131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[16:54]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það skiptir mjög miklu máli að koma því á hreint að hryssur kasti og hefur nú formaður landbúnaðarnefndar kveðið upp úr um það og ekki ætla ég að mótmæla því.

Ég verð að segja að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum þegar ég sá afgreiðslu landbúnaðarnefndar á þessu máli. Mér finnst hún heldur fátækleg, rýr í roðinu, ef ég má nota þá samlíkingu, og málinu sem sagt svona kastað hér inn í þingið aftur með öllum endum óhnýttum. Það felst í nefndaráliti meiri hluta landbúnaðarnefndar — og er það þó ekki mikið að vöxtum — það felst þó augljóslega í því ákveðin viðurkenning á því að það séu ýmis vandamál sem ekki sé séð fyrir hvernig taka beri á. Þá grípa menn til gamalkunnugra aðferða því það er sagt að Byggðastofnun gæti kannski tekið þetta og hitt að sér og svo þyrfti svona að athuga þetta og hitt. Þannig ætla menn að láta sig hafa það að afgreiða málið. Svo koma þeir hér upp með stór orð um þá sem mæla fyrir því að þetta ætti nú kannski að athugast betur, eins og minni hluti landbúnaðarnefndar hefur lagt til í nefndaráliti sínu. Hv. þm. Magnús Stefánsson taldi það nú ekki merkilegan málflutning að menn skyldu vera með úrtölur og ekki vera þá bara með tillögurnar um það hvað ætti að gera í staðinn. En hann er væntanlega sáttur við og telur sóma að framgöngu hæstv. ráðherra og meiri hluta landbúnaðarnefndar sem játar þó upp á sig lausu endana og óvissuna sem því er samfara hvernig hluta bænda muni reiða af þegar þeir allt í einu bara sisvona missa sinn fjárfestingarlánasjóð sem hefur verið náttúrlega hornsteinn uppbyggingar og fjárfestinga í íslenskum landbúnaði um áratuga skeið.

Ég verð að segja alveg eins og er að það finnst mér þá málefnalegri og merkilegri málflutningur að velta steinunum við og spyrja sig hvað sé undir þeim og hvernig við ætlum að takast á við þessa hluti heldur en bara að láta vaða á súðum. Aðgerðir af því tagi að selja eða einkavæða Lánasjóð landbúnaðarins verða ekki auðveldlega aftur teknar. Menn skulu átta sig á því að það er þá eitthvað sem menn gera bara í eitt skipti því að þeir endurheimta hann ekkert út úr einhverjum einkabanka þegar hann er þangað kominn. Því er eins gott að menn fari þá bara vel yfir það hvort þeir séu alveg vissir um að þetta sé rétt skref sem þeir eru hér að taka. Ég hef ekki góða sannfæringu fyrir því nema síður sé. Ég hef miklar áhyggjur af því hvaða afleiðingar það kunni að hafa fyrir þróun þessarar greinar sem er náttúrlega í raun í algerri sérstöðu hvað varðar atvinnugreinar í landinu. Talandi um sjávarútveg eða iðnað hverra fárfestingarlánasjóðir voru einkavæddir á sínum tíma, sameinaðir inn í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og síðan einkavæddir alla leið þá er þó að mörgu leyti ólíku saman að jafna þar og því sem á við hér, þar sem er þessi atvinnurekstur og þessi uppbygging úti í strjálbýli landsins sem býr auðvitað við afar sérstakar aðstæður, að ætla sér bara að takast á við þann vanda sem menn telja að sé nú kominn upp í sambandi við rekstur Lánasjóðs landbúnaðarins með þessari ákaflega einföldu leið eða lausn — ef menn vilja kalla það svo — að gefast upp með rekstur sjóðsins og selja hann. Það finnst mér satt best að segja ekki vera mjög vandaður málatilbúnaður fyrr en menn eru þá búnir að fara í gegnum það og tæma það að engir aðrir vænlegri kostir séu í stöðunni. Þetta er auðvitað voðalega einfalt, þægileg leið og það er komin hefð á hana, að bara selja, einkavæða bara. Framsóknarmönnum er orðið þetta ákaflega tamt enda kunnugt að þeir eru orðnir sennilega mesti markaðshyggjuflokkurinn hér í landi og ganga glaðbeittir til þeirra verka að einkavæða eða markaðsvæða hvert svið almannaþjónustunnar á fætur öðru, raforkumál, fjarskipti eða hvað það nú er. Það er auðvitað tímanna tákn og verður kannski ekki öllu lengra gengið að taka nú Lánasjóð landbúnaðarins og ætla að einkavæða hann fyrir árslok.

