131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[21:04]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Frumvarpinu er engan veginn beint gegn Orkuveitu Reykjavíkur. Ég nefndi aðeins þessi tvö dæmi um starfsemi hennar í fjarskiptageiranum og í risarækjueldi sem dæmi um hvernig starfsemin skarast við atvinnugreinar sem eru í samkeppni. Það sýnir einmitt hvernig myndast strax göt í kerfinu þegar skattstofninn er ekki heill í gegn og hvað það er mikilvægt að hafa engar gloppur í skattstofninum. Þetta veit hv. þingmaður enda veit ég ekki betur en flokkur hans hafi margoft lýst yfir stuðningi við slíkt.

Ég svaraði hv. þingmanni í 2. umr. í andsvari nákvæmlega eins, að einn megintilgangur frumvarpsins væri að tryggja jafnvægi í skattalöggjöf á þessu sviði. En svo er umræðan búin að ganga hérna í marga klukkutíma, í fjóra, fimm, sex, sjö klukkutíma, alltaf það sama, hring eftir hring eftir hring, að spyrja að því sama — sem búið er að svara, bæði í 1. og 2. umr. Ég veit ekki hvað á að þurfa að svara oft. Af hverju núna? Nú, til þess að loka glufunum.

Stóriðjan er föst í samningum sínum, segja menn. Það er ekki rétt. Landsvirkjunarsamningarnir fyrstu í Straumsvík eru að renna út. Þá þarf að semja upp á nýtt og örugglega með hærra verði. Það er samkeppni þar líka.

Auk þess hafa menn sagt að það séu svo miklar fjárfestingar sérstaklega hjá stóru fyrirtækjunum, Orkuveitu Reykjavíkur, að þeir muni ekki borga skatta á næstu árum vegna afskrifta. Hvar er þá vandi Orkuveitu Reykjavíkur? Auk þess sem við erum að tala um 18% skatt á hagnað og hagnaður er yfirleitt ekki nema 10% af veltu, og þykir gott, þannig að við erum að tala um 1,8% af verði, ef mjög vel gengur hjá orkufyrirtækjunum.