131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:26]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið tengist málið ýmsum meginþáttum í skipan landbúnaðarmála. Óhætt er að halda því fram að þegar litið er yfir sviðið eru víða blikur á lofti hvað varðar framfarir og fyrirkomulag í málefnum landbúnaðarins. Við höfum áður rætt þá stöðu sem upp kom þegar tilteknir aðilar stofnuðu Mjólku og fóru að framleiða fyrir utan styrkjakerfi landbúnaðarins. Óhætt er að spyrja hvort hið gamla styrkjakerfi eins og við þekkjum það muni riða til falls með þessari þróun og ýmsu öðru því sem er að gerast á sviði landbúnaðarmála. Hvort við munum sjá það miklar meginbreytingar á skipan landbúnaðarmála og stuðningi við búvöruframleiðslu ýmiss konar á næstu árum að kerfið eins og við þekkjum það muni líða undir lok.

Margt styður þá þróun eins og himinhátt verð á mjólkurkvóta, sem gerir nýliðun í þeirri grein mjög erfiða og má segja að það sé ákveðið uppnám hvað varðar nýliðun í framleiðslu á mjólk. Þetta er að færast á miklu færri hendur. Búin eru að stækka feikilega mikið og þar á sér stað mjög hröð og ör þróun án þess að nokkur pólitísk stefnumörkun virðist liggja þar að baki af hálfu hæstv. landbúnaðarráðherra, sem hefur af og til nefnt að heppilegt væri að um væri að ræða lítil eða meðalstór fjölskyldubú en ekki þessar stóru verksmiðjueiningar.

Stjórnvöld hafa ekki staðið sig í að færa styrkjakerfi í landbúnaði til nútímans eða í hina pólitísku umræðu og má segja að með þeim sofandahætti hafi stjórnvöld að því leytinu brugðist bændum og landsbyggðinni. Til að landsbyggðin og landbúnaðargreinarnar séu styrktar með einhverjum hætti verður að viðhalda ákveðinni samfélagssátt um þann stuðning. Af og til hefur komið upp umræða hvort ekki sé eðlilegra og heppilegra að styrkja bændur og landsbyggðina með þeim hætti að binda þá við svokallaða byggðastyrki í stað framleiðslutengdra styrkja.

Þá umræðu hefur ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks aldrei tekið. Það hefur aldrei verið tekin heildstæð umræða um stöðu mála á sviði landbúnaðarmála, heldur göslast áfram í einu málinu og ekki öðru og horft fram hjá því hvað þarf raunverulega að gera, á meðan aðrar greinar eru lítið studdar.

Við sáum skrípaleikinn í kringum stofnun umboðsmanns íslenska hestsins. Fjármunir voru ekki veittir beint til greinarinnar, til hrossaræktenda, þannig að þeir gætu varið fénu eins og þeir teldu best til markaðsmála og kynningarstarfsemi fyrir íslenska hestinn á erlendri grund. Þetta var einhver skyndihugdetta hæstv. ráðherra sem var hrint í framkvæmd án þess að taka neitt tillit til þeirra sem standa í hrossaræktun og flytja út, enda kom strax fram mjög afgerandi gagnrýni á að verið væri að setja hið litla fjármagn sem væri til staðar til að styðja við greinina í þennan farveg, en ekki að styðja beint við þannig að greinin moði úr þar sem á þarf að halda.

Eins að þeir styrkir sem ég tel að samfélagið eigi að halda úti til að styðja við bakið á landsbyggðinni og landbúnaðinum, þá hljóti það að eiga að vera þannig að við eflum einkaframtak manna sjálfra, eflum einstaklingsframtak bændanna og fólksins sjálfs út um hinar dreifðu byggðir, í staðinn fyrir að njörva það einungis niður með þeim hætti sem hér þekkist og afleiðingarnar þær að sauðfjárræktin er að leggjast á hliðina, algjörlega. Fátækustu íbúar Íslands eru sauðfjárbændur með lítil bú, fyrir utan þá sem þurfa að draga fram lífið á bótum og ellilífeyri. Við þeirri alvarlegu stöðu hefur aldrei verið brugðist. Síðan er þróunin hinum megin sú hvað varðar mjólkurframleiðsluna að þar er framleiðslan að þjappast á örfá stór verksmiðjubú, sem getur vel verið að sé að sumu leyti viðunandi eða ágæt þróun að búin stækki og þeim fækki og framleiðslan verði hagkvæmari o.s.frv.

