131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:40]

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ja, nú var eins og Ragnar Reykás væri kominn hér í þingsali. Það var eiginlega með ólíkindum að hlusta á ræðu hv. þingmanns þar sem hann talaði úr og í, annaðhvort var allt í kaldakoli eða allt í himnalagi. Ég vil bara ráðleggja hv. þingmanni … (BjörgvS: Vertu ekki að leggja mér eitthvað til sem ég ekki sagði.) Ég hlustaði á þig, þú sagðir að allt væri í kaldakoli og þetta væri alveg gjörlélegt kerfi og í annan stað var talað um að hér væri bara bullandi uppgangur.

Ef hv. þingmaður hefði mætt á fundi hjá Bændasamtökum Íslands núna í vor, bæði hjá Landssambandi kúabænda og sauðfjárbændum, þá hefði hann orðið var við það að töluverð mikil nýliðun er meðal íslenskra bænda í dag og þar ríkir mikil bjartsýni, því að sannast sagna gengur bara mjög vel víðast hvar í sveitum landsins. Ég hef ekki heyrt annað en að mjög víðtæk sátt væri í samfélaginu að styðja við íslenskan landbúnað, nema kannski einhverjar raddir hjá Samfylkingunni sem vilja það ekki, en segja má að þar séu þó margir sem betur fer líka sem vilja íslenskum landbúnaði allt gott.

Hvað varðar nýjan búvörusamning í mjólk ráðlegg ég hv. þingmanni að heimsækja bændurna í sínu nágrenni og spyrja þá hvort þeir séu ekki ánægðir með nýjan samning, því betri samningur hefur ekki verið gerður við íslenska bændur svo lengi sem maður man eftir. Núna er í farveginum samningur við sauðfjárbændur. Verið er að stíga skref í þá átt að semja við WTO. Allt er verið að gera til að bændur geti náð vopnum sínum til þess að vinna með þegar það kerfi þarf að taka yfir. Verið er að vinna að því og beingreiðslurnar eru mjög gegnsæjar og gegnsæjastur stuðningur sem til er.