131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[10:48]

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á búnaðarlögum, nr. 70/1998, með síðari breytingum, frá landbúnaðarnefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund B. Helgason og Hákon Sigurgrímsson frá landbúnaðarráðuneyti og Halldór Runólfsson frá embætti yfirdýralæknis. Þá bárust umsagnir frá embætti yfirdýralæknis og Bændasamtökum Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að felld verði úr gildi heimild búnaðarsambanda til þess að innheimta sérstakt gjald hjá mjólkurframleiðendum af allri innveginni mjólk í afurðastöð vegna sæðinga mjólkurkúa. Gjaldið er nú 1,7% og er lagt á alla framleiðendur án tillits til þess hvort þeir nýta sér þjónustuna. Telur nefndin mun heppilegra að þeir framleiðendur sem nýta sér þjónustuna greiði fyrir hana enda er séð fyrir framlagi til kynbóta og þróunarverkefna í nautgriparækt í nýgerðum samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðenda sem tekur gildi 1. september 2005.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Einar Oddur Kristjánsson, Lúðvík Bergvinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir þetta nefndarálit rita auk mín hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir, Birkir J. Jónsson, Jón Bjarnason, Guðmundur Hallvarðsson og Dagný Jónsdóttir.