Ég hef í fyrsta lagi mjög miklar efasemdir um lausu endana, hvort þeim sé endilega vel komið hjá henni Byggðastofnun. Bíddu, þarf nú kannski ekki líka að líta á það hvernig staða mála er á þeim bæ? Það er eins og mig minni að hér hafi hoppað stjórnarformaður Byggðastofnunar inn á þing sem varaþingmaður og var ekki einhver tillaga þar á ferðinni um að setja stórfellda viðbótarfjármuni inn í Byggðastofnun til að halda henni á fótunum? Það er eins og mig rámi í það. Er hún þá í miklum færum til þess að taka á sig erfið verkefni? (Gripið fram í: Hún getur lánað.) Hún getur lánað, já. En á hvaða kjörum? Ætli það verði framför í því endilega fyrir bændur að fara úr Lánasjóði landbúnaðarins yfir í viðskipti hjá Byggðastofnun eins og kjörin hafa verið á þeim lánum sem ég hef séð boðið upp á þaðan? Það er ég nú ekki viss um. Það má velta því fyrir sér einmitt í því tilviki hvaða þörf sé fyrir rekstur á Byggðastofnun að svo miklu leyti sem hún er þá enn þá lánastofnun vegna þess að hún hefur alls ekki verið í færum undanfarin ár til þess að bjóða hagstæð lán. Það liggur nú bara fyrir. Kannski hefur hún tekið áhættu. Það hafa kannski verið helstu rökin fyrir því að það gæti verið gagn að því að hafa hana og að hún hefði einhverja lánsmöguleika, að hún hafi eðli málsins samkvæmt og verkefnis síns samkvæmt og skyldna sinna vegna stundum verið tilbúin til að lána í áhættusamari verkefni en aðrir. En það hefur svo sannarlega ekki verið ókeypis. Svo mikið er víst.

Það er vissulega svo að það er ákveðinn vandi innbyggður í stöðu Lánasjóðs landbúnaðarins eins og hann er í dag og það er augljóst mál að menn hefðu kannski betur þurft að sjá fyrir því á sínum tíma með sama hætti og menn hafa nú verið að reyna að tryggja stöðu Íbúðalánasjóðs, að það geti verið einhvers konar álag á lán, ef menn eiga rétt á að greiða þau upp, til að verja sjóðinn fyrir misgengi vaxta á fjármögnunarlánum og endurlánum. Það er augljós hætta fyrir starfsemi af þessu tagi ef þar getur skapast mikið misgengi og ég tala ekki um ef menn hafa gengið þannig frá málum, sem er þá auðvitað á ábyrgð stjórnenda sjóðsins að undanförnu, að taka lán sem ekki er mögulegt að greiða upp. Það er mjög alvarlegur hlutur ef menn hafa staðið þannig að málum, en þá er sá vandi þar, þá er hann þarna til staðar. Hugsunin að hann hverfi bara með því að selja sjóðinn, ég vil fá einhvern aðstandanda málsins til að útskýra það fyrir mér. Bíddu, eru einhverjir miskunnsamir samverjar úti á þessum markaði sem eru tilbúnir til að kaupa þennan sjóð algjörlega fullu verði með þessa misgengishættu innifalda? Vill hæstv. landbúnaðarráðherra, sem sjálfsagt er ágætlega að sér í hagfræði, útskýra þetta fyrir mér? Ætlar einhver góðgerðarstofnun bara að taka vandann af sjóðnum, af ríkinu, af eigandanum, af landbúnaðinum? Nei, ætli það hljóti þá ekki að koma fram í verðinu? Bíddu, er þetta þá ekki vandi sem er hvort eð er til staðar og þarf að takast á við? Spurningin er bara hvernig. Er endilega víst að forvöltun þessara fjármuna verði betri við að gera þetta svona en að horfast einfaldlega í augu við vandann og takast á við hann? Og hversu mikill er hann? Ja, það er alveg ósýnt, held ég, vegna þess að ég á eftir að sjá að bændur muni í framhaldinu greiða upp lán sín í eins stórum mæli og þróunin að undanförnu bendir kannski til.

