðinna verkefna, þó ekki þrengri reglugerð eða starfsreglur um hann en svo að hægt er að breyta reglum sjóðsins innan núverandi regluverks um sjóðinn og taka upp aðeins víðtækari verkefni en þó með þeirri takmörkun að það fari ekki út fyrir það svið að styrkja síldarútveginn og þróun síldarafurða, ef það er hægt að orða það svo.

Ég velti því mér, þegar núna er lagt til að opna starfsemi sjóðsins með þeim hætti sem segir í athugasemdum við frumvarpið, að sjóðnum verði fengið það hlutverk að afla nýrra markaða fyrir síldarafurðir eins og var og vöruþróun síldarafurða. Til viðbótar á að rýmka þær þannig að sjóðnum „verði almennt heimilt að styrkja nýsköpun, rannsóknir og fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi“. Ég velti því fyrir mér þegar kemur að kynningarstarfinu hvort menn séu að finna nýjan tekjustofn til að kosta hið fræga útbreiðslustarf stjórnvalda á íslenskri sjávarútvegsstefnu, „bestu fiskveiðistjórn í heimi“.

Eins og orðalagið hér er opið sýnist mér að ekkert sé því til fyrirstöðu að nota sjóðinn til að kosta ferðalög fólks um veröldina til að kynna það kerfi sem við höfum deilt um í 20 ár og sumir hafa kallað „heimsins besta kvótakerfi“. Aðrir sem hafa verið að horfa á árangurinn hafa hins vegar talið að kerfið hafi ekki skilað okkur neinum marktækum árangri. Við sitjum sem sagt enn þá á sama stað varðandi uppbyggingu aðalfiskstofns okkar, þorsksins, eins og við gerðum þegar við tókum stýringu fiskveiðanna upp. Því miður hefur enginn sýnilegur árangur orðið af því.

Ég hefði talið að við ættum að flýta okkur hægt við að marka sjóðnum svo opið starfssvið sem hér er gert, að nánast sé hægt að fara með sjóðinn í allar áttir, eins og lagt er til miðað við að reglurnar verði rýmkaðar. Ég held að líka sé rétt að segja að farið sé á skjön við þá hugsun sem varð til þegar sjóðurinn var stofnaður, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir úr þessum ræðustól þar sem menn fara verulega út fyrir það svið sem þó var talið að menn gætu opnað á.

Það er beinlínis talað um það í reglugerðinni um sjóðinn að verði hann lagður niður skuli samt sem áður nota peningana til ákveðinna hluta sem tengjast því verkefni sem hann var stofnaður til. Ég tel að við séum að öllu samanlögðu að fara á skjön við upphaflegan tilgang sjóðsins og séum að opna heimildina miklu meira en mér finnst eðlilegt og sanngjarnt miðað við það hvað sagt er um sjóðinn verði hann lagður niður og hvernig þá eigi að nota fjármagnið.

Ég velti fyrir mér, ekki síst í ljósi þess að sjávarútvegsráðuneytið hefur yfir fjöldamörgum sjóðum að ráða, hefur áhrif á þá og hefur nýlega stofnað Verkefnasjóð sjávarútvegsins sem fékk miklar tekjur út úr Þróunarsjóðnum hvort nokkur ástæða sé til þess yfirleitt að vera að breyta starfsemi sjóðsins með lagasetningu eins og hér er verið að gera, heldur sé hægt að útvíkka störf hans svo framarlega sem litið er til síldarútvegsins og nýtingar síldar ásamt því að efla atvinnustig sem tengist síldarvinnslu og síldveiðum. Þetta sýnist mér að væri allt heimilt innan núverandi reglugerðar ef vilji stjórnarinnar er að opna frekar.

Oft hefur sóknin verið erfið varðandi markaðsstöðu íslensku síldarinnar, þá kannski sérstaklega hinnar hefðbundnu afurðar sem við framleiddum um áratugi úr síldarstofnunum sem við stunduðum veiðar á hér við land, þ.e. þegar á annað borð var unnin manneldisafurð úr síldinni og síld söltuð niður í tunnur. Við höfum oft átt undir högg að sækja við markaðssetningu á saltsíldinni.

Það eru komnir margir nýir nýtingarmöguleikar á síld, menn flaka hana, skera ofan í gaffalbita og koma henni þannig í saltlegi og kryddlegi á markað. Menn eru farnir að vinna síldina mun meira en áður var. Þar til viðbótar er frysting á síldarafurðum og lagersöfnun á frosinni síld sem er þá hráefni sem er tilbúið í alls konar framhaldsvinnslu, síldarrétti, niðurlagningar, niðursuðu o.s.frv. Þetta held ég að allir Íslendingar þekki og ég trúi því varla að til sé sá Íslendingur sem ekki hafi smakkað síldarafurð af einhverju tagi, annaðhvort úr niðursuðudós, niðurlagningu í krukku, reykta síld eða saltaða, að ógleymdum öllum þeim síldarsalötum og sérverkunum sem menn hafa fundið upp á undanförnum áratugum.

Það verður líka að segjast eins og er að sumar aðrar þjóðir eru okkur Íslendingum framar í þessum efnum, reyndar framar okkur á ýmsum sviðum við fullnýtingu á vöru og nefni ég þar t.d. til þorsklifur sem þjóðir eins og Ungverjar og Úkraínumenn sjóða niður í dósir í sérstökum kryddlegi. Ég leyfi mér að fullyrða að það er eitthvert besta viðbit með brauði sem hugsast getur og algjörlega ónauðsynlegt að nota nokkurt einasta smjör, Smjörva, Léttu eða neitt ofan á brauðið. Það er hægt að nota afurðina beint eins og hún kemur fyrir og er þetta eitt besta álegg á brauð, oft kallað pasta, síldarpasta o.s.frv. Hið sama má segja um lifrina.

