131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[21:00]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra þegar mælt var fyrir málinu sagði ég eftirfarandi, með leyfi herra forseta:

„Þetta er í anda þeirrar stefnu að víkka út og breikka skattstofna og fækka undanþágum og þar með möguleikum til skattsvika, sem við ræddum um fyrr í dag.“

Meginmálið er einmitt þetta, að loka skattglufum hjá fyrirtækjum eins og t.d. Landsvirkjun, sem er í fjarskiptum og hefur verið í fjarskiptum í stórum stíl, og Orkuveitunni sem hefur verið í fjarskiptum, setti mörg þúsund milljónir af hagnaði sínum, hagnaði Reykvíkinga í tilraun á fjarskiptum, að flytja tölvuboð með raforkustreng, sem reyndar klikkaði. Það sama fyrirtæki er líka í risarækjueldi í samkeppni við fyrirtæki sem eru í fiskeldi annars staðar og borga skatta.

Það er einmitt þetta sem gerir það að verkum að við erum að loka glufum og komum með almenna löggjöf fyrir öll fyrirtæki og ég hélt að flokkur hv. þingmanns styddi svoleiðis stefnu, að hafa almenna löggjöf í skattamálum. (Gripið fram í: …Landsvirkjun …)

Varðandi það að selja fyrirtæki er ég ekki sá fyrsti með þá hugmynd. Ég veit ekki betur en að fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og R-listinn í Reykjavík hafi reynt að selja sinn hlut í Landsvirkjun.