131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum við stofnun Landbúnaðarstofnunar.

701. mál
[18:54]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta landbúnaðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum við stofnun Landbúnaðarstofnunar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölmarga aðila og umsagnir frá mörgum. Ég mun ekki telja þá upp hér því að þeir eru nákvæmlega þeir sömu og voru á áliti nefndarinnar um stofnun Landbúnaðarstofnunar.

Með frumvarpinu er lagt til að aðfangaeftirlitið, embætti yfirdýralæknis, veiðimálastjóra og kjötmatsformanns verði lögð niður og að verkefni þeirra, ásamt plöntueftirliti Landbúnaðarháskóla Íslands og ýmsum eftirlits- og stjórnsýsluverkefnum hjá aðalskrifstofu landbúnaðarráðuneytis og Bændasamtökum Íslands verði færð til Landbúnaðarstofnunar sem lagt er til að stofnuð verði með frumvarpi sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu.

Meiri hlutinn leggur til þær breytingar á frumvarpi til laga um Landbúnaðarstofnun að ekki verði gerð krafa um að forstjóri stofnunarinnar verði dýralæknir heldur gerðar almennar hæfiskröfur og krafa um háskólamenntun og æðri menntun. Telur meiri hlutinn því nauðsynlegt til að tryggja faglegt mat við innflutning dýra og afurða þeirra að leggja til að titilinn yfirdýralæknir haldist í lögum og enn fremur að dýralæknir veiti forstöðu því sviði sem fer með dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Þá leggur meiri hlutinn einnig til fjölmargar breytingar sem varða málfar og lagfæringar á tilvísunum.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á þingskjali 1333.

Einar Oddur Kristjánsson, Lúðvík Bergvinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Drífa Hjartardóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Birkir J. Jónsson, Guðmundur Hallvarðsson og Dagný Jónsdóttir.

Þar sem þetta er síðasta nefndarálitið frá hv. landbúnaðarnefnd á þessu vorþingi vil ég sem formaður nefndarinnar þakka öllum nefndarmönnum fyrir gott samstarf í vetur og sérstaklega nefndarritara sem hefur verið feikilega dugleg í vandasömu verki. Eins vil ég þakka landbúnaðarráðuneytinu fyrir gott samstarf við nefndina.