Það er fjöldamargt sem við getum gert og það verður að segjast eins og er að við Íslendingar höfum ekki á undanförnum árum gert mikið af því að reyna að sjóða síldina niður eða koma henni í það vöruform að flytja megi hana vítt og breitt um veröldina, líka inn á þau svæði heimsins þar sem er mun hlýrra veðurfar en hér á landi og erfiðara að geyma matvöru og þar sem niðursuðuvaran er það geymsluform sem þekkist best. Þess vegna held ég að sjóðurinn, eins og hann er, hafi alveg feikinæg hlutverk og megi innan þeirra heimilda sem reglur sjóðsins hafa í dag, án breytinga á lögunum með því frumvarpi sem við ræðum, finna sjóðnum mörg og margvísleg verkefni. Mig rennir grun í að kannski hafi ýmsir sem hafa verið með hugmyndir um veiðar og nýtingu á síld og úrvinnslu úr síldarafurðum ekki áttað sig á því og hreinlega ekki vitað af því að sjóðurinn væri til. Ég er nærri viss um það, hæstv. forseti.

Í þessu sambandi langar mig að minnast á að það hefur verið svo á hverju ári eftir að sjór fór að hlýna við Vestfirði og fyrir norðan land að þar kemur síld oft snemma sumars inn á firðina og víkurnar. Að gömlum sið töldu menn sér heimilt að nýta síldina þegar hún óð með ströndinni, svo nærri að varla þurfti annað en að fara á árabát rétt út frá bryggjunni til að leggja síldarnet og nýta þannig síldaraflann. Fyrir því hefur verið aldahefð, held ég, að nýta síldina með þeim hætti, a.m.k. eftir að Íslendingar áttuðu sig á því að hægt væri að veiða síldina, bæði í net og með snurpunótum, mjög nálægt ströndinni. Hverjir skyldu hafa kennt Íslendingum þá nýtingu síldarinnar? Jú, það er þjóðin sem við deilum mest við núna varðandi nýtingu norsk-íslenska síldarstofnsins, Norðmenn sem komu hingað á þarsíðustu öld, á 19. öldinni, og kenndu okkur að nýta síldina, kenndu okkur að veiða hana og kenndu okkur að fara þannig höndum um síldaraflann að koma mætti honum óskemmdum á markaði erlendis, þannig að síldin var söltuð.

Menn höfðu svokölluð síldarupphlöð þar sem menn fengu aðgang að jörðum bænda eða jarðeigenda og greiddu þá landeigendunum sérstakan skatt eða gjald fyrir að fá að nýta þá aðstöðu að veiða síld frá landi hans og hafa aðstöðu til að veiða og verka síldina. Þetta varð til þess á 19. öldinni að Íslendingar lærðu þessar síldveiðar og sáu að þarna var auðvitað hægt að fá mikil verðmæti og tryggja þannig að fiskstofninn, silfur hafsins, sem gekk með ströndinni væri gerður að verðmætri vöru og nýttur. Það er svolítið merkilegt að í íslenska lagasafninu eru enn þá sérstök ákvæði sem beinlínis taka á því að veita mönnum rétt til að nýta síld. Það þótti mikið mál að ef síld gengi í firði hefðu allir rétt til veiðanna. Ég endurtek, hæstv. forseti, að þá hefðu allir rétt til veiðanna. (JBjarn: … fyrir ári.) Ég veit það, hv. þm. Jón Bjarnason. Ég tel að það hafi verið dálítið slys að menn skyldu una því að láta banna sér þetta.

Ég dreg mjög í efa að sjávarútvegsráðuneytið eða Fiskistofa hafi nokkurn þann rétt að banna mönnum síldveiðar. Í lögum um fjarðaveiði manna segir eitthvað á þá leið, hæstv. forseti, að banna má mönnum fjarðaveiði nema síldveiði sé. Lögin tryggja því tvennt, nokkurn forgang manna að fjarðaveiði sinni, þ.e. íbúum fjarðarins sem áttu nokkurn forgang að fjarðaveiði sinni samkvæmt þessum lögum, þó ekki ef það var síld. Síldina áttu allir að fá að veiða, enda lá mikið við að nýta síldargöngurnar þegar þær gengu í firðina og gera úr þeim verðmæti og ekki á vísan að róa að síld héldi sig mánuðum saman í ákveðnum fjörðum. Þess vegna var það beinlínis tryggt í lögum að allir skyldu eiga rétt til síldveiðarinnar. Menn gátu hins vegar þurft að gjalda afgjald til landeigenda ef þeir voru að nýta aðstöðuna til að stunda síldveiðar og draga þannig björg í bú fyrir þjóðina en urðu þá að nýta land annarra manna, landeigenda, bænda þess vegna, og greiða þeim sérstakt afgjald sem var yfirleitt greitt í hlutfalli við það sem framleitt var á viðkomandi stöðum.

Stundum var bændum greitt þetta í fjármunum en stundum í því að þeir fengu ákveðinn tunnufjölda til sín. Það var ekki að ástæðulausu sem lögin voru sett. Þau voru sett vegna þess að þó að Íslendingar hefðu ekki náð miklum tökum á síldveiðum fyrr en Norðmenn komu hingað og byrjuðu að stunda þessar veiðar var mönnum ljóst að síldin var ekki í fjörðunum allt árið. Hún hvarf yfirleitt að vetrarlagi þótt hún kæmi jafnan aftur að vori og væri yfir sumarið og oft langt fram á haust.

