131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:14]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt sem Whole Foods búðirnar og þeir menn sem eiga viðskipti við okkur þar viðurkenna er hve bragðgæðin á mjólkinni hér eru mikil og hvað náttúra Íslands er hrein, hvað landbúnaðurinn er fjölskylduvænn. Að þetta sé nokkurs konar „handmade“ hér, eins og glervörurnar í Kína eða eitthvað slíkt. Þetta viðurkenna menn og leggja áherslu á. Þess vegna þykir íslenska smjörið hvað gæði og bragð varðar alveg einstakt í hugum þessara sælkera. Hinn menntaði heimur, hinn hræddi heimur vegna verksmiðjubúanna er að leggjast á sveif með landbúnaði eins og hann er rekinn á Íslandi og reyndar víðar. Þarna liggja því tækifæri bændanna, í þessari sérstöðu.

Hins vegar hefur aldrei verið leyfður innflutningur eða skipti á kúakyni hér, það hefur aldrei komið til tals. Menn gera sér grein fyrir að íslenski kúastofninn er afar lítill af því að ef kýrnar fara að mjólka meira, þá fækkar í stofninum. Það getur orðið kynbótalega erfitt horft til framtíðar. Þess vegna ætluðu bændurnir á sínum tíma að gera tilraun og bera saman norska kú, íslenska kú og kannski blendingskú úr þessum tveimur kúakynum til að sjá hvað væri hagkvæmast. Ég var aldrei hræddur fyrir hönd íslensku kýrinnar. Ég tala ekki um þegar þessi heimur blasir nú við okkur.

Af tilrauninni varð ekki, en umræðan heldur auðvitað áfram. Mér finnst samt sem áður að það hafi áunnist á síðustu fimm, sex árum viðurkenning á íslenskum landbúnaðarvörum sem hágæðavörum um heim allan.