131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[13:30]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (frh.):

Virðulegi forseti. Ég var þar kominn í máli mínu þegar ég varð að gera hlé á ræðu minni að ég var að fara yfir helstu umsagnir og annað sem máli skiptir í umræðum um samkeppnismál. Kannski ekki síst er ég enn að leita eftir skýringum, rökum og sjónarmiðum sem gera það að verkum að ákveðið hefur verið að fara þá leið (Gripið fram í.) sem hér birtist í þeim hugmyndum viðskiptaráðherra að leggja niður Samkeppnisstofnun. Við erum að kalla mjög eftir því í þessari umræðu hvort einhverjar breytingar verði á yfirstjórn og forstjóra eftirlitsins. Í framhaldi af því spyrja menn einnig: Hvað er það í starfseminni, hvað er það í umhverfinu og hvað er það sem gerir það að verkum að þegar stofnun eins og Samkeppnisstofnun nær þeim árangri sem alþjóð þekkir og raun ber vitni þurfi að leggja hana niður? (PHB: Búið að segja þetta.) Það eru þær spurningar sem ég hef verið að vekja í umræðunni. (Gripið fram í.) Mér fannst mikilvægt að draga hér fram, af því að ég neyddist til að gera hlé á máli mínu, eftir hverju við erum að leita í þessari umræðu, hvað það er sem við viljum fá skýringar á, hvar það er sem olíueldurinn brennur undir þessum málaflokki. Þetta er það sem við erum að leita að og við teljum afar mikilvægt að kalla fram skýringar á því. Enn og aftur lendum við í þeirri stöðu, eins og ég hér rakti fyrir hlé — ég held að það sé afar mikilvægt fyrir þá sem misstu af hluta af ræðu minni fyrir matarhlé að átta sig á því að enn og aftur krefjast almannasamtök, neytendasamtök og allir sem ekki tilheyra tilteknum útvöldum hópi í þessu samfélagi breytinga á þessum hugmyndum. Þeir telja almannahagsmunum ekki best borgið með að fara þá leið sem ríkisstjórnin vill fara. Eftir stendur þá spurningin: Hvað er það sem hrekur menn áfram? Hvar kreppir skórinn?

Í greinargerðinni með frumvarpinu er farin sú fráleita leið að snúa út úr orðum forstjóra Samkeppnisstofnunar til að færa rök að þessum breytingum. Það er náttúrlega eitt út af fyrir sig sem verður að skoða sérstaklega. Það lýsir meiri hugmyndaauðgi og sýnir hversu óforskammaðir menn geta verið þegar verið er að leita að rökum til að finna stað hugmyndum sem menn vilja setja fram. Þess vegna köllum við eftir því, virðulegi forseti, hvað það er, raunverulega, sem gerir það að verkum að það er ástæða til að leggja niður þá stofnun sem nýverið náði þeim árangri að upplýsa um verðsamráð olíufélaganna og hvers vegna við fáum ekki skýr svör um það hvort hugmyndir séu uppi um að breyta um yfirstjórn og forstjóra stofnunarinnar. Það er það sem við höfum kallað eftir.

Ég hef verið að fara yfir sjónarmið þeirra almannasamtaka sem ég hef hér vitnað til í þessari umræðu. Það er einfaldlega þannig að þau eru að gera sömu athugasemdir og við höfum hér gert sem endurspeglast í því hvers vegna verið sé að draga mátt úr eftirlitinu. Hvers vegna er verið að draga mátt úr lögunum? Það eru spurningarnar sem hafa komið fram og það er kallað á svör. (Gripið fram í.) Í þriðja og fjórða og fimmta skipti verður kallað eftir svörum og skýringum á því hvers vegna þessi leið er valin, það verður kallað þar til skýringar berast. Hingað til hafa engin svör borist.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að fara yfir mjög ítarlegt álit Samkeppnisstofnunar sem fylgir nefndaráliti minni hlutans. Hvort ég fari yfir það frá orði til orðs verður að koma í ljós því að sumt af því sem hér er sagt hefur áður komið fram og í ljósi þess að við reynum að tryggja og koma í veg fyrir að þingstörf geti gengið með þeim hætti sem nauðsynlegt er mun ég reyna að gæta að því að endurtaka ekki það sem áður hefur komið fram.

