131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:51]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að ég held að það sé heilmikill velvilji til sveitanna og dreifbýlisins, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Um það er ég ekki í neinum vafa. Þann velvilja hljótum við að vilja virkja til þess að vel sé staðið við bakið á þeim greinum sem blómstra eða geta blómstrað úti á landi.

Hvað varðar almenningsálitið til bænda þá held ég að enginn einn stjórnmálaflokkur hafi valdið því meiri skaða en Framsóknarflokkurinn í gegnum tíðina. Framganga hans í landbúnaðarmálum hefur oft og tíðum verið með þeim ólíkindum að margir hafa fyllst efa og tortryggni í garð réttmætis þess að standa með þeim hætti að landbúnaði sem hér er gert.

Ég tek fram að ég styð það að það eigum við að gera. Þess vegna kallaði ég eftir því að hæstv. ráðherra skýrði framtíðarsýn sína, því eins og ég sagði situr það svo í mér þegar hann galt mikinn varhug við þeirri þróun sem var eiga sér stað, a.m.k. að einhverju leyti hvað varðar samþjöppun mjólkurbúa og stærð þeirra. Hann nefndi til að mynda einhvern tíma þann möguleika að binda beingreiðslurnar við tiltekinn lítrafjölda, 500 þús. lítra eða 400 þús. lítra. Ætli meðalbúið framleiði ekki 150–200 þús. lítra á ár? (Landbrh.: 130.) 130 þús. lítra, já. Þetta er að breytast, það eru að koma upp bú sem framleiða 400–500 þús. lítra. Sú framtíðarsýn sem ég vil einmitt heyra frá hæstv. ráðherra er þessi: Telur hann að hætta eigi að styðja mjólkurframleiðsluna þegar tilteknum lítrafjölda er náð í framleiðslu? Telur hann að ekki komi til greina, eins og mér heyrist hann tala áðan, að byggðatengja styrkina? Að sjálfsögðu ekki við það að liggja í bælinu og sofa, heldur að binda þá við tiltekin verkefni sem menn þurfa þá að sýna fram á að séu í gangi og tiltekna uppbyggingu á nýrri atvinnu.