131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum við stofnun Landbúnaðarstofnunar.

701. mál
[19:01]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Það var nokkuð athyglisverð ræða sem hv. þm. Jón Bjarnason flutti hér og ég get tekið undir margt sem hann sagði. Í umræðunni hefur komið fram að stofnunum er slegið saman eða þær teknar í sundur. Samkeppnisstofnun er að fara í sundur og svo eru aðrar að ganga saman og svo er búin til einhver ný ferðamálastofa eða fiskistofa eða hvað það er. Það kemur alltaf einhvers konar orðagjálfur í umsögnina, að auka skilvirkni. Hins vegar segir ekkert um hvernig eigi að auka skilvirknina, hvað eigi að laga og hvernig hlutirnir eigi að ganga fyrir sig. Það er eins og alla framtíðarsýn skorti.

Varðandi t.d. þessa stofnun sem við ræðum hér, Landbúnaðarstofnun, þá vita menn ekki einu sinni hvar hún á að vera staðsett. Ég tel að ef menn ætla að ná einhverjum árangri í skilvirkni þá verði að liggja fyrir áætlun og einhver framtíðarsýn. Það virðist skorta. Menn vita ekki einu sinni hvar stofnunin á að vera. Menn vita aðeins að slá á saman stofnununum og að það eigi að skila skilvirkni. Það þarf alls ekki að vera.

Því miður sýna dæmin að það er ekki á vísan að róa með þá auknu skilvirkni sem lofað hefur verið. Menn hafa haldið slíku fram varðandi ýmsar ákvarðanir landbúnaðarráðuneytisins á síðustu árum. Aukin hagræðing, segja menn. Þessu er bara slegið fram. Þegar hæstv. landbúnaðarráðherra fækkaði sláturhúsum og varði til þess almannafé þá var sagt að af því yrði aukin hagræðing, en menn hafa ekkert fyrir sér í því nema eitthvert hálfgildings orðagjálfur.

Þegar farið var út í að úrelda sláturhús þá lágu engir útreikningar fyrir. Menn vitnuðu í gamla skýrslu sem unnin var fyrir eitthvert fyrirtæki en ráðuneytið gerði enga sérútreikninga eða áætlun um hvernig hagræðingunni ætti að ná fram, enda er sláturfé ekið hringinn í kringum landið í trássi við heilbrigða skynsemi og sjúkdómavarnir.

Ég vil ítreka enn og aftur að þegar menn leggja af stað með verkefni upp á hálfan milljarð, eins og Landbúnaðarstofnun, þurfa þeir að hafa einhverja framtíðarsýn. Það þarf eitthvað að búa á bak við þessi orð, skilvirkni og hagræðingu. Svo virðist því miður ekki vera. Ég vonast til að hv. formaður landbúnaðarnefndar, hv. þm. Drífa Hjartardóttir, noti tækifærið og verji örlitlum tíma í að fara yfir hagræðinguna og skilvirknina sem menn sjá fyrir sér í þessu máli. Ég tel það tímabært ef menn ætla að ná fram einhverjum árangri í ríkisrekstrinum. Því miður virðist sem það skipti engu máli. Menn bara nota orðin hagræðingu og skilvirkni án þess að nokkuð sé á bak við það.

Hver er árangurinn, herra forseti? Hann er verri en enginn, enda hefur ríkið þanist út í valdatíð Sjálfstæðisflokksins? Þeir vildu minnka báknið en hafa aukið báknið. Ég óttast að þessi stofnun, ef menn hafa enga framtíðarsýn þegar menn leggja af stað, gjaldi fyrir það. Menn ættu frekar að sjá fyrir sér hvernig þeir vilji hafa starfsemina, hvar hún eigi að vera, hvort hún eigi að vera í sambandi við háskólann á Hvanneyri eða Hólum og sjá í því samhengi hagræðingarmöguleika. Það virðist því miður ekki verða þannig, herra forseti.