131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[18:28]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Almennt er ég á því að það geti verið til bóta að setja saman í eina margar litlar stofnanir sem hafa skyld verkefni með höndum svo fremi það sé ekki gert í því skyni að draga starfsemi af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Hér er verið að leggja til að margar stofnanir sem þjónusta landbúnaðinn fari í eina og nefnist Landbúnaðarstofnun og tel ég að það geti vel verið af hinu góða og vona að það heppnist vel. Það er hins vegar rétt sem fram hefur komið hér í umræðunni að það er afar stutt síðan þetta umrædda frumvarp kom fram. Reyndar kemur það fram hér í nefndarálitinu þar sem það er gagnrýnt hversu seint þetta frumvarp er fram komið. Ég hygg nú að það sé fremur fátítt að svona gagnrýni komi fram í nefndaráliti.

Hér er sem sagt verið að setja þjónustu og eftirlitsiðnað við landbúnaðinn í eina stofnun og ég ætla að leyfa mér að vona að með tíð og tíma þýði það hagræðingu og meiri skilvirkni, ég tala nú ekki um ef áfram verður haldið og verkefni sem eru sambærileg þeim sem hér er fjallað um og jafnvel alveg á sama sviði en heyra undir önnur ráðuneyti verði felld undir þessa stofnun. Það hefur verið boðað hér frumvarp um Matvælastofu. Án þess að ég hafi séð það frumvarp frekar en aðrir eða heyrt nákvæmlega um það fjallað þá segir mér svo hugur að ýmislegt á sviði þeirrar fyrirhuguðu stofnunar muni vera á svipuðum nótum og það sem hér er fjallað um. Ég tel að það væri mjög æskilegt að þessar tvær stofnanir væru gerðar að einni með tíð og tíma.

Það kom fram í máli ýmissa gesta sem komu á fund landbúnaðarnefndar, starfsmanna þessara stofnana sem á að sameina m.a., að þeir óttast hversu stuttur tími er fram að því að þessi stofnun á að taka til starfa og telja að undirbúningur verði ekki nógu vandaður vegna þess hversu lítill tími er til þess að undirbúa áður en sameiningin skellur á, ef svo má segja. Það er mjög skiljanlegt sjónarmið því það er ekki eins og allt sé ákveðið þó að þetta frumvarp verði samþykkt. Það á m.a. eftir að finna þessari stofnun stað eins og fram hefur komið í umræðunni. Það er nú ekkert gefið að það gangi hljóðalaust fyrir sig eða á skömmum tíma þó svo að ráðherra eigi það til að bretta upp ermarnar og vera röskur. Ég ætla að hrósa hæstv. ráðherra Guðna Ágústssyni fyrir það að hann hefur nú verið býsna duglegur við að koma upp starfsemi úti á landsbyggðinni, enda má svo sem líka segja að þakka skyldi honum, því að undirstaðan undir landbúnaðarráðuneytinu er auðvitað úti á landi. Því væri allsendis óeðlilegt ef þjónustugreinar við landbúnaðinn væru ekki í miklum mæli úti á landi. Að sjálfsögðu á þessi stofnun að eiga höfuðstöðvar sínar úti á landi þó að starfsemin verði eftir sem áður í langmestum mæli dreifð um allt land. Það segir sig sjálft að héraðsdýralæknar verða starfandi hver í sínu héraði eftir sem áður eins og hingað til.

Helsti gallinn við þetta frumvarp er hversu seint það er fram komið og hversu stuttur tími gefst þar af leiðandi til þess að undirbúa vendilega flutning þessara litlu stofnana saman og í eina. Það þarf sem sagt að bretta upp ermar.

Ég er aðili að þessu nefndaráliti eins og fram hefur komið og Samfylkingin styður þetta frumvarp, þó með þessari athugasemd að það er allt of seint fram komið og hefði þurft að vinnast betur.