Getur ekki einmitt verið að þar hafi farið þeir bændur sem voru í bestri aðstöðu til þess, þeir sem höfðu bestu veðin til að leggja á bak við viðskipti hjá nýjum aðila eða í banka og þeir sem bankarnir töldu æskilegustu og fýsilegustu viðskiptavinina? Gæti ekki verið að þær færu að þorna eitthvað upp þessar uppsprettur þegar frá líður? Gott og vel. Það skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli. Það þarf ósköp einfaldlega að kortleggja þennan vanda og fara yfir hann. Ég sé það ekki í þessu ræfilslega frumvarpi. Það er bara sagt frá því að þessi vandi sé þarna og starf þessarar nefndar haft til marks um það. En ég sé ekki útreikningana á því og ég hef ekki undir höndum eitthvert reikningslegt mat á þessu máli.

Það er eitthvað í þessari hugsun sem ég fæ ekki alveg til að ganga upp, þ.e. að annars vegar sé hægt að nota sem röksemdir fyrir þessum breytingum og þessari aðgerð þennan vanda sem sé innbyggður í sjóðnum, en hins vegar að telja okkur trú um að það sé engu að síður hægt að selja hann á fullu verði og verja allt eigið fé hans eins og ekkert sé að. Það hlýtur að byggja á því að einhvers staðar úti í þjóðfélaginu séu miskunnsamir samverjar tilbúnir til að loka augunum fyrir þessum innbyggða vanda sem geti verið í sjóðnum og kaupa hann á fullu verði engu að síður. En væntanlega eru skuldbindingarnar eins, hver sem eigandinn er, og það verður að virða þau lán sem eru þarna án uppgreiðsluréttar og það verður hinn nýi eigandi að gera, ef hann yfirtekur allt heila klabbið, og hann mun ekki gera það ókeypis. Hann mun reikna það inn í dæmið, annars er hann óvenjulega rausnarlegur.

Það var aðeins nefnt áðan að loðdýraræktin hefði notið góðs af því að gegnum Lánasjóð landbúnaðarins, reyndar aðallega forvera hans Stofnlánadeildina, hefði verið hægt að koma henni til aðstoðar m.a. og beita þessum sameiginlega sjóði bænda í því skyni. Ætli hún sé nú ein um það, þó að það sé vissulega rétt að Stofnlánadeildin og Lánasjóður landbúnaðarins lögðu sitt af mörkum í því. Það skipti mjög miklu máli að lánin voru hjá aðila af því tagi sem laut félagslegu forsvari greinarinnar og hins opinbera og gat tekið þátt í og lagt sitt af mörkum með því að fresta afborgunum og fara í skuldbreytingar o.s.frv. En það er ekki bara loðdýraræktin sem hefur fengið þetta, það er allur landbúnaðurinn, aftur og aftur á umliðnum árum. Sauðfjárræktin og reyndar á köflum bara allir lántakendur í þessum sjóði, þegar erfiðleikaár hafa gengið yfir landbúnaðinn, hafa fengið þar fyrirgreiðslu af því tagi að menn hafa fengið skuldbreytingar og/eða verið heimilað að færa afborganir aftur fyrir og semja sérstaklega um slík kjör. Þetta þekkjum við sem höfum fylgst með þessari sögu nokkuð lengi og vitum vel.