Þessa sögu höfum við séð í nútímasíldveiðum okkar, og ekki mjög langt síðan að síldveiði hér við land, þ.e. úr okkar stofni, fór nánast öll fram inni á fjörðum austan lands, innfjarðar en ekki utan fjarðanna. Síðan er það auðvitað svo, eins og oft hefur verið sagt um síldina og var notað í fyrirsögn á grein Jakobs Jakobssonar, Síldin veður og kveður, að hún breytti göngum sínum og lagðist út á dýpri miðin og breytti einnig göngum sínum síðustu árin miðað við það sem hafði verið hér í þó nokkra áratugi áður. Er nú síld farin að veiðast vítt og breitt í kringum landið, bæði við suðvesturhornið og við Látragrunn, Víkurál, fyrir Norðurlandi, Vestfjörðum, norðaustanlands og austanlands. Veiðin er aftur komin í það far að síldin er miklu víðar en áður var. Þá kemur upp þessi skringilega staða þegar síldin fer aftur að ganga í flóa og firði norðan lands á sumrin að þeir menn sem áður höfðu áratuga og alda gamlan rétt sem reyndar er enn þá í íslenska lagasafninu að sérstaklega er fundið að því þegar menn fara með net og veiða sér nokkur tonn til nytja. Þeir eru annaðhvort að veiða í beitu þannig að þeir megi gera út frá þorpunum út á þær fiskveiðiheimildir sem þeir hafa samkvæmt kvótalögunum eða til eigin nota, hvort sem menn vilja salta sér síld í nokkrar tunnur og eiga til eigin nota eða hvernig svo sem menn vilja nýta síldina.

Ég tel að eins og lögin eru framkvæmd núna og eftirlitsþættir sé það mjög neikvætt fyrir framþróun í síldarútveginum, síldveiðum og þar með úrvinnslu síldarinnar. Ég held að það væri jákvætt ef mönnum væri ekki meinað að nýta síldina við strendurnar fyrir framan túnin sín. Menn eru yfirleitt að veiða síldina í lagnet eða í besta falli í einhverja reknetastubba. Þarna er ekki um mikið magn að ræða en það kann vel að vera að í þorpunum norðan lands og vestan og víðar megi taka upp einhvers konar vinnslu úr afurðunum ef mönnum væri það frjálst. En þá kemur kerfið með sína rosalegu taugaveiklun um að hér fari allt á annan endann ef veidd eru einhver örfá hundruð eða þúsundir tonna úr síldarstofninum.

Þetta er afar einkennilegt sjónarmið. Ég hefði talið að sá sjóður sem við ræðum hefði að mörgu leyti næg hlutverk til þess að takast á við í framtíðinni og þyrfti ekki að marka honum svo víðan bás sem nú er verið að gera um að hann geti farið í fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi út og suður. Ég óttast mest að Don Kíkóta-fræðimennirnir sem ferðast um veröldina á vegum íslenska ráðuneytisins til að kynna íslenska sjávarútvegskerfið verði látnir hafa aðgang að sjóðnum. Það óttast ég mest. Er ég nærri viss um að þeir sem sjóðinn stofnuðu á sínum tíma mundu snúa sér við í gröfinni ef slíkt yrði hlutverk sjóðsins að menn væru í trúboði með sjóðinn út um víða veröld.

Nóg er nú samt af fíflaskapnum í því að reyna að halda því fram að við séum með heimsins besta kvótakerfi og alveg stórfurðulegt að við skulum eiga þrælmenntaða menn sem telja sér trú um að sú sé raunin. Það er þó aldrei svo að jafnvel samtök útvegsmanna séu ekki að vitkast þó nokkuð að þessu leyti. Þau lýstu því nýlega yfir að kvótakerfið hefði ekkert með uppbyggingu fiskstofna að gera. Það var fyrir nokkrum dögum þegar við vorum að tala um þorskstofninn. Þau sögðu að það væri fyrst og fremst hagrænt kerfi til að ná hagnaði í sjávarútvegi og hefði ekkert með uppbyggingu fiskstofna að gera. Mjög merkileg yfirlýsing, sérstaklega ef maður rifjar upp ræðurnar sem fluttar voru á árum áður, og þarf ekki að fara langt aftur í fortíðina hjá forustumönnum íslenskra útvegsmanna sem töldu að kvótakerfið væri alveg sérstakt tæki til að byggja upp fiskstofna. Þeir eru sem sagt búnir að henda þeirri hugsun og búnir að gefa út allt aðra yfirlýsingu um tilgang kvótakerfisins.

Þetta var útúrdúr, og þó ekki, frú forseti. Þetta var smápartur af söguskoðun.

Ég vék að því áðan að á seinni hluta 19. aldar voru Norðmenn hér mjög stórtækir við síldveiðar og kenndu okkur Íslendingum nýtingu og veiðar á síld. Reistar voru veiðistöðvar og úthöld vítt við landið og síðar voru einnig reistar síldarbræðslur. Við sáum það, Íslendingar, að mönnum tókst oft að græða mjög vel á þessum útvegi. Þar áður höfðu auðvitað hvalveiðarnar verið hér við land, og voru lengi þó að við Íslendingar bönnuðum hvalveiðar mjög snemma á síðustu öld vegna þess að við töldum að of hart væri gengið með veiðum annarra þjóða í nýtingu hvalastofnanna.

