131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:06]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek alveg af öll tvímæli um að ég stend að þessu nefndaráliti. Það sem ég er hins vegar að gera er að slá þá varnagla að þarna er á vissan hátt verið að færa til kostnað og félagslega uppbyggingu á mikilvægu starfi sem hefur verið ræktun íslenska kúakynsins, sem áður var að stórum hluta fjármagnað með ákveðinni hlutdeild af afurðastöðvaverði mjólkur en færist nú yfir í að verða hluti af samningi við ríkið.

Það er bara svo því miður, herra forseti, að á æ fleiri sviðum, m.a. líka fyrir tilverknað lagasetningar af hálfu ríkisins, er verið að veikja og brjóta niður félagslegan styrk, félagsleg verkefni sem m.a. landbúnaðurinn hefur byggt upp. Það hefur verið árátta núverandi ríkisstjórnar að brjóta það niður og veikja og þess vegna er ég að slá þessa almennu varnagla og jafnframt að gera grein fyrir hversu mikilvægt þetta gjald er. Þessi þátttaka allra bænda, allra mjólkurframleiðenda með því að greiða sérstakt gjald af innveginni mjólk hefur skipt grundvallarmáli fyrir uppbyggingu á kynbótastarfi í nautgriparæktinni og um það þurfum við að standa vörð.