Það er mjög fróðlegt að rifja þá sögu upp og velta henni fyrir sér í sambandi við framhaldið. Hvað ætla menn að gera næst, sem því miður sem verður örugglega ekki bara ef heldur þegar einhver erfiðleikaár, einhverjir erfiðleikatímar ganga yfir einstakar greinar landbúnaðarins eða hann sem slíkan? Þá verður enginn slíkur aðili sem getur ákveðið að fella niður afborganir eða skuldbreyta, og þess vegna með stuðningi opinberra aðila. Þá verður það bara herra markaður sem ræður því og hver og einn bóndi verður að reyna að glíma við það hjá sinni lánastofnun. Menn geta auðvitað sagt að þannig sé það hjá öðrum o.s.frv. En það breytir engu um það að sagan er eins og hún er og hún sannar að mínu mati gildi þess hvers virði það getur verið fyrir atvinnugrein af þessu tagi að eiga sinn fjárfestingarlánasjóð og að það sé hægt að beita slíkum tækjum til stuðnings greininni þegar hún þarf á því halda.

Ég hef áður nefnt það í umræðum um þetta mál að að mínu mati er reynslan af einkavæðingu fjárfestingarlánasjóða annarra atvinnugreina, Fiskveiðasjóðs og Iðnlánasjóðs, mjög blendin. Sérstaklega veit ég dæmi þess og mörg dæmi þess að iðnaðarstarfsemi og iðnrekendur úti um landið, það sem eftir er af þeim, það hefur gengið hressilega á þá undanfarin 10–15 ár. Það má segja að flutningskostnaður og fleiri slíkar ráðstafanir hafi meira og minna stýrt allri iðnaðaruppbyggingu hér á suðvesturhornið að svo miklu leyti sem hún er þá ekki farin áfram til Eystrasaltsríkjanna eða þaðan af lengra í burtu. En svo mikið er víst og það er að stórkostlega hefur þyngst fyrir fæti hjá þeim sem eru að byggja upp iðnaðarstarfsemi úti á landsbyggðinni við að fá eðlilega fyrirgreiðslu og fjármögnun t.d. til húsbygginga. Það er bara mjög erfitt í dag. Bankarnir telja það eins og hvern annan brandara að þeim bjóðist 1. veðréttur í húsnæði ef póstnúmerið er eitthvað verulega hærra en 1. Það bara er þannig.

Ég veit líka mörg dæmi þess að menn hafi lent í miklum barningi með nýsmíðar á fiskiskipum, að fá eðlilega fjármögnun á þær þó að 1. veðréttur væri í boði í jafnhreyfanlegri og endurseljanlegri eign og nýtísku fiskiskipi. Það er bara ekki lengur þannig að menn eigi sinn eigin fjárfestingarlánasjóð sem láni öllum félagsmönnum á jafnræðisgrundvelli á hagstæðum kjörum, eins og það var t.d. í Fiskveiðasjóði áratugum saman. Það skyldi nú ekki vera að það hafi hjálpað dálítið til við uppbyggingu flotans og þróun fiskiðnaðarins í gegnum tíðina? Árangurinn var ekki lakari en það að flest árin fengu menn síðan vaxtaendurgreiðslur inn á viðskiptareikning sinn hjá sjóðnum þegar búið var að gera árið upp og yfirleitt kom í ljós að sjóðurinn þurfti ekki á öllum þeim vaxtamun að halda sem hann reiknaði sér við lánveitingarnar og hafði rétt til að taka. Þá nutu menn þess beint í formi innlagnar á viðskiptamannareikning sinn hjá sjóðnum eða vaxtainnstæðna sem þá mynduðust. Þetta kerfi var ekki lakara en það.

