131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:09]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ágætri ræðu sinni um félagshyggjuna sem ég tek undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni sagði hann eitthvað á þá leið að íslenska kýrin væri orðin fullkomlega samkeppnisfær við aðra kúastofna. Við stjórnmálamennirnir verðum að segja það sem satt er og rétt. Ef hv. þingmaður á við að hún mjólki orðið jafnmikið og sterkustu kúastofnar heimsins þá er það rangt. Íslenska kýrin hefur bætt sig, bæði er það fóðurverkun og kynbætur sem hafa skipt miklu máli á síðustu árum, nú mjólkar hún yfir 5.000 lítra að meðaltali en það eru til kúastofnar sem mjólka yfir 10.000 og jafnvel upp í 12.000 lítra á ári að meðaltali. Það er því ekki rétt.

Hins vegar er það staðreynd málsins að eins og sagt var um hina snjöllu kaupmenn Silla og Valda, ef ég man rétt slagorðið ,,af gæðunum munuð þið þekkja þá“ þá snýr þetta að íslenskum landbúnaði. (Gripið fram í: Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá.) Já, af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá. Þess vegna á það kannski við íslenskan landbúnað að „af gæðunum skuluð þið þekkja þá“. Nú er það að gerast að það er ekki bara lambakjötið sem fer um heiminn, ekki bara hesturinn, ekki bara ullarvörurnar, nýjustu tíðindin í þessum efnum eru að Whole Foods búðirnar í Bandaríkjunum, menn á Ítalíu, í Danmörku, í dýrustu búðum heimsins eru að viðurkenna íslenskan landbúnað. Nú er osturinn, smjörið, ísinn, jógúrtin, að ég tali nú ekki um skyrið og skyrdrykkinn, að fara inn í þessar bandarísku búðir og þessir kaupmenn vilja viðurkenna íslenskan landbúnað og selja þessar vörur dýrt í búðum sínum. Meira að segja vilja þeir að auki fá inn í búðir sínar Nóa – Síríus súkkulaðið af því að það er mjólkurduft frá Blönduósi sem er notað í það súkkulaði.

Hér eru auðvitað stórtíðindi á ferðinni. Þess vegna verða íslenskir bændur alltaf að gera sér grein fyrir því, og Íslendingar, að það er á gæðunum sem við förum þetta, á þessu fjölskylduvæna samfélagi sem rekið (Forseti hringir.) er í sveitunum, í þessu hreina landi og við þær góðu aðstæður sem íslenskur landbúnaður hefur þróast.