131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegs.

583. mál
[17:16]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ítreka ósk mína um að fá upplýsingar um hvernig fjármunum úr sjóðnum hefur verið varið. Þetta er ekki einkamál einhverra manna í einhverjum félögum. Þá værum við ekki hér að ræða þetta. Það kemur skýrt fram í lögum frá 1998 um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd að þetta er ekkert einkamál.

Það er ekki hægt að láta það daga hér uppi, heldur verðum við að ræða þetta málefnalega. Þegar til stendur að breyta hlutverki sjóðsins verður að koma fram hvernig fjármununum hefur áður verið varið og hvernig menn hyggjast verja þessum fjármunum. Það er eðlileg krafa. Ég vona að formaður sjávarútvegsnefndar sjái sóma sinn í því að koma með almennnilegar upplýsingar um málið þegar hann leggur það fram.