Eins og ég hef dregið fram áður í umræðunni segir í áliti Samkeppnisstofnunar að hún hafi hvergi komið að því að semja þetta frumvarp, hún gaf ekki umsögn um það hvernig lögin hafa virkað, þ.e. áður en þau voru samþykkt, kom aldrei að því að gera grein fyrir því hvernig skipulag stofnunarinnar hefur virkað eða hvernig lögin hafa virkað. Það er fyrst og fremst viðskiptaráðherra sem hefur hlutast til um frumvarpið vegna þess að sú nefnd sem skilaði niðurstöðu hafði uppi aðrar hugmyndir hvað varðar lögin sjálf þó að hún hafi hins vegar komið með hugmyndir um þær stjórnsýslubreytingar sem nú er ætlunin að ráðast í.

Í áliti stofnunarinnar segir, með leyfi forseta:

„Samkeppnisstofnun lýsir yfir ánægju með þann tón sem sleginn er í nefndarálitinu og mati nefndarinnar á mikilvægi traustra samkeppnisreglna og skilvirkra samkeppnisyfirvalda. Þá er að mati Samkeppnisstofnunar mikilvægur skilningur nefndarinnar á þeim aðstæðum sem samkeppnisyfirvöld búa nú við þannig að þau geti ekki að óbreyttum aðstæðum sinnt nauðsynlegum verkefnum. Í því samhengi tekur stofnunin undir tillögur nefndarinnar um að veita meira fjármagn til samkeppnisyfirvalda. Samkeppnisstofnun er almennt sammála því mati nefndarinnar að rétt sé að auka heimildir samkeppnisyfirvalda til að taka á samkeppnislagabrotum og aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Þá er stofnunin einnig sammála tillögum nefndarinnar um að samkeppnisyfirvöld fái auknar heimildir til vettvangsrannsókna til samræmis við heimildir sem t.d. framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Eftirlitsstofnun EFTA og samkeppnisyfirvöld í Noregi hafa. Samkeppnisstofnun er hins vegar ekki sammála forsendum nefndarinnar fyrir þeim tillögum að breytingum og stjórnsýslu samkeppnismála sem hún setur fram í áliti sínu en virðir það að tillögurnar eru settar fram í því skyni að efla samkeppnisyfirvöld m.a. með auknum fjárframlögum og gera störf þeirra skilvirkari. Nánar er fjallað um tillögur nefndarinnar og forsendur þeirra í umsögn þeirri sem fer hér á eftir.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið vann drög að frumvörpum til breytinga á skipulagi samkeppnisyfirvalda og neytendamála með hliðsjón af niðurstöðu nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi sem áður er vitnað til. Frumvörpin sem voru þrjú talsins birti ráðuneytið opinberlega þann 1. október sl. Eins og vitnað er til í athugasemdum með drögum ráðuneytisins að frumvarpi til samkeppnislaga og í fréttatilkynningu sem það gaf út í tilefni þess að frumvarpsdrögin voru birt byggði ráðuneytið á niðurstöðu nefndarinnar þegar drögin voru samin. Þar segir m.a. að nauðsynlegt sé að efla eftirlit með samkeppnishömlum á markaði. Einstök ákvæði í frumvarpsdrögum ráðuneytisins bera þessu sjónarmiði einnig glöggan vott.