Það er kannski líka svolítið umhugsunarefni, að það skyldi nánast vera örfáum árum eftir að við bönnuðum hvalveiðarnar vegna þess að nánast sæist ekki hvalur við Ísland, stórhvalur. Það sem gerðist upp úr 1920 var að þorskstofninn tók alveg ofboðslegan vaxtarkipp, óx sem aldrei fyrr og veiðin á þorskinum var komin upp í 500 þús. tonn upp úr 1930. Skyldi hafa verið eitthvert samhengi á milli þess að hvalurinn var hér í algjöru lágmarki vegna mikillar veiði Norðmanna og nýtingar og þess að hér kom upp gríðarlega stór þorskstofn eftir að hvalurinn hafði verið veiddur með þeim gassagangi sem fór með í veiðina, ef svo má segja. Norðmenn færðu sig til fram og til baka um landið til að nýta hvalinn. Þetta er ákaflega merkilegt þegar maður setur það í samhengi, annars vegar hvalveiðarnar og hins vegar hin geysilega mikla uppbygging þorskstofnsins sem varð eftir að hvalveiðunum lauk vegna þess að þær voru löngu hættar að vera arðbærar. Það var svo lítill hvalur við landið. Ef ég man rétt var það í kringum 1915 sem við bönnuðum hvalveiðarnar og þá sjáum við að strax upp úr 1920 fór þorskurinn að stækka verulega.

Það er rétt að draga þetta hér inn því að við erum auðvitað líka, þegar við erum að nýta fiskistofnana okkar, að tala almennt um samspilið í náttúrunni og hvernig það spilar með náttúrufarinu við landið og hvernig það hefur áhrif á stöðu sjávarbyggðanna, rétt fólksins og afkomu. Ég vék að því áðan að ég teldi að það væri afar misráðið hjá sjávarútvegsráðuneytinu og Fiskistofu að ganga þannig að mönnum sem væru að veiða sáralítið magn af síld við strendurnar, á sínum fjörðum og víkum, að það framtak væri nánast bannað vegna þess að mönnum væri hótað með kröfunni um að kaupa kvótann af einhverjum öðrum. Ég tel í raun og veru að strandveiðarnar hafi þarna ákveðinn rétt sem menn eigi ekki að láta taka frá sér alveg baráttulaust.

Það er nú svo með sögu sjóða í sjávarútvegi á Íslandi að þar er af mörgu að taka. Þar er alls ekki sama hvernig á er haldið og hvernig menn fara með. Ég segi þetta vegna þess að hér erum við að ræða sjóðinn sem síldarútvegurinn bjó til. Hér á árum áður var til Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins og því miður hafa sumar greinar sem greiddu inn í þann sjóð farið talsvert halloka á undanförnum árum. En ég minnist þess að það var mikill uppgangur t.d. í rækjuveiðum fyrir mörgum árum og verksmiðjurnar sem þá unnu rækjuna tóku sig til og leigðu fjölda báta til þess að gera út á rækjuveiðar og afkoman var góð, enda hefðu menn ekki getað staðið í því að leigja flotann og taka við skipunum nánast allslausum og breyta þeim til rækjuveiða nema vegna þess að afkoman var þokkaleg í þeim veiðum. Því var það að á tímabili voru greiddar verulegar upphæðir inn í verðjöfnunarsjóðinn, m.a. í rækjudeildina, af þeim sem gerðu út þessa báta.

Svo var það að við settum kvóta á rækjuveiðarnar og þá kom kvótinn á bátana, ekki á þá sem höfðu lagt fram allan kostnaðinn við að búa til veiðireynsluna. Tilfærslan varð þannig að margar verksmiðjanna sem höfðu greitt hvað mest inn í verðjöfnunarsjóðinn vegna rækjunnar fengu sáralítið og ekkert út úr sjóðnum þegar þar að kom. Það voru einhverjir allt aðrir, m.a. þeir sem áttu bátana og höfðu fengið úthlutað kvótareynslu, en ekki þeir sem höfðu lagt til allan tilraunakostnaðinn og veiðikostnaðinn. Þetta nefni ég hér vegna þess að það er ekki sama hvernig á er haldið þegar við tölum um sjóði sem eiga að hafa ákveðið hlutverk og það er ekki sama hvernig við förum með þau mál.

Þess vegna tek ég undir orð tveggja síðustu ræðumanna, hv. þingmanna Jóns Bjarnasonar og Jóns Gunnarssonar, um að við skulum fara varlega þegar við skoðum þessi mál. Það er ekki sama hvernig skref við stígum að þessu leyti. Ég veit að jafngóður drengur og hv. þm. Guðjón Hjörleifsson áttar sig á því sem við erum að segja í þessari umræðu, að þó að málið hafi virst lítið þegar það kom inn í sjávarútvegsnefnd og auðvelt að afgreiða það hefur það margar hliðar eins og við höfum verið að rekja hér og það kann að vera að við ættum að fara varlega. Það sem einu sinni var gott er ekki víst að verði alltaf gott.

Ég minnist þess í því sambandi að við fengum kynningu á færeysku fiskveiðistefnunni á landsfundi Frjálslynda flokksins fyrir nokkru. Fyrirlesarinn var spurður að því, þegar hann var búinn að fara yfir það hvernig málin gengju til í Færeyjum og hvað þeir væru ánægðir með fiskveiðikerfi sitt, hvort hann teldi ekki rétt að Íslendingar væru með eins kvótakerfi og Færeyingar eða fiskveiðistjórnarkerfi, það er sóknardagakerfi í Færeyjum. Þá svaraði hann því til hann vissi nú ekki um það, hann vissi bara eitt að fiskveiðistjórnarkerfið í Færeyjum væri mjög gott fyrir Færeyinga en hann væri ekkert viss um hvernig Íslendingum tækist að vinna í svoleiðis kerfi. Það er nefnilega ekki sama frá hvaða hlið menn horfa á hlutina.

