131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[14:31]

Jón Bjarnason (Vg) (frh.):

Frú forseti. Ég var kominn þar í máli mínu þegar gert var hlé að ég var að beina spurningum til hæstv. landbúnaðarráðherra, sem er rétt ókominn til fundar, þar sem hæstv. landbúnaðarráðherra hafði í umræðunni vakið máls á almennri stefnu í landbúnaðarmálum, sérstaklega hvað lýtur að búsetumunstri, eins og bústærð, uppkaupum á jörðum og þess háttar. Hæstv. ráðherra hafði hefðbundið talað fjálglega um fjölskyldubú og sjálfbæran búskap, um hollustu og góða vöru, en af því tilefni vildi ég einmitt inna hann eftir hvað stjórnvöld hygðust gera varðandi þau raðuppkaup sem nú eiga sér stað á jörðum vítt og breitt um landið þar sem sömu lögaðilar eru farnir að kaupa upp jarðir í mörgum landshlutum og eru jafnframt farnir að kaupa upp framleiðslurétt og beingreiðslurétt og safna þeim.

Eitt af markmiðunum með búvörusamningunum, samningum við mjólkurframleiðendur og sauðfjárbændur hefur verið að tryggja öryggi í framleiðslunni. Jafnframt hefur hið pólitíska markmið legið undir að líka væri verið að tryggja ákveðið búsetumunstur, dreifða búsetu og öfluga byggð um land allt. En fari sú þróun fram sem nú horfir að framleiðsluheimildirnar safnist á æ færri hendur og beingreiðslur ríkisins fari sömuleiðis á æ færri hendur er sú hætta á ferðum að það hrikti í þeim sáttmála og samkomulagi sem gert hefur verið á milli ríkisvaldsins annars vegar og bænda hins vegar. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra og fylgja því eftir þegar hann kemur hvað ráðuneytið hyggist gera í þessum málum. Á að halda áfram með sama sofandahættinum og láta þetta gerast, tala í öðru orðinu um að vera talsmaður fjölskyldubúanna og gera svo hins vegar ekkert í því þó að þróunin sé að fara í þveröfuga átt?

Hið háa verð sem orðið er á mjólkurkvótanum svokallaða, komið yfir 400 kr., getur að mínu viti ekki gengið. Ef mjólkurframleiðslan og neytendur eiga að fara að borga þann fjármagnskostnað sem bundinn er t.d. í mjólkurkvótaverðinu verðum við á engan hátt samkeppnishæf við erlenda mjólkurframleiðslu. Fyrir bændur sem reka bú eða stofna nýtt bú og kaupa framleiðslukvóta í mjólk eru þetta óheyrilegar fjárfestingar og útgjöld sem ráðast verður í og kostnaðurinn af því getur ekki farið annað en á neytendur í lokin, auk þess sem framleiðslumunstur og samningar á milli ríkis og mjólkurframleiðenda hljóta fyrr eða síðar að fara í uppnám ef þetta heldur áfram. Ég legg áherslu á að ráðherra svari því við umræðuna hvernig hann hyggst bregðast við. Eða á bara ekkert að gera?

Ég hef flutt tvö frumvörp til laga sem liggja fyrir þinginu sem lúta að þessum atriðum, annars vegar frumvarp sem takmarkar að sami aðili geti átt nema einhvern ákveðinn hluta af heildargreiðslumarki í beingreiðslum í landbúnaðarvörum og hins vegar frumvarp sem takmarkar rétt einstaklinga eða lögaðila til að stunda raðuppkaup á jörðum og gerir það jafnframt að skyldu að til þess að mega kaupa jarðir verði að vera skilgreind not og þá landbúnaðarnot. Slík lög eru t.d. í nágrannalandi okkar, Danmörku, slík lög eru líka í Noregi og það er fyllilega ástæða til að við hugum að þessu líka. Ég spyr því hæstv. ráðherra og mun ítreka það þegar hann kemur til fundarins: Hvað hyggst ráðuneytið og stjórnvöld gera varðandi raðuppkaup á jörðum? Samþjöppun á framleiðslurétti, samþjöppun á mjólkurkvóta og raðuppkaup á jörðum eru ein mesta ógnunin sem ég tel að steðji að íslenskum landbúnaði núna og getur veikt innviðina verulega og þann sáttmála sem við höfum gert milli ríkis og bænda, bæði í samningum um mjólkurframleiðsluna og einnig um framleiðslu sauðfjárafurða.

Ég kem að þessu máli síðar, frú forseti, þar sem hæstv. ráðherra er ekki kominn til að svara þeim spurningum sem ég hef lagt hér fram.