Í athugasemdum með frumvarpsdrögum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins frá sl. hausti segir m.a.: „Í frumvarpi þessu eru ekki gerðar tillögur um heildarendurskoðun samkeppnislaga heldur eru aðeins lagðar til breytingar sem leiðir af tillögum nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis og þær lágmarksbreytingar sem nauðsynlegt er að gera vegna innleiðingar reglugerða Evrópusambandsins á sviði samkeppnisréttar nr. 1/2003 og 139/2004.“ Nákvæmlega sama orðalag og hér er vitnað til er að finna í athugasemdum með því frumvarpi til samkeppnislaga sem lagt var fyrir Alþingi og hér er til umfjöllunar. Þetta orðalag í athugasemdum var eðlilegt í frumvarpsdrögum ráðuneytisins og í fullu samræmi við einstök efnisákvæði þeirra. Orðalagið gengur hins vegar ekki upp í því samhengi sem það er notað í athugasemdum með því frumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi. Til þess hefur verið vikið of mikið frá tillögum tilvitnaðrar nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis og þeim ákvæðum sem voru í frumvarpsdrögum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins sl. haust. Í því sambandi skiptir mestu að frumvarp til nýrra samkeppnislaga felur í sér veikingu á samkeppnislögum þvert á markmið og tillögur nefndarinnar. Kastað hefur verið fyrir róða tillögu nefndar viðskiptaráðherra um aukin rannsóknarúrræði samkeppnisyfirvalda. Þá eru í frumvarpinu gerð mun minni hæfisskilyrði til þeirra sem skipa munu fyrirhugaða stjórn Samkeppniseftirlitsins en gert var ráð fyrir í drögunum sem kynnt voru 1. október sl. Einnig er bagalegt að í frumvarpinu hefur verið felld niður mikilvæg tillaga um að samkeppnisyfirvöld geti skotið málum til dómstóla. …

Þó að í orði kveðnu virðist stefnt að því með frumvarpi til samkeppnislaga að efla samkeppniseftirlit og styrkja samkeppnisyfirvöld með auknum fjárframlögum þá er það mat Samkeppnisstofnunar að efnisleg breytingarákvæði geri það ekki. Þetta er rökstutt nánar í þessari umsögn“ sem ég er hér að lesa upp úr og vísa til. „Það er ótti stofnunarinnar að þær viðamiklu breytingar á stjórnskipulagi samkeppnismála sem ráð er fyrir gert í frumvarpinu séu ekki til bóta þar sem forsendur fyrir þessum breytingum fá vart staðist. Aukin fjárframlög til málaflokksins og fjölgun starfsmanna munu að sjálfsögðu styrkja samkeppnisyfirvöld og auka afköst þeirra og skilvirkni. Það er hins vegar veruleg hætta á því að lítt undirbúnar tillögur um skipulagsbreytingar og veikingu samkeppnislaga dragi úr þessum jákvæðu áhrifum.“

Það er vert að leggja við hlustir þegar sá aðili sem starfað hefur samkvæmt lögunum, starfað samkvæmt skipulaginu, og hefur þurft að vinna samkvæmt þeim reglum sem hafa gilt lýsir því yfir að fyrirhugaðar skipulagsbreytingar séu ekki líklegar til að auka skilvirkni eða árangur á þessu sviði. Það virðist einhvern veginn ekki ná eyrum stjórnarliðsins þó að færð séu ítarleg og vönduð rök fyrir því að hér séu menn að fara leið sem er ekki skynsamleg. Oft og tíðum virðist það vera þannig í umræðunni að litlu sem engu breytir hvaða rök eru færð fram. Það er einfaldlega búið að ákveða einhverja línu. Það breytir engu hvort hrundið sé flestu því sem sett er fram. Það er haldið áfram án þess svo mikið sem líta til hægri eða vinstri eða hlýða á nokkur rök. Svona vinnubrögð draga fram hugrenningar um það á hvaða ferðalagi meiri hlutinn er í þessu tiltekna máli. Lái það hver sem vill þeim sem hér stendur að hann sé afar hugsi og undrandi yfir þeirri leið.