Úr því að ég fór að minnast á Færeyinga er auðvitað rétt að nefna það að einmitt vegna þess hversu auðveld og góð samskipti við höfum við Færeyinga hefur okkur tekist á undanförnum árum að ná okkar hlutdeild í norsk-íslenska síldveiðistofninum. Við skulum minnast þess að þegar við vorum að byrja að veiða aftur núna eftir langt hlé úr norsk-íslenska síldarstofninum þá fengum við m.a. aðgang að færeysku lögsögunni og það skipti ekki svo litlu máli fyrir okkur þegar við vorum að reyna að semja við Norðmenn vegna þess að þar höfðum við aðgang að síldinni vegna þess hvernig hún gekk á þeim tíma.

Þetta skulum við hafa í huga og minnast þess að síldarútvegurinn, sem lagði sjálfkrafa á sig skuldbindingar til þess að standa að markaðs- og þróunarstarfi og hafði með sér sérstök samtök, síldarútvegssamtökin, síldarútvegsnefnd, stóð auðvitað í því árum saman að reyna að tryggja íslensku þjóðinni sem best verð og sem fjölbreyttasta markaði fyrir afurðir sínar. Við eigum þessum mönnum mikið að þakka. Ég hef stundum sagt úr þessum ræðustóli að uppbygging íslensku þjóðarinnar á síðustu öld hafi öll verið sótt í sjó, allur arðurinn sem fór til þess að breyta íslenska þjóðfélaginu úr því að vera bændaþjóðfélag og yfir í nútímaþjóðfélag, var allur í sjó sóttur og þar átti auðvitað síldveiðin ekki minnstan þátt. Það skiptir því verulegu máli, hæstv. forseti, hvernig við umgöngumst slíka auðlind og hvaða metnað við höfum til þess að gera úr henni verðmæti og vöru.

Því segi ég þetta að mér finnst við vera að fara dálítið glannalega í opnunina á heimildum í þessum sjóði, að það sé ástæðulaust að fara jafnopið í það og við gerum, ekki síst með tilliti til þess að í reglum sjóðsins eins og hann er þá er hægt að framkvæma þó nokkra opnun, þó takmarkandi að því er snýr að þeim meginmarkmiðum sjóðsins að horfa til eflingar síldariðnaðarins og markaðsstarfs og annars sem koma megi síldarútveginum og þar af leiðandi byggðunum til góða. Ég lít svo á, hv. formaður sjávarútvegsnefndar, Guðjón Hjörleifsson, að eins og reglugerðin er í dag sé þetta þó nokkuð opið fyrir byggðir landsins að því er þetta varðar.

Þá minni ég auðvitað á að í Vestmannaeyjum, þaðan sem hv. formaður er, er nú ekki svo lítil verstöð, staðsett á einhverjum bestu fiskimiðum Íslands þar sem síldin er líka og hrygnir og gengur. Þar hafa verið gerðar tilraunir með að veiða hrognafulla síld til að gera úr henni sérstaka markaðsvöru. Það er því fjöldamargt sem við getum gert til þess að auka nýtingu síldarinnar og nota þennan sjóð til og mér er nær að halda, eins og ég sagði áður í ræðu minni, að menn hafi ekki alveg vitað að hægt væri að sækja í þennan sjóð til útbreiðslu- og markaðsstarfs.

Það þarf alltaf ákveðið frumkvæði, ákveðna hugmyndaauðgi til að finna nýjar leiðir og marka ný spor. Stefna sjóðsins er skilyrt og mér finnst við fara dálítið mikið á skjön við stefnuna sem sett var um sjóðinn og við ganga með nokkrum hætti gegn markmiðunum ef við opnum þetta of mikið.

Ég vék aðeins að því áðan, hæstv. forseti, að sjávarbyggðirnar í kringum Ísland hafa í gegnum árin og áratugi og aldir haft mikla og góða afkomu af því að nýta síldaraflann og gera úr honum vöru og við eigum auðvitað minjar um það. Þar ber auðvitað hæst síldarbæinn Siglufjörð. Það er mjög ánægjulegt að þar skuli hafa verið sett á fót sérstakt síldarminjasafn um þá sögu alla. En það sýnir kannski þröngsýnina í þessari ofstjórn að á síðasta sumri vildu Siglfirðingar fá að veiða nokkrar síldar í firðinum, þeir sáu vaðandi síld rétt fyrir framan bryggjurnar, og fengu ekki. Hvílík ofstjórn í einu ríki. Ég held að þeir hefðu átt að vitna í gömlu lögin um að eigi má banna mönnum veiðar í fjörðum sínum ef það er síldveiði. Síldveiðin er nefnilega frjáls en heimamenn áttu forgang til annarrar veiði. Öllum var frjáls síldveiðin og þar af leiðandi tel ég að Siglfirðingum hefði líka verið frjálst að veiða þessa síld síðastliðið sumar sem og öðrum þeim íbúum strandbyggðanna sem hafa nytjar af því að veiða síld hvort sem er til beitu eða manneldis.