Menn hljóta einnig að bera þá skyldu gagnvart landsbyggðinni, bændunum og landbúnaðinum að um þá skipan mála sé tekin heildstæð pólitísk umræða og það rætt hér og reifað hvernig best sé að styðja við greinina. Ég er sannfærður um að við eigum með ýmsum hætti að styðja beint og óbeint við landbúnaðinn og landsbyggðina. Ég hefði viljað sjá hæstv. landbúnaðarráðherra, sem er mikill áhugamaður um uppgang og framgang landbúnaðarins almennt, taka einhver skref í þá átt í staðinn fyrir að viðhalda gömlu og að mörgu leyti handónýtu og úreltu kerfi hvað varðar stuðning við landbúnaðinn.

Við þurfum að styðja með öðrum hætti við þetta þannig að stutt sé við bakið á ungum bændum sem vilja hasla sér völl án þess að þurfa að taka tugmilljóna eða hundruð millj. kr. lán í bankastofnunum til að kaupa t.d. mjólkurkvóta á himinháu verði. Menn hljóta að spyrja sig spurninga um þróun mála þar, hvenær nóg sé komið og hvenær verð á mjólkurkvóta er orðið óeðlilega hátt, enda er kvótinn orðinn stærstur hluti af verðgildi bújarða þar sem mjólkurkvóti er til staðar.

Við hljótum því að setja ýmis spurningarmerki við stöðu landbúnaðarmála, þó margt sé þar að sjálfsögðu ágætlega gert og mikill hugur í bændum og mikill uppgangur víða í sveitum. Við ræddum fyrr í haust um ferðamál, ferðaþjónustuna, menningartengda ferðaþjónustu og hvernig margir bændur hafa haslað sér völl þar og náð frábærum árangri við erfiðar aðstæður hvað varðar ferðamál, bændagistingu og uppbyggingu á alls konar ferðatengdri þjónustu. Þar hafa menn unnið mikið og gott starf án þess að stjórnvöld hafi liðkað neitt sérstaklega til fyrir þeim, enda auðvelt að halda því fram að hin eiginlega landbúnaðarpólitík sé stöðnuð og stopp nokkra áratugi aftur í tímann. Það hefur í raun lítið gerst af hálfu stjórnarflokkanna, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, annað en að standa vörð um úrelt kerfi sem svarar með engum hætti kalli tímans, endurspeglar ekki með neinum hætti það ástand sem þarf að vera, þá þróun sem þarf að eiga sér stað, þannig að stutt sé almennt við þá sem vilja hasla sér völl í hinum dreifðu byggðum með byggðatengdum hætti en síður framleiðslutengdum, alla vega ekki eingöngu.

Um þetta vantar allan pólitískan stefnuramma af hálfu stjórnvalda. Ótrúlegt í rauninni að gera sér það í hugarlund að hæstv. landbúnaðarráðherra — segjum sem svo að Framsóknarflokkurinn gjaldi afhroð í næstu kosningum eins og flest bendir nú til að gerist nema eitthvað mikið breytist, — ætli að fara frá án þess að hafa reist sér þann minnisvarða að hafa endurnýjað sáttina um stuðninginn við landsbyggðina og búnaðarframleiðsluna og endurnýja með einhverjum hætti og fært til nútímans þann stuðning, þannig að um megi ríkja víðtæk sátt í samfélaginu, inn í tímann og um framtíð.

Þetta vona ég að hæstv. ráðherra skýri hér í dag og á næstu vikum og missirum, enda mörg mál sem tengjast landbúnaðinum til umræðu í dag, útflutningur hrossa og fleiri mál sem mörg hver eru alveg hreint ágæt og prýðileg, en beina að sjálfsögðu sjónum okkar að því hvernig staðan í greininni er raunverulega.

Eins og ég sagði áðan er hún að mörgu leyti alvarleg, að mörgu leyti góð, en þeir sem kannski hafa einmitt reitt sig hvað mest á stuðninginn, sem eru t.d. sauðfjárbændur, eru að fara mjög illa út úr því. Staðan þar er mjög alvarleg og þeir bera ekki mikið úr býtum.