Hér segir áfram í álitinu:

„Í almennum athugasemdum með frumvarpi til nýrra samkeppnislaga er réttilega bent á það að íslenskur samkeppnisréttur sæki um margt fyrirmynd sína til EES/EB-samkeppnisréttar. Nýlega hafa verið gerðar miklar breytingar á þeim rétti … Hefur t.d. verið breytt því kerfi að fyrirtæki þurfi að sækja til samkeppnisyfirvalda ef þau óska eftir undanþágu frá reglum um bann við samkeppnishamlandi samstarfi fyrirtækja. Fjölmörg EES-ríki, þar með talin Danmörk, Noregur, Finnland og Svíþjóð, hafa gert breytingar á samkeppnislögum sínum og lagað innlendar samkeppnisreglur að EES-reglunum að þessu leyti. Engar slíkar breytingar eru lagðar til í þessu frumvarpi. Samkeppnisstofnun vekur athygli á þessu og telur mikilvægt að hugað verði að sams konar breytingum á íslenskum samkeppnislögum.

Í umsögn þessari verður fyrst fjallað um tillögu frumvarpanna um breytingar á stjórnsýslu. Síðan verður gefin umsögn um frumvarp til samkeppnislaga og þar á eftir verður fjallað um frumvarp til laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum“ sem ég mun fara yfir síðar.

Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi til samkeppnislaga, frumvarpi til laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, og í frumvarpi til laga um Neytendastofu og talsmann neytenda, eru lagðar til umtalsverðar breytingar á núgildandi skipulagi og stjórnsýslu í samkeppnis- og neytendamálum. Breytingar þessar felast í aðalatriðum í því að Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð verða lögð niður og ný stofnun, Samkeppniseftirlitið, taki við verkefnum Samkeppnisstofnunar og stórum hluta verkefna samkeppnisráðs. Samkeppniseftirlitinu verður skipuð þriggja manna stjórn sem m.a. ræður forstjóra eftirlitsins og er stjórninni ætlað að fylgjast með starfsemi stofnunarinnar og „tryggja enn frekar að meðalhófs sé gætt í öllum aðgerðum“ hennar, sbr. orðalag frumvarpsins. Einnig er lagt til að þau verkefni er lúta að eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins verði færð frá samkeppnisyfirvöldum til nýrrar stofnunar sem fer með neytendamál, Neytendastofu. Í því skyni er gert ráð fyrir að ákvæði um þetta eftirlit verði felld brott úr samkeppnislögum og sett um þau sérstök lög.

Tilgangur þessara tillagna er sagður vera að efla eftirlit með samkeppnishömlum. Byggjast tillögur að mestu á niðurstöðum nefndar viðskiptaráðherra um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis. Af skýrslu þeirrar nefndar og ummælum í athugasemdum í ofangreindum frumvörpum má ráða að eftirfarandi meginforsendur liggi til grundvallar þessum hugmyndum að skipulagsbreytingum í samkeppnismálum.“

Ég held að það sé afar mikilvægt að hafa í huga að í þessari umsögn er farið vandlega yfir þær röksemdir sem settar hafa verið fram fyrir því að fara þá leið sem hér hefur verið boðuð. Það er afar athyglisvert að stofnun sem heyrir undir viðskiptaráðuneytið skuli kaffæra svo gjörsamlega röksemdafærslu ráðherra. Það er leitun að öðru eins. Hér eru á ferðinni sérfræðingar í málaflokknum, þeir sem hafa starfað í þessu umhverfi allt frá því að samkeppnislög voru sett. (Gripið fram í.) Vissulega má segja sem svo að þeir séu að fjalla um sitt eigið skipulag en það réttlætir ekki að ekki sé einu sinni aflað upplýsinga um þau sjónarmið sem þar kunna að vera til staðar. (Gripið fram í: … kallaðir fyrir nefndina.) Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar Pétur H. Blöndal upplýsir að þeir hafi verið kallaðir fyrir nefndina og telur yfirdrifið að helstu sérfræðingar þjóðarinnar í samkeppnismálum skuli þó, fyrir náð og miskunn, hafa fengið að koma fyrir nefndina. Það er afar athyglisvert þegar verið er að setja ný samkeppnislög að helstu sérfræðingar þjóðarinnar skuli fyrir náð og miskunn hafa fengið að koma fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Það má reyndar bæta við að ekki aðeins stofnunin hafi komið fyrir nefndina, heldur kom einnig fyrir nefndina formaður áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem lýsti að meginstefnu til sömu sjónarmiðum og stofnunin hafði áður lýst. En það haggar í litlu hugarró eða trú hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar, Péturs H. Blöndals, í þessu tiltekna máli. Eins og ég hef áður komið að tókst okkur ekki, þrátt fyrir að leggja mikla vinnu í þetta mál, að draga fram sjónarmið sem réttlæta það að þessi leið skuli vera farin.

