131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:16]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra kom á vissan hátt að kjarna málsins. Það vistvæna, umhverfisvæna og fjölskylduvæna búskaparform sem við höfum lagt áherslu á hér á landi er einmitt að fá aukið vægi út um heim og við komum betur að síðar í umræðum í dag hvað varðar fjárhagslegan stuðning og annað sem er að færast í auknum mæli yfir á þá þætti í landbúnaði.

Þess vegna legg ég áherslu á að í þeim lögum sem við fjöllum um séu allir jafnréttháir, öll bú jafnrétthá í kynbótastarfinu þannig að ekki sé hægt að mismuna búum á nokkurn hátt eftir stærð, legu eða neitt þess háttar. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Ég er alltaf feginn þegar ég heyri hæstv. landbúnaðarráðherra lýsa stefnu sinni í ræðustól Alþingis þar sem hann varar við samþjöppun og stórbúarekstri, en síðan verður oft minna úr því þegar komið er út í aðgerðirnar, því ein mesta ógn við mjólkurframleiðsluna í landinu er einmitt uppkaup á greiðslumarki, beingreiðslur og samþjöppun. Það er ein mesta ógnunin sem hæstv. ráðherra þyrfti að taka betur á.