Mér finnst það svolítið uppgjafarlegt og aumingjalegt að velta því ekki fyrir sér hver sé stærðargráða þessa vanda, hvaða leiðir séu til að takast á við hann. Er endilega víst að það sé besti kosturinn að gefast upp og selja sjóðinn? Er það endilega víst, jafnvel þó svo að búnaðarmálasjóðsgjöldin kynnu að heyra sögunni til innan fárra ára? Menn þurfa væntanlega ekki að taka svona óhagstæð lán og þurfa ekki að hafa þau á þeim kjörum að þau séu óuppgreiðanleg, menn þurfa ekki að sitja uppi með allt of háan rekstrarkostnað á þessum sjóði baráttulaust ef einhver vilji er til þess að hjóla í þau verkefni og takast á við þau.

Hvaða leiðir er hægt að fara í því? Það eru margar leiðir færar í því. Það er í fyrsta lagi ósköp einfaldlega hægt að reyna að reka sjóðinn með hagkvæmari og einfaldari hætti. Hægt er að bjóða út og er algengt að bjóða út umsjón með slíkum sjóðum og það hefur oft verið gert. Þannig var það t.d. með veðdeild Húsnæðisstofnunar á sínum tíma, grunnhúsnæðislánadeildina. Það var einfaldlega boðið út, leitað tilboða í umsjón með henni og lengi vel var það Landsbankinn sem bauð þar best. Það var á þeim grunni. Það er t.d. einn kostur sem menn gætu skoðað hvort hægt sé að stórlækka rekstrarkostnað sjóðsins að breyttu breytanda með því að fela umsjá hans einhverjum öflugum aðila sem getur gert það með hagkvæmum hætti sem hluta af miklu stærri starfsemi. Ákaflega nærtækur kostur að velta fyrir sér væru samlegðaráhrifin af því að samreka Lífeyrissjóð bænda og Lánasjóð landbúnaðarins. Gætu þau verið þannig að það munaði umtalsvert í formi lægri rekstrarkostnaðar og hagkvæmni jafnvel fyrir báða aðila? Gæti það komið báðum til góða að færa þessar einingar saman og styrkja þær í leiðinni? Ég sé að mörgu leyti ekkert því til fyrirstöðu að hreinlega væri hægt að sameina þessa starfsemi, kannski þannig að lánastarfsemin yrði einfölduð í leiðinni, að þetta yrðu grunnfjárfestingarlán, jarðakaupalán og lán t.d. til þeirra sem eru að hefja búskap, sem í löndunum í kringum okkur er víða hefð fyrir að sé skipað með sérstökum hætti, en síðan leiti menn kannski til viðskiptabanka sinna með viðbótarfjármögnun rekstrarins eins og gjarnan er gert. Finnar eru t.d. með alveg sérstakt prógramm sem miðar að því að styðja unga bændur, fólk sem er að hefja búskap. Það nýtur sérstakra kjara og sérstaks stuðnings sem er fyrir komið í kerfinu. Og veitir nú víst ekki af hér ef einhver endurnýjun á að hefjast eða verða loksins í þessari grein.

Það hefur líka verið nefnt í mín eyru sem hugmynd að kannski væri hægt að færa Lánasjóð landbúnaðarins yfir í einhvers konar sparisjóðsform á vegum bænda og semja um rekstur hans sem hluta af sparisjóðastarfseminni í landinu. Það er t.d. öflugur banki sem sparisjóðirnir reka saman, Sparisjóðabankinn, sem er þeirra fjármögnunarbanki, fjárfestingarbanki. Hann hefur verið ágætlega samkeppnisfær í kjörum og nýtur þar auðvitað stærðar samlegðaráhrifanna af því að vera bakhjarl allrar sparisjóðakeðjunnar í landinu, sem er nú stærsta einstaka viðskiptabankakeðjan, merkilegt nokk, með hæstu markaðshlutdeildina þegar kemur að almenningsviðskiptum í landinu, tæp 30%. Það eru sparisjóðir mjög víða á starfssvæði Lánasjóðs landbúnaðarins, þ.e. úti um héruð landsins, og sennilega væri engin ein bankastofnun betur sett í þeim efnum að eiga fleiri afgreiðslustaði vítt og breitt á svæði viðskiptavina sinna en sparisjóðirnir, þ.e. ég býst við að þeir séu til samans fleiri og í fleiri landbúnaðarhéruðum en nokkur einkabankanna þriggja.

