131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Útflutningur hrossa.

727. mál
[15:16]

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá ágætu umræðu hér hefur farið fram um nefndarálit landbúnaðarnefndar og vil nota tækifærið og þakka nefndarmönnum fyrir afskaplega gott og skemmtilegt samstarf í vetur.

Ég fékk spurningu frá hv. þingmanni um það hve mörg hross væru flutt út. Árið 2004 voru þau 1.578 en fyrir aðeins níu árum voru þau miklu fleiri eða 2.609. Þess má geta að til Austurríkis voru flutt 55 hross, til Belgíu 4, Kanada 3, Sviss 98, Þýskalands 240, Danmerkur 327, Finnlands 121, Færeyja 9, Frakklands 3, Bretlands 16. Til Grænlands voru engin hross flutt núna en hafa verið flutt þangað, til Ítalíu 9, Hollands 19, Noregs 114, Svíþjóðar 450, enda eru Svíar mjög hrifnir af íslenskum hestum og margir Svíar koma hingað og læra að umgangast íslenska hestinn, til Bandaríkjanna 100 og Slóveníu 10.

Ég tek undir með hv. þingmanni að dýraverndarsjónarmiðin ber mjög að hafa í huga. Ég hef varpað því fram og við í landbúnaðarnefnd að auðvitað ættu öll dýraverndarmál að heyra undir sama ráðuneytið og ég tel að það væri mjög gott. En bara til að halda því til haga þá er miklu meira flutt út af ungum hrossum en gömlum. Það er ekki mikið um það heldur aðallega af tilfinningalegum tengslum sem það er gert, því eins og sagt var: „Milli manns og hests og hunds hangir leyniþráður.“