131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[15:37]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé einhver flumbrugangur í öðrum en hv. landbúnaðarnefnd. Ég held að hv. þm. Jón Bjarnason geti bara tekið það orð til sín og verið með sinn flumbruhátt.

Það var farið afskaplega vel yfir málið fyrir páska. Þá héldum við fund, eins og hv. þingmaður hlýtur að muna, þar sem farið var yfir þetta með verkefnisstjórninni og öll þau gögn sem lágu fyrir kynnt fyrir okkur í trúnaði, þannig að ég vísa orðum hans til föðurhúsanna.

Búnaðarþing 2005 fjallaði um málið. Hópurinn hafði ekki lokið störfum en búnaðarþingsfulltrúar gera sér grein fyrir að það er orðin gjörbreytt aðstaða í lánastarfsemi í landinu og það er verið að viðurkenna þá staðreynd og það veit hv. þingmaður. Það er enginn að gera þetta að gamni sínu, þetta er bara staðreynd, sjóðnum hefur blætt út, hann er of lítill til að hann geti verið rekstrarlega hagkvæmur. Þess vegna er lánasjóðnum best fyrir komið þannig að einhver lánastofnun kaupi sjóðinn og reki hann áfram. Eins og ég sagði áðan eru bændur góðir lántakendur og eftirsóttir af viðskiptabönkunum sem vilja fá þá í viðskipti. En auðvitað lenda alltaf einhverjir í því að vera ekki metnir eins og aðrir, það er misjafnt hvernig lánstraust manna er metið og það breytist ekkert. Lánasjóður landbúnaðarins lánar heldur ekki hverjum sem er, menn verða að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá lán hjá honum.