Það gætu verið margir möguleikar sem mætti skoða í þessum efnum og ég sé ekki að himinn og jörð væru að farast þó að það væri gert eða hefði verið gert. Nú er það svo að lögin um Lánajóð landbúnaðarins eiga samkvæmt þessu frumvarpi ekki að falla niður fyrr en um næstu áramót. Það má líka velta fyrir sér tímasetningum þessa máls í því sambandi, úr því að það er ekki betur undirbúið og lengra á legg komið en það að vera þá engu að síður að taka þessar lagabreytingar hér í gegn. Ætla menn jafnvel að vera með það í höndunum fram undir næstu áramót að undirbúa sölu á þessum sjóði? Það er ekki mjög heppilegt að vera með mál hans þannig upp í loft í heilt ár og vera þó búinn að gefa sér niðurstöðuna fyrir fram. Það er ekki endilega víst að það verði honum til mikils framdráttar í rekstri á allra næstu mánuðum ef ljóst er að niðurstaðan er eiginlega gefin fyrir fram.

Menn hafa talað fyrir því, margir, ég held ég muni það rétt að ég hafi heyrt hæstv. landbúnaðarráðherra tala digurbarkalega um það, að bændum verði ekki skotaskuld úr því að fá góða fyrirgreiðslu hjá bönkunum, þeir séu skilvísir menn, vissulega er það rétt, og þeim muni bjóðast góð kjör. Menn nefna gjarnan til samanburðar það sem gerst hefur á íbúðalánamarkaði. Ég vara mjög við því að halda að þetta sé á einhvern hátt sambærilegt við það sem gerðist þegar bankarnir fundu ekki aðra leið til að koma Íbúðalánasjóði á kné en þá að niðurbjóða hann í vöxtum eftir að hafa tapað máli gegn honum á evrópskum vettvangi. En það var þá, síðsumars, sem áhugi bankanna á að bjóða hagstæð íbúðalán með hátt lánshlutfall gaus upp, eins og kunnugt er. Hvað er þar á ferðinni? Jú, þar er það á ferðinni að menn greiða upp öll lán sín hjá fyrri lánveitanda, Íbúðalánasjóði. Menn lofa öllum sínum viðskiptum til viðkomandi lánastofnunar og hvað fær hún? Hún fær fyrsta veðrétt í íbúðarhúsnæði. Hvað er fyrsti veðréttur í íbúðarhúsnæði, frú forseti? Jú, það er sérstaklega hagstæð lán þegar kemur að því að útlánakarfa viðskiptabanka er metin og flokkuð í áhættuflokka. Bankarnir vissu vel hvað þeir voru að gera og þeir reyndu að slá margar flugur í einu höggi, ekki bara knésetja Íbúðalánasjóð heldur löguðu þeir líka hjá sér útlánasamsetninguna og fengu grundvöll útlána í nýjum og lágum áhættuflokki þar sem eru fasteignaveðlán á fyrsta veðrétti.

