131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[10:50]

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér eru ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn að samþykkja lög um að skattleggja raforkufyrirtækin í landinu. Þetta er óumdeilanlega ávísun á hækkað raforkuverð til almennings í landinu og ekki aðeins raforkuna, líka heita vatnið. Þegar hafa skipulagsbreytingar í markaðsátt, í einkavæðingarátt í raforkugeiranum valdið umtalsverðri hækkun á raforku.

Það var vitað um áhuga Sjálfstæðisflokksins á að einkavæða grunnþjónustu og velferðarþjónustu í landinu. En ég er ekki viss um að kjósendur hafi almennt gert sér grein fyrir því hve langt Framsóknarflokkurinn er reiðubúinn að (Gripið fram í.) ganga í þessu efni. Ég vek athygli á því að hæstv. iðnaðarráðherra var ekki viðstödd umræðu þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um þegar rætt var frumvarp sem tengist þessum skipulagsbreytingum (Gripið fram í.) í raforkugeiranum. Ég vek athygli jafnframt athygli á því að enn á eftir að afgreiða það frumvarp. Það verður væntanlega gert í næstu viku og það verður ekki gert án þess að hæstv. iðnaðarráðherra verði viðstödd þá umræðu og svari þeim fyrirspurnum sem fram hafa komið.

Við munum að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi og einnig hinu sem bíður afgreiðslu í næstu viku.