131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[16:28]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sem betur fer eru bændur skilvísir menn og eiga sér góðar bankastofnanir jafnframt lánasjóðnum. Ég fór yfir allar leiðir í málinu því að mér þykir vænt um sjóðinn og vil landbúnaðinum allt hið besta. Það var farið yfir allar leiðir.

Það þýðir ekkert að standa með sjóðnum, maður verður að standa með atvinnuveginum. Sjóðurinn skiptir ekki öllu máli í því. Það þarf að finna bestu stöðuna fyrir bændurna til að ná nýrri stöðu í fjármálum sínum og sá tími taki við í landbúnaðinum, eins og gert var í iðnaðinum og sjávarútveginum.

Við þessar aðstæður er ég fyrst og fremst að hugsa um þessa peninga bændanna. Það er vilji ríkisstjórnarflokkanna að leggja andvirði þessa sjóðs inn í veikasta lífeyrissjóðinn, Lífeyrissjóð bænda, og styrkja hann. Það er líka mikilvægt í leiðinni, um leið og bændur ná vonandi sem bestri fjármögnun á lán sín og veð verður Lífeyrissjóður bænda styrktur. Þetta eru mikilvæg verkefni sem hér er unnið að. Mér þykir vænt um þennan sjóð og mun sakna hans á margan hátt. (Forseti hringir.) En tíminn er svona. Sagan er svona.