131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[16:23]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Málum er æðioft þannig fram komið í þinginu að þau séu ekki send til skriflegra umsagna. Allir þeir sem komu til nefndarinnar hefðu getað skilað skriflegu áliti hefðu þeir kært sig um. Allir sem beðið var um að kæmu til nefndarinnar voru kallaðir til.

En ég mismælti mig áðan og talaði um uppkaup en þá átti ég að sjálfsögðu við uppgreiðslu. Bændur hafa getað greitt upp lán sín hjá sjóðnum hvenær sem er, án þess að fyrir það hafi verið tekið gjald. Það hafa þeir því miður gert í stórum stíl. Það er ekki nein óskastaða okkar að þannig skuli komið. Bændur kjósa bara að færa viðskipti sín yfir til viðskiptabankanna og við því er nú brugðist.

Einnig er ljóst að bændur vilja ekki lengur greiða búnaðargjald til Lánasjóðs landbúnaðarins. Það er staðreynd. Þeir eru frjálsir að því hvað þeir gera og þeir hafa hafnað því að greiða þetta gjald en þegar lánasjóðurinn verður af (Forseti hringir.) gjaldinu þá eru það hátt á þriðja hundrað milljóna á ári sem sjóðurinn verður án.