131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:41]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Gefum okkur að orkufyrirtækin í landinu borgi skatta sem um munar, eins og menn eru að gefa í skyn, þá getum við notað þá til þess að bæta velferðarkerfið. Við getum byggt fyrir þá spítala, við getum reist fyrir þá hjúkrunarheimili fyrir aldraða, við getum hækkað bætur til öryrkja og ellilífeyrisþega, ekki satt? Er það þá alslæmt? Er ekki einmitt spurningin í hvað skattarnir eru notaðir?

Ég vildi spyrja hv. þingmann um þá ævintýramennska sem einkennt hefur fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur, að setja þúsundir milljóna í Línu.Net, eðlisfræðitilraun sem kostaði óhemju og klikkaði, eða ræktun á risarækju, eitthvað því um líkt, hvort ekki sé alveg eins skynsamlegt að skattleggja hagnaðinn þannig að hann renni til velferðarkerfisins frekar en í slík ævintýri.