131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[10:53]

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er enn ein laumuskattahækkun ríkisstjórnarinnar á ferðinni. Við þekkjum hvernig hún hefur hagað sinni skattapólitík. Það eru auknar álögur á umferðina í dísilgjaldinu. Það eru auknar álögur í stimpilgjöldum á unga húsnæðiskaupendur og skulduga fólkið. Hér eru auknar álögur á raforku og hitareikninga landsmanna, allt til að safna upp fjármunum til að létta sköttum af eignafólki og hátekjufólki.

Þessi skattur mun leggjast á heimilin í landinu en þó leggst hann sérstaklega á Orkuveitu Reykjavíkur því að Reykvíkingar hafa átt hagkvæmt orkufyrirtæki, Hitaveitu Reykjavíkur, um áratuga skeið og staðið vel að því. Nú á að seilast sérstaklega í vasa Reykvíkinga með þessum skatti á Hitaveitu Reykjavíkur og Orkuveitu Reykjavíkur, á orkuframleiðsluna hér í borginni. Sem þingmaður Reykvíkinga hlýt ég að segja nei við þeirri ásælni ríkisvaldsins. Sérstaklega þegar haft er í huga hvernig ríkisstjórnin hefur svelt sveitarfélögin á liðnum árum, tekið af þeim tekjustofna og lagt á þau aukin verkefni, þá er auðvitað óþolandi að gengið sé fram gegn vilja sveitarfélaganna með þessari skattlagningu á orkufyrirtækin í landinu sem flest eru í eigu sveitarfélaga.