131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:45]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja sem er hluti af breytingum sem urðu á raforkukerfi landsmanna eða sem eru að ganga yfir. Ég verð að lýsa því fyrst í ræðu minni að það er mjög óskynsamlegt að fara í þessar breytingar. Það er mjög óskynsamlegt frá mörgum sjónarhólum.

Í fyrsta lagi vil ég nefna það að núna eru miklar breytingar sem hafa leitt til hækkunar á raforkuverði. Hvers vegna erum við þá að koma með enn einn óvissuþáttinn í viðbót? Mér finnst það mjög óskynsamlegt. Það er miklu meira vit í því að staldra við og reyna að átta sig á þeim breytingum sem eru að verða núna án þess að setja inn enn einn áhættuþáttinn sem mun að öllum líkindum leiða til hækkunar.

Mér finnst eitt athyglisvert í umræðunni. Það er að hér er enginn framsóknarmaður. En nú er þessi breyting á raforkukerfinu afleiðing stefnu Framsóknarflokksins. Ég furða mig á því að þeir skuli ekki koma og skýra út bæði fyrir okkur þingmönnum hvað er í gangi og síðast en ekki síst fyrir fólkinu í landinu sem er að fá hærri og hærri rafmagnsreikning. Hvað er í gangi? Hvers vegna koma þeir ekki og útskýra hér fyrir fólki hvað valdi þessari hækkun og hvers vegna menn eru að bæta enn einum þættinum við sem mun leiða til hækkunar? Í stað þess sitja sjálfstæðismenn einir uppi með að verja þessa vitleysu og sjálfur hv. þm. Pétur H. Blöndal sem fagnaði ógurlega þegar hér var verið að lækka skatta ekki fyrir svo löngu ... (Gripið fram í: Gerir enn.) já, og hér er hann settur í það að verja skattahækkun en þeir forða sér. Mér finnst það vera ákveðið hugleysi hjá framsóknarmönnum að geta ekki staðið fyrir máli sínu bæði gagnvart okkur þingmönnum en síðast en ekki síst gagnvart þjóðinni sem skilur ekkert í þessum reikningum sem hún er að fá inn um dyralúguna.

Ástæðan fyrir því að ég minni enn og aftur á þetta er sú að villandi upplýsingar hafa ítrekað verið gefnar þegar farið hefur verið í þessar breytingar. Um það má lesa að í upphafi var lofað verðlækkunum, 3% á ári. En síðastliðið vor þegar var verið að ganga frá breytingum á þessu sviði þannig að þessi breytta skipan gæti náð fram að ganga var spáð eilítilli hækkun sums staðar en jafnvel lækkun á öðrum stöðum. En raunin varð sú að það varð mikil hækkun alls staðar. Jú, því miður, og jafnvel tugprósenta hækkun. Það hlýtur að vera mjög erfitt fyrir hv. þingmenn sem styðja breytt skipulag og markaðskerfi að þetta hefur ekki einungis leitt til hærra verðs á orkunni heldur til þess sem verra er, þ.e. það hefur leitt til þess að meira skattfé er notað til þess að áhrifin á reikningana verði ekki svo gífurleg að fólk segi bara: „Hingað og ekki lengra.“ Það er verið að hækka niðurgreiðslur á rafmagni til þess að fólk sjái ekki hvað þessi breyting hefur valdið mikilli hækkun. (Gripið fram í.)

Af því að maður reynir að sýna andstæðingum sínum í stjórnmálum sanngirni þá vil ég fara yfir rök þeirra. Það verður að segjast eins og er að í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja eru þau mjög fátækleg. Þar kemur fram að einn megintilgangur frumvarpsins sé að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði. Hverjir eru það sem ekki hafa setið við sama borð og aðrir í samkeppninni? Það eru raforkubændur. Ég skora á hv. þm. Pétur H. Blöndal að endurskoða þetta. Það hefði verið miklu nær — þá hefði hann líka getað fagnað ef farin hefði verið sú leið — að lækka einfaldlega skattana á raforkubændurna. Þá hefði hann getað notað tækifærið í vor og fagnað eins og hann fagnaði rétt fyrir jól. Í stað þess þarf hann að verja vita vitlaust frumvarp sem mun leiða til enn meiri hækkunar á almenning (Gripið fram í.) og það finnst mér vera slæm staða. Bæði er um að ræða hækkun á reikningnum og hækkun á sköttum til þess að að fólk verði ekki eins vart við áhrifin af vondu kerfi framsóknarmanna sem þeir bjuggu til og eru að búa til. Síðar kemur önnur röksemd, með leyfi forseta:

„Samkeppni í rekstri orkufyrirtækja hefur aukist á síðustu árum og það eru ekki aðeins ríki og sveitarfélög sem standa að slíkum fyrirtækjum heldur standa einnig einstaklingar að byggingu og rekstri orkuveitna.“

Þetta eru röksemdirnar. Raforkubændurnir eru notaðir sem skálkaskjól til þess að leggja álögur á landsmenn. Það hefur komið fram hér í umræðunni að þetta muni leiða til þess að um verða að ræða tilfærslur á fé frá sveitarfélögunum og til ríkisins, sem sagt úr einum vasanum í annan. Ég ítreka að það sem er virkilega slæmt við þetta er að í staðinn fyrir að menn sjái og einangri þessa þætti, þ.e. breytt skipulag á raforkumálum, þá rugla menn myndina og koma inn með skattlagningu í þokkabót. Maður skilur ekki hvað þeim gengur til.

Þegar menn eru að tala um samkeppni og eitt og annað á þessu sviði megum við ekki gleyma því og það verður að minna stjórnarþingmenn á það að raforkukerfinu er skipt í þrennt. Það er dreifing. Það er flutningur. Báðir þessir þættir eru einokunarþættir. Eini þátturinn í raforkukerfinu þar sem samkeppni ríkir er framleiðslan. Hún er mest á einni hendi og meginþáttur framleiðslunnar er seldur í föstum samningum. Frumvarpið sem við erum að ræða hér er því bara til óþurftar. Það er óskiljanlegt að menn skuli ekki draga þetta einfaldlega til baka.

Ég verð að virða það við einn hv. þingmann, Birki Jón Jónsson, að hann tók til máls þegar verið var að ræða raforkumálin af miklum krafti. En því miður hefur hann gufað upp. Ég hefði gjarnan viljað ræða við hann vegna þess að hann skammaði okkur í Frjálslynda flokknum fyrir að vera ekki nógu hægri sinnaðir. Ég veit eiginlega ekki hvað hv. þingmanni gengur til með að skamma okkur fyrir það vegna þess að þetta er ekki raunveruleg samkeppni fyrirtækja. Þetta er samkeppni opinberra fyrirtækja. Ég þekki marga framsóknarmenn í Skagafirðinum. Þeim finnst mjög sérstakt hvað Framsóknarflokkurinn gengur hart fram í einhverju markaðsæði og jafnvel þar sem opinberir aðilar eiga að fara í samkeppni. Ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal skilur örugglega lítið í þessari samkeppni þar sem opinber fyrirtæki eru að keppa og selja orku í föstum samningum. Það væri mjög fróðlegt að fá það fram hvernig þessi samkeppni virkar þar sem opinber fyrirtæki í eigu ríkisins og sveitarfélaganna eru í harðri samkeppni sín á milli við að selja 90% af orkunni í föstum samningum. Þetta skilur enginn. Ég er markaðssinni og það væri fróðlegt að fá einhver rök fram um hvernig þetta eigi að leiða til lægra verðs eins og var lofað í upphafi. Þegar var farið af stað með þessa breytingu á raforkukerfi landsmanna var því lofað. En raunin er hækkun. Fólk vill fá einhverjar skýringar á því hvers vegna verið er að hækka svona mikið raforkuna þegar það er búið að lofa lækkun. Ég skora á fólk sem er að fá háa rafmagnsreikninga inn um lúguna að minnast þess hver er að senda þeim þessa orkureikninga og þess einnig að Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn sem eru að senda fólkinu þessa reikninga, lofuðu lækkun. En síðan er hækkun, herra forseti.

Ég vonast samt sem áður til þess að menn dragi þetta frumvarp til baka, þannig að raunveruleg áhrif til hækkunar sjáist einfaldlega á breyttu skipulagi í raforkumálum, en brengli ekki myndina með því að skattleggja fyrirtækin.