Með ofstjórn okkar á þessum aðgangi þar sem menn eru kannski að veiða örfá tonn er í raun og veru verið að hefta það að frumkvæði manna fái að njóta sín. Það er oft þannig að það er hjá smærri aðilunum, sem stunda tiltölulega litlar veiðar, sem hugmyndirnar fæðast og menn brydda upp á nýjungum. Ég tel að eins og lögin eru framkvæmd í dag séum við að hefta það að fólk sem gæti farið inn á nýjar brautir við nýtingu síldarinnar fái að aðhafast eitthvað í þá veru með því að fá að nýta þann síldarafla sem er nærri ströndinni.

Ég minni á það, hæstv. forseti, að á Íslandi býr núna fjöldi fólks frá öðrum löndum, frá Póllandi, frá Eystrasaltslöndunum. Þetta eru þjóðir sem búa að langri hefð við síldveiðar og síldarnýtingu. Þar af leiðandi má vissulega vænta þess að hægt væri að afla nokkurrar þekkingar til nýsköpunar, m.a. hjá nýbúum landsins, og ég hef oft haldið því fram, eins og fjöldamargir aðrir þingmenn í þessum ræðustól, að við hefðum hag af því, Íslendingar, að fá þekkingu annars fólks inn í þjóðfélagið. Það gæti auðgað þjóðfélagið og eflt það og aukið tekjur og bætt afkomu þegar fram í sækir, en þá megum við ekki sjálf vera með svo þröngar skorður og skrýtnar túlkanir að allar athafnir manna séu bannaðar nema þeir borgi einhverjum öðrum fyrir það eins og málum er komið í dag þegar trillukarlinn þarf að kaupa síldarkvótann af öðrum.

Ég minntist áðan á þann merka mann, Gunnar Flóvenz, sem stóð að því að sjá um síldarútflutning fyrir íslensku þjóðina áratugum saman, mjög merkur maður að mínu viti og maður sem sá til þess að við Íslendingar héldum oft mörkuðum okkar og náðum skynsamlegum samningum um sölu á síld þegar aðrar þjóðir náðu þeim ekki. Það er algjörlega ljóst að þekking hans varð oft og tíðum til þess að okkur tókst að gera verðmæti úr síldveiðum okkar og síldarförmum sem komu hér á land umfram það sem verið hefði ef hans hefði ekki notið við. Þess vegna held ég að íslenska þjóðin eigi þessum manni margt að þakka, enda var þetta nánast ævistarf hans og eftir hann liggja mörg skrif, blaðagreinar og önnur rit um síldina og síldarútveginn.

Þess vegna held ég, hæstv. forseti, að við séum á rangri braut við að festa þau lög í sessi sem við erum hér að ræða. Það væri ástæða fyrir jafn vel gefinn mann og Guðjón Hjörleifsson, hv. formann sjávarútvegsnefndar, að taka þetta mál til endurskoðunar, skoða það út frá hagsmunum hinna minni sjávarbyggða og minni útgerða með það að leiðarljósi að þessi sjóður gæti orðið til þess að efla útveginn og efla nýsköpun. Ég mundi vilja taka þátt í því með hv. formanni sjávarútvegsnefndar að fá einhverja skynsamlega túlkun á því frá ráðuneyti og Fiskistofu að menn mættu nú hafa ákveðið frelsi til síldveiða án þess að það teldist beinlínis lögbrot og það þyrfti að vera að elta menn um það hvort þeir væru að veiða 10 eða 15 tonn á minni bátum frá sjávarbyggðunum. Þetta vildi ég nú segja, hæstv. forseti, og held að það sé bara mikið mál fyrir okkur að við lokum ekki allan frumkvæðisrétt inni í höftum, boðum og bönnum.

Ég minntist áðan á síldarbæinn Siglufjörð sem hefur staðið vel að því að skrá sögu síldveiðanna og búið til um það sérstakt safn. Er það vel, en ég minni líka á það að sums staðar á landi hér, eins og t.d. í Djúpuvík á Ströndum, eru leifar þessa mikla iðnaðar, miklar húsbyggingar, og væri fróðlegt mjög ef hægt væri að búa svo um hnúta að þar mætti sýna fólki það sem gert hefur verið. Það hafa þeir sem núna eru í Djúpuvík á Ströndum gert og unnið að og er mjög þakkarvert að fólk skuli hafa kraft og frumkvæði til að gera slíkt.

Saga síldveiðanna hér við land er mjög merkileg og nýting síldaraflans skiptir miklu máli fyrir okkur, líka í þeim tíma sem við lifum, þ.e. þó að við höfum miklu meiri tækni og miklu meiri getu til að veiða síldina skiptir geysilega miklu máli að við nýtum síldina sem mest til manneldis. Það höfum við svo sem verið að gera í talsvert auknum mæli, m.a. um borð í skipum sem veiða síldina og vinna á hafi úti og eru þar af leiðandi að gera úr henni manneldisvöru, fyrir utan það að tækni síldveiðiskipanna til að geyma síldina kælda og koma með hana til lands hefur gert það að verkum að aflinn er verðmætari en ella væri.

Það er fjöldamargt, virðulegur forseti, sem þessi sjóður sem við erum hér að ræða tengist sem við getum velt fyrir okkur. Þess vegna segi ég það enn á ný að ég tel að við eigum að staldra við og afgreiða þetta mál ekki með þeim hætti sem hér er gert, ekki opna þetta út um allar koppagrundir hvað megi gera með þennan sjóð. Sérstaklega mundi það fara í taugarnar á mér ef það yrði til þess að kynningarstarf á „heimsins besta kvótakerfi“ yrði það sem gleypti upp þennan sjóð og menn væru að senda fulltrúa út um víða veröld til að segja fólki frá því að við séum með svo rosalega gott kvótakerfi sem hafi þó ekki náð nokkrum einasta árangri við að byggja upp aðalfiskstofn okkar. (JBjarn: Heldur síður.) Já, hv. þm. Jón Bjarnason, það er algjörlega rétt hjá þér, heldur síður. Við sitjum fastir í fari þess að ná ekki neinum afrakstri.

