131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Geðlyfjanotkun barna.

[10:33]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Það svar sem liggur hér fyrir við skriflegri fyrirspurn hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur er mjög ítarlegt og rekur þetta mál vel. Það sem kannski er sérstakt við svarið við fyrirspurninni og er ekki algengt er að í fyrirspurninni er einmitt sagt hvaða næstu skref í þessu máli heilbrigðisráðherra hyggist taka. Ég hef ekki neinu við það að bæta núna. Ég mun óska eftir því við landlækni og Miðstöð heilsuverndar barna að skoða á breiðari grundvelli samráð við sálfræðiþjónustu skóla og Félagsþjónustu sveitarfélaga hvernig best verði brugðist við hinni miklu aukningu á athyglisbresti og ofvirkni barna sem virðist hafa átt sér stað að undanförnu. Það er einboðið að í þessu samráði verða fleiri kallaðir til, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi.

Ég mun einnig beina því til landlæknis og Lyfjastofnunar að kanna hvort eitthvað óeðlilegt sé á seyði varðandi kynningar, ávísanir og notkun þessara lyfja. Ég tel að nú séu möguleikar á því vegna hins nýja lyfjagagnagrunns sem er kominn í notkun hjá landlæknisembættinu. Það á að vera möguleiki að fylgjast með því hvort einhverjar óeðlilegar ávísanir séu á ferðinni hjá einstökum aðilum.

Við munum fylgjast með þessu máli. Það er mjög áríðandi að bregðast við þeirri þróun sem hér er rakin en þetta eru fyrstu skrefin á þeirri leið.