Eins hljótum við að spyrja spurninga af hverju menn ganga ekki lengra í að styðja við grænu stóriðjuna, garðyrkjuna, með frekari niðurgreiðslu á rafmagni til greinarinnar eins og margoft hefur verið bent á að sé mjög hagkvæmt, enda um að ræða hollustugrein, gjaldeyrissparandi hollustugrein þegar kemur að grænu stóriðjunni, ylræktinni og grænmetisframleiðslunni. Mér er algjörlega hulin ráðgáta af hverju stjórnvöld hafa ekki gengið lengra og rösklegar fram í því að styðja við bakið á grænmetisiðnaðinum um leið og við erum að niðurgreiða stórkostlega rafmagn til erlendrar stóriðjuframleiðslu, þá hafa menn ekki gengið nærri því nógu langt í þessu efni.

Staðan í landbúnaðarmálum er efni í sjálfu sér í margra daga umræður á hinu háa Alþingi og seint sem þau mál verða rædd eða brotin að fullu til mergjar. Það hefur gengið á ýmsu í greininni á síðustu árum. Við sáum þær hremmingar sem hvítakjötsræktendur lentu í þegar bankastríðið stóð sem hæst í þeim málum öllum og hve margir fóru mjög illa út úr því, þó svo að jafnvægi sé að komast á aftur núna. Fyrir okkur sem erum áhugamenn og höfum pólitískan vilja til að styðja myndarlega við landbúnaðinn og hinar dreifðu byggðir til að Ísland allt haldist í byggð, þá verður að gera það með sanngjörnum og eðlilegum hætti þannig að sem flestir hafi aðgang að og það styðji við bakið á ungu og kraftmiklu fólki sem vill hasla sér völl í hinum dreifðu byggðum og um það sé sátt í samfélaginu, að stuðningurinn sé til staðar og stuðningurinn sé með þeim hætti sem um ræðir.

Mjög mikilvægt er að viðhalda sátt um stuðninginn við dreifbýlið en óhætt er að fullyrða að hún sé ekki til staðar í dag, þó svo að þess gæti ekki oft á hinum pólitíska vettvangi, þá kraumar undir niðri og þarf ekki að hlusta grannt eða lengi til að skynja að það er ólga og ekki langt í að neikvæð og harkaleg umræða geti brotist út um stuðninginn við landbúnaðinn. Þess vegna á hæstv. ráðherra og stjórnvöld að sjálfsögðu að hafa forgöngu um að endurnýja samfélagssáttina um nútímalegan stuðning við landbúnaðinn og dreifbýlið sem er sanngjörn og réttlát og geri það gagn sem ætlast er til af henni að hún geri. Ég treysti hæstv. ráðherra ágætlega til þess. Þegar hann settist á ráðherrastól fyrir nokkrum missirum var ég sannfærður um að þarna væri kominn maður sem vildi láta verkin tala og ganga þannig fram að landbúnaðurinn og dreifbýlið nyti þess um langa framtíð. Það getur vel verið að hann hafi fullan vilja til þess og aðgerðir en ég vona að hann noti þetta tækifæri hér í dag til að kynna fyrir okkur hvernig hann vilji sjá þessum málum fyrir komið í framtíðinni. Það er mjög mikilvægt.

Það er að mörgu leyti mjög róttæk og ánægjuleg þróun að eiga sér stað í landbúnaðinum. Mikill uppgangur er t.d. að mörgu leyti í hrossarækt, í ferðaþjónustu og mörgum öðrum greinum, en það þarf að styðja enn þá frekar við bakið á því þannig að það sé auðvelt fyrir ungt og kraftmikið fólk að hasla sér völl.

Það var athyglisverð þróun hér fyrr í vetur þegar Mjólka var stofnuð og þeir tóku sig til og fóru að framleiða fyrir utan hið hefðbundna kerfi og verður fróðlegt að sjá hvernig rekstrargrundvöllurinn verður fyrir þeirri framleiðslu. Vonandi að sjálfsögðu verður hann til staðar og vonandi mun það ganga vel.

Hæstv. ráðherra hlýtur að ætla að skýra þessi mál fyrir okkur í umræðunni í dag og á næstu vikum og missirum, hvernig á að standa að stuðningi um langa framtíð við sveitirnar, dreifbýlið og landbúnaðinn og hvernig hann ætlar að endurnýja samfélagssáttina um þessi mál, af því þar erum við að sjálfsögðu bandamenn í því að styðja á við bakið á greininni, en það þarf að finna þeim stuðningi farveg sem sátt er um og sem mest gagn hljótist af.