Þar komum við auðvitað að ákveðnu máli sem líka tengist síldveiðunum vegna þess að vera kann að við þurfum að endurskoða veiðar okkar á loðnustofninum til að eiga möguleika á að byggja upp okkar verðmætasta stofn í betri mæli en gert hefur verið. Það er skynsamlegt ef við þurfum að takast á við það að gera það meðan við höfum sem mestan aðgang að öðrum veiðum og öðrum verkefnum fyrir uppsjávarveiðiskipin. Það er talið að nú sé að alast upp við Noreg einhver stærsti síldarárgangur sem von er á og menn hafa séð í norsk-íslenska síldarstofninum. Það má reikna með því að innan fárra ára verði hægt að stunda miklu meiri veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum en gert hefur verið hingað til og a.m.k. að auka síldveiðarnar. Við erum líka að stunda kolmunnaveiðar í verulegum mæli þannig að við höfum talsvert svigrúm til að færa áhersluna kannski úr bræðsluveiðunum á loðnu yfir til veiða og nýtingar á öðrum stofnum.

Svo megum við ekki gleyma því að sjórinn hér við land hefur verið að hlýna á undanförnum árum. Lífríkið hefur verið að gjörbreytast, sem mjög ýtir undir þá von að þegar norsk-íslenska síldin sækir vestur á við til ætisleitar muni hún á endanum ganga í miklu magni inn í íslensku lögsöguna, eins og áður var fyrir Norðurlandi, Norðvesturlandi og Norðausturlandi. Þessu getum við átt von á innan tiltölulega fárra ára og getum í raun og veru ekkert spáð í það öðruvísi en svo að þegar hitaskilyrðin verða til staðar ætti ekki að vera nein heftun á því fyrir norsk-íslensku síldina að ganga hér til lands því að kalda tungan í Austur-Íslandsstraumi ætti þá ekki að hefta göngur hennar.

Þá erum við komin að því að taka kannski upp allt aðra nýtingu og meiri manneldisnýtingu á norsk-íslenska síldarstofninum en við gerum í dag. Ég vil láta þá skoðun mína í ljósi, hæstv. forseti, að gangi þetta eftir finnst mér sjálfgefið að þeir staðir sem áður fengu að nýta afla úr norsk-íslenska síldarstofninum, fyrir áratugum síðan, og byggðust upp á því verði ekki algjörlega útilokaðir frá því að taka þátt í því ævintýri sem þá gæti átt sér stað og þeirri verðmætasköpun. Það held ég að við ættum að hafa í huga og að mínu viti er það ekki svo að við höfum gefið norsk-íslenska síldarstofninn til einhverra örfárra manna um aldur og ævi. Við gætum fengið hér miklu meiri afla og allt öðruvísi síldargöngur en við höfum búið við undanfarna áratugi og þá síldargöngu sem væri í líkingu við það sem var hér á árum áður þegar síldveiðar hófust t.d. norður af Húnaflóa í júní, norður undir ísrönd, eins og ég var iðulega þátttakandi í upp úr 1960. Þá var farið í júníbyrjun norður undir ísrönd og byrjað að veiða síldina norður af Hornbjargi og norður af Húnaflóa.

Þetta er auðvitað allt saman breytingum háð og ég held að við eigum að horfa svolítið til þess að við getum mjög fljótlega átt von á því að síldveiðarnar hér við land breytist verulega að þessu leyti. Svo megum við heldur ekki gleyma því að okkar íslenski stofn hefur líka verið að leita inn á flóa og firði norðan lands og vestan í meiri mæli á undanförnum árum en kannski hafði verið einhverja áratugi þar á undan. Þar höfum við líka ákveðna nýtingarmöguleika.

Hæstv. forseti. Ég held að þetta litla frumvarp sem við erum hér að ræða sé mál sem við eigum að taka til betri athugunar. Ég er búinn að fara vítt og breitt um í sögu síldveiðanna, hef svo sem ekki rætt mikið um síldarútvegsbæina, ég hef nefnt Siglufjörð, en þeir voru auðvitað fjöldamargir aðrir. Ég geri ráð fyrir að allir kunni vísuna um Dalvík og Dagverðareyri, þann skemmtilega texta, og við kunnum örugglega líka marga fleiri texta sem tengdust síldveiðinni. Allt er þetta brot af sögu okkar og menningu.

Ég hef haft þá skoðun, hæstv. forseti, að það geti verið ákaflega fróðlegt fyrir erlenda ferðamenn ef siglt er með þá út á vaðandi síldartorfur. Ég hygg að sárafáir íbúar Evrópulandanna hafi nokkurn tíma séð það, að undanskildum kannski nokkrum Norðmönnum og Dönum. Þar er partur af lífríkinu. Við erum að sýna hér hval með þó nokkrum árangri, að ég tel, og með vaxandi síldargengd mun lífríkið verða fjölbreyttara. Það getur verið mjög fróðlegt að sýna fólki sem aldrei hefur séð vaðandi síld þessa óhemjuflekki sem geta verið á sjónum.

