131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[18:50]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Alveg eins og frú forseti er til þá er það hún dýralæknir og hann dýralæknir. Ég ætla ekki að deila um það. En vegna þess sem hv. þingmaður talaði um þá er verið að rannsaka flutninga á fénaði hjá yfirdýralækni og héraðsdýralæknum og vonandi lýkur því sem fyrst þannig að niðurstaða liggi fyrir. Ég get glatt hv. þingmann með því að margt bendir til að þessir flutningar valdi ekki neinu stressi eða vandræðum, enda eru þeir smáflutningar miðað við það sem gerist í Evrópu. Við mundum kannski staðsetja sláturhúsin öðruvísi ef við hefðum getað raðað þeim niður og haft þau víðar um landið. Ég segi fyrir mig að ég hefði gjarnan viljað það. Mér skilst að Búðardalshúsið, sem hv. þingmaður grætur hér alla daga, muni fara í gang næsta haust. Þá ætla þeir að fylgja eftir þeim reglum sem hv. þingmaður fékkst við á margan hátt í fyrra starfi sínu. Hann ætti því að þekkja eftirlitið og kemur úr þeim geira.

Svo er það náttúrlega helber áróður að bílar aki skítugir um og leki af þeim drullan. Hvaða drulla? Er það ekki drullan af hinum vondu vegum sem við tölum stundum um? (Gripið fram í.) Menn mega ekki gera of mikið úr því að það sé eilíf hætta þó að bílar aki á milli héraða, við megum ekki láta eins og við eigum að hafa lögregluvakt á hverjum hreppa- eða sýslumörkum. Við búum í landi hreinleikans og heilbrigðisins sem hefur mikla sérstöðu á mælikvarða heimsins og þurfum ekki að tala þau lífsgæði niður, því að þau vekja mikla athygli um víða veröld hvað íslenskan landbúnað varðar og sú mikla sérstaða hvað heilbrigðið varðar. Ég vara við slíkum málflutningi.