131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:16]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur staðfest það sem ég sagði áður, að þegar kemur að orkufyrirtækjunum og hagnaði þeirra þá hefur eitt fyrirtæki sérstöðu umfram önnur, það er og hefur verið Hitaveita Reykjavíkur. Fyrir vikið hafa Reykvíkingar notið lágs orkuverðs í Reykjavík um áratugi. Þess vegna er hér um að ræða sérstakar skattálögur á Reykvíkinga, sem hv. þm. Pétur H. Blöndal beitir sér fyrir á sama tíma og hann beitir sér fyrir því að moka skattpeningum Reykvíkinga í að bora í gegnum fjöll hingað og þangað út um landið, meðan hingað til Reykjavíkur fæst ekki fé til vegaframkvæmda. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hefur líka verið ákaflega duglegur við að innleiða og auka hér gjaldtöku ríkissjóðs til þess að mæta þeim afslætti sem hátekju- og eignafólkið hefur fengið. Við sjáum t.d. stimpilgjöldin, hvernig tekjurnar af þeim hafa margfaldast á milli ára og hvernig ríkisstjórnin er ófáanleg til að lækka stimpilgjöldin, jafnvel á skuldsetta fólkinu þegar það er að skuldbreyta lánunum sínum. (Gripið fram í.) Við sjáum fasteignamatsgjöldin og ég heyri á hv. þingmanni Pétri H. Blöndal að hér er komið við viðkvæman streng í brjósti þingmannsins því að hann er farinn að kalla hér fram í aftur og aftur. Ég vona bara, virðulegur forseti, að ég fái að halda orðinu því að ég er að rifja upp skattahækkanir, laumuskattahækkanir og gjaldahækkanir ríkisstjórnarinnar, þar sem hver hækkunin hefur rekið aðra. Þetta frumvarp um skattskyldu orkufyrirtækja er bara skattlagning á litla manninn í landinu til að geta gefið hátekjufólki og eignafólki meiri skattafslátt.