Þessu verður öðruvísi háttað þegar kemur að landbúnaðinum. Þar verður áhættudreifingin enn þá meiri. Hver verður t.d. staða þeirra sem eru á ákaflega landlitlum afskekktum jörðum, til lántöku í þessu tilviki? Hvernig verður farið með ríkisjarðir? Verður mönnum veitt veð og lántökuheimildir eins og ekkert sé þótt um verði að ræða einkabanka sem leita eigi fjármögnunar hjá í þeim tilvikum? Ætli það verði ekki talsverður munur á stórum bújörðum, vel í sveit settum, ég tala nú ekki um ef menn eru með umtalsverð hlunnindi og framleiðslurétt, t.d. í mjólkurframleiðslu, og aftur hinum sem hafa í raun ekkert af þessu og ætla að byggja upp af búskap á afskekktum jörðum? Það skyldi þó ekki vera? Það gæti átt eftir að reynast þannig að menn gengju ekki að hinum góðu lánskjörum vísum, með sama hætti og sumir vilja vera láta.

Auk þess, frú forseti, hafa vextir verið með afbrigðum lágir um skeið. Alþjóðlegir vextir hafa verið í sögulegu lágmarki í nokkur missiri bæði austan hafs og vestan. Það stafar af slaka í hagkerfinu, auðvitað sérstaklega í Evrópu þar sem menn hafa farið með vextina niður undir ekki neitt. Hér innan lands hefur vöxtunum hins vegar verið haldið uppi til að halda aftur af verðbólgu. Þannig hefur skapast það ástand að menn hafa talið sig getað gert út á vaxtamuninn milli Íslands og nálægra landa, tiltölulega öruggir í skjóli þess að stóriðjustefnan og viðleitni Seðlabankans til þess að halda niðri verðbólgu með háum vöxtum geri það að verkum að óhætt sé að gera út á þennan gróðaveg, vaxtamuninn milli Íslands og annarra landa.

Þar af leiðandi hefur tímabundið verið hægt að fleyta hinum lágu erlendu vöxtum inn í landið og út í lánskjörin en það er mikil áhætta því samfara. Það er ekki víst að það verði mjög varanlegt. Núna hafa vextir hækkað um tvö prósentustig í Bandaríkjunum á skömmu tíma. Þeir eru á hraðri uppleið þar. Hefur kannski enginn heyrt fréttirnar af því að vegna mikilla erlendra skulda íslenska þjóðarbúsins, sem fáir tala um en er nú staðreynd engu að síður, þá hafi vaxtabyrðin á örfáum mánuðum þyngst um sjö milljarða króna vegna erlendra skulda, bara í dollurum? Bara í dollurum. Síðasta hækkunin hjá bandaríska seðlabankanum, hjá herra Greenspan, kostar tvo milljarða í viðbót í hærri vöxtum á ársgrundvelli af erlendum skuldum þjóðarbúsins í dollurum. Menn skulu því ekki tala eins og þeir geti gengið að lágum alþjóðlegum vöxtum vísum um aldur og ævi.

Það er mjög hættulegt að meta þessa hluti alla út frá núinu og gefa sér að þannig verði það um aldur og ævi. Það er sko ekki í hendi. Því er að mörgu að hyggja í þessum efnum og menn ættu ekki að rasa um ráð fram.

Ég hef ekki góða sannfæringu fyrir því að styðja það að einkavæða Lánasjóð landbúnaðarins fyrr en aðrir hlutir hafa verið skoðaðir ofan í kjölinn. Ég hefði sjálfur, hefði ég átt að gefa ráð í þessum efnum, látið mér detta flest annað í hug fyrst. Ekki fyrr en ég væri endanlega sannfærður um að aðrar leiðir væru ekki færar færi ég að velta því fyrir mér að leggja hann niður eins og þetta mál snýst um. Þetta er ekkert annað en að leggja niður eða einkavæða þessa starfsemi. Hún hverfur sem slík, verður ekki til. Þetta leysist upp og engum þeim hlutum sem Lánasjóður landbúnaðarins, áður Stofnlánadeild landbúnaðarins, gat komið til framkvæmda verður þá viðkomið eftir að þetta skref verður stigið.

Ég tel, herra forseti, að hér sé langt frá nógu vandaður málatilbúnaður á ferð og þeir hljóta að verða að axla ábyrgð á breytingunni sem hana ætla að gera.