131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Geðlyfjanotkun barna.

[10:35]

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að taka upp þetta mál undir liðnum um störf þingsins. Það er afar brýnt að við tökum heildstætt á þessum málum og við þurfum líka auðvitað að varast það að foreldrar fái sektarkennd yfir því að hafa börn sín á lyfjum, ég hvet til þess að við dettum ekki í þann pyttinn. Lyf geta verið ágætislausn og geta verið skjót lausn á bráðum vanda en við þurfum jafnframt að hafa heildarsýn fyrir hvert barn. Stuðningur við foreldra er þar af leiðandi afar mikilvægur.

Við sjáum mikilvægi t.d. atferlisþjálfunar hjá einhverfum. Við þurfum að skoða margar leiðir. Við þurfum að fara að greiða niður sálfræðiviðtöl sem eru oft enn þá brýnni en kannski lyfin sjálf þannig að samhliða þessu öllu verðum við að skoða málin heildstætt og jafnframt styðja foreldra við að leita framtíðarlausna en ekki skammta þeim plástur svona til þess að byrja með.