131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Geðlyfjanotkun barna.

[10:40]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða mjög ískyggilega þróun að mínu viti. Ég er þannig gerður að ég byrja oft að velta fyrir mér ástæðunum frekar en að velta fyrir mér þeim textum sem settir eru á blað að þessu leyti. Ég velti því fyrir mér satt að segja, hæstv. forseti, hvort þjóðfélagið okkar hafi á undanförnum árum verið að breytast með þeim hætti að við sinnum börnunum einfaldlega ekki nógu vel. Við höfum ekki tíma til þess. Allir foreldrar eru vinnandi úti alla daga og síðan er tímastressið við að komast að og frá vinnu, að og frá leikskóla, að og frá skóla o.s.frv. Síðan er þessi endalausa tilhneiging til að setja börnin fyrir framan sjónvarpstækið og stinga spólu í það til að láta þau eyða tímanum.

Ég held að það þurfi að fara að skoða mjög gaumgæfilega hvort ekki sé hægt að finna önnur úrræði en þjóðfélagið okkar býður upp á og eins og það þróast. Það er mín skoðun að ef við höldum áfram á sömu braut og við höfum verið muni þessi vandamál aðeins vaxa. Ég held að við þurfum að líta til fjölskyldunnar, hvernig hún hagar sínu lífi, hvernig vinnutíma er hagað hér á landi og hvernig byggð er upp ákaflega mikil pressa á foreldrana. Það hlýtur eitthvað virkilega að hafa breyst í þjóðfélagi okkar frá því að börnin höfðu meira athafnafrelsi, bæði á heimilum og í sveitum, þannig að þetta er eitthvað sem ég tel að við þurfum virkilega að skoða. Þessi þróun er stórhættuleg fyrir íslenskt þjóðfélag.