Í áliti Samkeppnisstofnunar, sem ég er hér að vísa til og geri grein fyrir, er áfram vísað til þess hvaða sjónarmið hæstv. viðskiptaráðherra hefur sett fram fyrir þessum breytingum. Um þau sjónarmið er síðan fjallað sérstaklega í umsögninni. Sjónarmiðin sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur lagt fram fyrir þessum skipulagsbreytingum í samkeppnismálum eru eftirfarandi:

„Núverandi skipulag og stjórnsýsla sé of flókin og tvískipting samkeppnisyfirvalda í Samkeppnisstofnun og ráð sé sérstök og skapi ójafnvægi milli málsaðila.

Eftirlit með samkeppnisreglum sé lítill hluti af störfum Samkeppnisstofnunar.

Samkeppnisyfirvöld hafi ekki getað einbeitt sér nægjanlega að eftirliti með samkeppnisreglum vegna anna við önnur verkefni.

Samkeppnisyfirvöld geti ekki við óbreyttar aðstæður sinnt nauðsynlegum verkefnum.“

Þetta eru þau sjónarmið sem hafa verið sett fram og um þau hefur verið fjallað í efnahags- og viðskiptanefnd. Þau hafa öll verið hrakin og þess vegna stöndum við hér og köllum enn eftir sjónarmiðum um það hvers vegna þessi leið er farin.

Hér segir áfram í umsögninni:

„Samkvæmt framansögðu er ljóst að frumvarpið leggur til grundvallarbreytingar á stjórnsýslu í samkeppnismálum. Að mati Samkeppnisstofnunar er það bagalegt að framangreindar forsendur fyrir þessum breytingum byggjast í aðalatriðum á misskilningi eða röngum upplýsingum um núverandi stjórnsýslu í málaflokknum.“ — Það er athyglisvert að það skuli vera fullyrt að forsendur fyrir breytingunum byggi á misskilningi eða röngum upplýsingum.

„Telur Samkeppnisstofnun það gagnrýnisvert að nefnd viðskiptaráðherra hafi kosið að leggja fram þessar tillögur án þess að leita upplýsinga hjá stofnuninni, samkeppnisráði, auglýsinganefnd eða áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Hlýtur almennt að teljast æskilegt að leitað sé upplýsinga um staðreyndir og reynslu þeirra stjórnvalda sem falin er framkvæmd á tilteknum lögum áður en gerðar eru tillögur um að stjórnsýslufyrirkomulagi á því sviði sé gerbylt. Þegar Samkeppnisstofnun fékk í hendur skýrslu nefndar viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi og upphafleg drög að frumvarpi til nýrra samkeppnislaga í september 2004 vakti stofnunin athygli iðnaðar- og viðskiptaráðherra á misskilningi og ónákvæmni sem fram kom í skýrslunni og drögunum. Viðbrögð ráðuneytisins fólust í því að gera breytingar á orðalagi í athugasemdum með drögum að frumvarpinu. Samkeppnisstofnun var jafnframt upplýst um það að engar breytingar yrðu gerðar á tillögum um nýtt stjórnsýslufyrirkomulag í samkeppnismálum.

Þar sem helstu forsendur fyrir framangreindum tillögum fá ekki staðist varar Samkeppnisstofnun við því að þær verði lögfestar.“ — Er það síðan rökstutt áfram í þessari umsögn. Fyrsta röksemdin er um að núverandi stjórnsýslufyrirkomulag sé flókið, sérstakt og óeðlilegt.