Þá megum við heldur ekki gleyma því að einhver frægasti hvalur síðustu áratuga, háhyrningurinn Keikó, sem hv. formaður sjávarútvegsnefndar þekkir náttúrlega vel úr Vestmannaeyjum, er jú síldaræta. Sú hvalategund, háhyrningarnir, er síldarætur alveg í heilum hópum. Háhyrningarnir haga göngum sínum um íslenska hafsvæðið og reyndar önnur hafsvæði í samræmi við göngur síldarinnar og nýtingu hennar. Það er fjöldamargt sem tengist síldargöngum, síldveiðum og nýtingu síldarinnar og er ekki bara bundið við kannski það sem við höfum verið að gera á árum áður. Túristinn sem vill sjá náttúru og vill sjá sjávarfar og það lífríki sem hægt er að bjóða upp á þar hefur aldrei fengið að sjá slíkt. Hann getur orðið algjörlega uppnuminn við að fá að sjá slík fyrirbæri. Þess vegna held ég að það megi jafnvel horfa til þess að almennar skoðunarferðir til sjávarins, ekki bara á hval heldur öðru lífríki, geti verið sú söluvara sem megi gagnast okkur varðandi ferðamennskuna. Á þetta eigum við að horfa alveg blákalt.

Mér finnst t.d. mjög merkilegt að fara um borð í skip erlendis sem eru með glerbotn og sigla um hafsvæði til að sýna lífríkið neðan sjávar. Við erum ekki komin af stað í þessa þróun hér svo neinu nemur, ekki mér vitanlega. Við höfum þó að sumu leyti einhver bestu svæði til að sýna botnlífríkið sem hugsast getur. Á ég að nefna eitthvert svæði sem er afar áhugavert að þessu leyti, t.d. Breiðafjörð? Og hvers vegna Breiðafjörður? Það er vegna þess að sjávarföllin eru svo geysilega mikil, allt að sex metra munur flóðs og fjöru sem þýðir að það er hægt að sýna allt annað lífríki á flóði en fjörunni í svona túristaferðum. Í hreinum og tærum fjörðum Íslands er hægt að sýna lífríkið á mjög fjölbreyttan hátt með skipum sem hafa góðan glerbotn og sigla á hægri ferð. Í Breiðafirði hagar svo til að menn geta verið að skoða kannski dýpi á fjörunni sem þeir ella sæju alls ekki og lífríki sem ekki væri hægt að bjóða upp á annars staðar þar sem sjávarföllin eru miklu minni, eins og t.d. í Húnaflóa. Þar eru sjávarföllin miklu minni en í Breiðafirði. Á móti kann að koma að sjórinn í Húnaflóa er yfirleitt mun tærari en í Breiðafirði vegna þess að það er miklu meiri þörungagróður í Breiðafirðinum, hafið verður oft dekkra og þetta er auðvitað háð skyggninu í sjónum. Þess vegna er nýting sjávarins mjög fjölbreytileg og ekki hægt að útiloka neitt í þeim efnum.

Ég held í raun og veru að við Íslendingar séum kannski svolítið á eftir, kannski jafnvel aftarlega á merinni miðað við það sem margar aðrar þjóðir gera í því að sýna lífríki sjávarins og selja aðgang að því. Við höfum okkar hreinu náttúru og höfum gert allt of lítið af því að selja hana tengda sjónum en gert mikið af því að reyna að selja hana til hálendisins. Ég hef stundum sagt það í þessum ræðustól að eitt meginverkefni okkar Íslendinga á næstu árum verði að dreifa ferðamönnum um landið, koma í veg fyrir það að þeir séu á tiltölulega fáum stöðum og að ágangur verði þar af leiðandi of mikill á ákveðna ferðamannastaði. Ég held að við eigum að horfa til þess að þetta er mjög áhugaverður kostur. Ég hvet þá sem eru í ferðamennsku til að hugleiða þetta og fara að kynna sér með hvaða hætti má opna inn á sýningarferðir niður í sjóinn en ekki bara það sem er á yfirborðinu.

Hæstv. forseti. Nýting sjávarins og nýting náttúrunnar í heilu lagi er auðvitað nokkuð sem skiptir okkur verulegu máli. Þó að við séum hér að mestu leyti að tala um síldarnýtinguna og sjóðsstofnun út frá því sem stofnað var til með síldarnýtingu eru ýmsir möguleikar sem hægt er að horfa til sem tengjast síldveiðum og síldargöngum eins og ég hef vikið hér að í máli mínu.

Þess vegna hvet ég til þess að formaður sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, líti nú á þetta mál upp á nýtt og velti því hreinlega fyrir sér hvort það sé nokkur ástæða til þess að fara með það í gegnum þing á þessum vordögum. Þetta er ekki stórt mál í texta en á því eru ýmsar hliðar eins og við höfum verið að velta upp í þessari umræðu og ég vona að ræða mín hafi m.a. gert það að verkum að hér hafi verið dregin fram ýmis sjónarmið sem menn geta velt fyrir sér. Margt mætti kannski betur fara ef við hugsuðum okkur betur um. Ég veit alveg upp á mína tíu fingur, hæstv. forseti, að það fer ekkert á hliðina þangað til í haust þó að við látum þetta mál bíða, ekki nokkur skapaður hlutur.

Ég held að ég láti þetta nægja í bili. Það getur vel verið að ég taki aftur til máls ef mér finnst ástæða til. Það eru auðvitað svo fjöldamargar upplýsingar sem tengjast síldarnýtingunni og síldarútveginum sem væri ástæða til að koma á framfæri úr þessum ræðustól og gefa fólki tækifæri á því að kynnast svolítið íslensku síldveiðisögunni, nýtingu síldarinnar og framtaki þeirra manna sem að því stóðu á sínum tíma en ég held að ég láti núna máli mínu lokið.