131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:10]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var mjög ánægjulegt að heyra hjá hv. þingmanni að skattar á fyrirtæki auki kostnað almennings, því núverandi ríkisstjórn hefur gert ríkisstjórna mest í því að lækka skatta á fyrirtæki og þar með lækka kostnað á almenning með nákvæmlega sömu rökum.

Varðandi það hvort um sé að ræða atlögu að Reykvíkingum er það stefna núverandi ríkisstjórnar að hafa skattkerfin almenn og algild og sú stefna hefur skilað sér í því að atvinnulífið blómstrar sem aldrei fyrr og greiðir hærri laun sem aldrei fyrr, líka í Reykjavík. Það er sú stefna sem við fylgjum út í hörgul eins og hægt er. Það er sú stefna sem kemur fram í frumvarpinu sem menn hafa verið að auglýsa eftir. Ég gat þess reyndar í 1. umr. í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra þegar hann mælti fyrir málinu, í 1. umr. og líka í 2. umr. gat ég þess að þetta væri einmitt meginmarkmiðið, að hafa sambærilega skatta fyrir öll fyrirtæki, ekki bara matvöruverslanir.

Nú er það þannig að fólk verður að kaupa mat. Allir verða að kaupa mat. Af hverju skyldum við ekki með nákvæmlega sömu rökum lækka skatta á matvöruverslanir þannig að þær geti boðið ódýrari mat til almennings? Það mundi virka miklu betur. Svo hafa sumir þingmenn, samþingmenn hv. þingmanns, sagt að 18% skattur á fyrirtæki sé allt of lágur, það eigi að hækka hann. Hvernig fer þetta allt saman? Þetta fer bara ekkert saman.