„Í áliti nefndar viðskiptaráðherra segir að núgildandi tvískipting samkeppnisyfirvalda í Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð sé sérstök og skapi ójafnvægi milli málsaðila og er í því samhengi á það bent að málsaðilar geti ekki flutt mál sín beint fyrir samkeppnisráði. Sökum þessa m.a. vill nefndin leggja niður samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun.

Samkeppnisstofnun fær í fyrsta lagi ekki séð hvað sé sérstakt eða óeðlilegt við núgildandi stjórnsýslufyrirkomulag í samkeppnismálum hér á landi. Jafnframt er ekki ljóst hver sú mælistika er sem heimilar þá ályktun að skipulag samkeppnismála hér á landi sé sérstakt. Í því sambandi verður að hafa í huga að það er mjög mismunandi hvernig einstök aðildarríki EES skipuleggja framkvæmd á samkeppnisreglum. Stjórnsýslufyrirkomulagið er t.d. ekki það sama í Noregi og Svíþjóð eða í Bretlandi og Írlandi. Samkvæmt gildandi lögum annast Samkeppnisstofnun rannsókn samkeppnismála og undirbýr mál í hendur samkeppnisráðs sem hefur það hlutverk að taka ákvarðanir á fyrsta stjórnsýslustigi. Ákvörðunum samkeppnisráðs er unnt að skjóta til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og síðar dómstóla. Þetta er í eðli sínu sama stjórnsýslufyrirkomulag og gildir í Danmörku þar sem stjórnvöld samkeppnismála eru samkeppnisstofnun, samkeppnisráð og áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Önnur ríki eins og t.d. Belgía og Frakkland hafa í aðalatriðum einnig farið þá leið að fela sérstakri samkeppnisstofnun að rannsaka mál og samkeppnisráði að taka ákvörðun í samkeppnismálum. Á hinn bóginn notast ríki eins og t.d. Þýskaland og Ítalía við aðra aðferð og fela einu og sama stjórnvaldi að rannsaka og taka ákvarðanir í samkeppnismálum. Að mati Samkeppnisstofnunar er því ekki unnt að rökstyðja breytingar á núgildandi fyrirkomulagi stjórnsýslu með vísan til þess að stjórnskipulagið sé á einhvern hátt sérstakt eða óeðlilegt.

Í skýrslu nefndar viðskiptaráðherra kemur fram að málsaðilar geti ekki flutt mál sitt fyrir samkeppnisráði öðruvísi en í gegnum Samkeppnisstofnun og að þessi „tvískipting í stofnun og ráð skapi ákveðið ójafnvægi milli málsaðila“. Samkvæmt þessu virðist nefndin byggja á því að Samkeppnisstofnun sé líkt og fyrirtæki málsaðili fyrir samkeppnisráði. Svo er hins vegar ekki. Samkeppnisstofnun eða starfsmenn hennar eru ekki í stöðu málsaðila gagnvart samkeppnisráði og hafa enga hagsmuni af tiltekinni niðurstöðu mála. Samkeppnislögin gera sérstaklega ráð fyrir því að Samkeppnisstofnun annist dagleg störf ráðsins og stofnunin taki þátt í fundum ráðsins. Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð eru þannig ekki tvö aðskilin sjálfstæð stjórnvöld heldur eru þau í þeim málum þar sem samkeppnisráð fer með ákvörðunarvald í raun ígildi eins stjórnvalds. Má í þessu samhengi líkja starfsmönnum Samkeppnisstofnunar við starfsmenn ráðuneyta sem undirbúa mál sem ráðherra tekur ákvörðun í. Fáum aðilum stjórnsýslumáls dytti í hug að halda því fram að þeir séu í lakari stöðu gagnvart starfsmönnum ráðuneyta þar sem þeir sitji ekki fundi með ráðherra þar sem stjórnsýslumál eru til lykta leidd. Samkeppnisstofnun hefur enga hagsmuni að verja fyrir samkeppnisráði. Á henni og samkeppnisráði hvílir einfaldlega sú skylda að tryggja að störf samkeppnisyfirvalda leiði til þess að markmið samkeppnislaga náist.

