131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegs.

583. mál
[16:48]

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir mjög yfirgripsmikla ræðu. Ég skal viðurkenna að ég var orðinn svangur þegar hann var búinn að tala um alla síldarréttina og alla þá möguleika sem kæmu með síldinni og við Jón Bjarnason fórum fram í eldhús og ætluðum að fá síld en hún var ekki til og við fengum því skyr í staðinn.

Það er smámisskilningur í þessu. Forræðið er ekki hjá okkur. (Gripið fram í: Við verðum að samþykkja lagabreytingu.) Já, við verðum að samþykkja lagabreytingu en þetta er sjálfseignarstofnun, sjávarútvegsráðherra á að annast skipulagsskrá og þar eru breytingarnar á skipulaginu. Það eru félög síldarsaltenda sem tilnefna í stjórn, fjögurra manna stjórn. Það eru síldarsaltendur á Norður- og Austurlandi og Suður- og Vesturlandi og sjóðurinn lýtur alfarið stjórn síldarútvegsmanna, enda er hann byggður upp fyrir það fé sem þeir greiddu til síldarútvegsnefndar af verðmæti útfluttra síldarafurða á sínum tíma. Þetta er ekki sjóður sem tilheyrir okkur, ríkinu eða Hafró. Þetta er sjálfstæður sjóður sem er með stjórn aðila, síldarútvegsmanna. Heimildin er ekki okkar. Við erum að gefa svigrúm til að menn nýti það fé sem þeir eiga, styrki nýsköpun, rannsóknir, og fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi. Það er kannski stóra málið í þessu. Ef þetta væri sjóður innan okkar kerfis tækjum við kannski umræðuna á öðrum forsendum.