131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[16:31]

Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur ekki hlustað vel á ræðu mína. Ég tel að það hefði átt að kanna aðra möguleika, hvort hægt hefði verið að finna afmörkuð hlutverk fyrir sjóðinn, sem er hluti af verkum hans nú, og finna leið til að reka hann með öðrum sjóðum.

Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður muni það sem fulltrúar Byggðastofnunar sögðu á nefndarfundi, þar sem voru reyndar líka fulltrúar bænda, að það væri alveg klárt að ákveðinn hluti bænda mundi ekki eiga viðunandi aðgang að fjármagni í gegnum viðskiptabankana og þá var lagt til að stofnuð yrði landbúnaðardeild við Byggðastofnun. Þá segi ég: Það er greinilegt að málin eru bara ekki könnuð ef það á að selja sjóðinn án þess að kanna hvað gæti tekið við hvað varðar einmitt afmörkuð mikilvæg verkefni sjóðsins. Ég vildi að það yrði kannað áður en farið væri að selja sjóðinn.