Rétt er að hafa í huga að í máli sem varðaði ólögmætt samráð á grænmetismarkaði var látið reyna á næstum alla þætti varðandi stjórnsýslu samkeppnismála fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála og dómstólum. Því var m.a. haldið fram af málsaðilum að Samkeppnisstofnun væri í stöðu aðila fyrir samkeppnisráði og ójafnvægi væri milli stofnunarinnar og viðkomandi fyrirtækja. Ekki var fallist á nein þessara gagnrýnisatriða. Úrskurður áfrýjunarnefndar, sem staðfestur var af Hæstarétti, sýnir að stjórnsýsla í samkeppnismálum er að þessu leyti fullkomlega eðlileg og sanngjörn. Í nýlegu máli sem varðar ólögmætt samráð olíufélaganna hefur áfrýjunarnefnd samkeppnismála hnykkt á því að stjórnsýslan í samkeppnismálum sé að þessu leyti eðlileg. Umfjöllun um þetta í nefndarálitinu byggir því á misskilningi á núverandi fyrirkomulagi stjórnsýslu í samkeppnismálum og er ekki í samræmi við gildandi rétt. Jafnframt er ljóst að skýrsla nefndarinnar byggir á röngum upplýsingum því samkeppnisráð heimilar fyrirtækjum í alvarlegri málum að koma fyrir ráðið og tjá sig munnlega. Frá mars 2004 hefur öllum aðilum að málum þar sem kemur til álita að beita stjórnvaldssektum, til viðbótar við skriflegar athugasemdir til ráðsins, verið boðið að koma fyrir samkeppnisráð og tjá sig munnlega. Hafa málsaðilar í sektarmálum nýtt sér þetta og þetta fyrirkomulag hefur reynst vel.

Í frumvarpinu er eins og fyrr sagði lagt til að samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun verði lögð niður og verkefni þeirra að mestu falin nýrri stofnun, Samkeppniseftirlitinu. Þá er lagt til að skipuð verði þriggja manna stjórn sem ætlað verði að móta áherslur í starfi Samkeppniseftirlitsins og fylgjast með starfsemi þess. Þá er einnig gerð sú tillaga að Samkeppniseftirlitið beri meiri háttar ákvarðanir undir stjórnina til samþykktar eða synjunar. Eru þessar tillögur sagðar vera til einföldunar á stjórnsýslu samkeppnismála.

Ekki fæst séð hvaða breyting eða einföldun á stjórnsýslu samkeppnismála leiðir í raun af þessum tillögum. Samkvæmt núgildandi reglum tekur samkeppnisráð ákvarðanir í stærri málum og Samkeppnisstofnun afgreiðir minni mál. … Eins og sjá má af súluritinu“ sem er birt í umsögninni „koma árlega um 300 mál til kasta samkeppnisyfirvalda en af þeim eru það eingöngu 40–50 mál sem samkeppnisráð afgreiðir. Þannig hefur samkeppnisráð að meðaltali afgreitt 18% þeirra erinda sem samkeppnisyfirvöldum hafa borist og hefur það hlutfall lækkað síðustu ár.

Í frumvarpi til nýrra samkeppnislaga er tekið fram að þrátt fyrir að bera skuli meiri háttar ákvarðanir undir stjórnina til samþykktar eða synjunar sé það samt sem áður Samkeppniseftirlitið sem verði aðalúrskurðaraðilinn. Samkeppnisstofnun bendir hins vegar á að eftir sem áður mun ákvörðunarvaldið í stærri málum vera í raun í höndum stjórnarinnar þar sem hún getur synjað tillögum Samkeppniseftirlitsins. Er þetta í eðli sínu sama fyrirkomulag og gildir í dag við töku meiri háttar stjórnvaldsákvarðana á fyrsta stjórnsýslustigi í samkeppnismálum.

Samkvæmt framansögðu verður því ekki betur séð en fyrirhuguð staða og hlutverk stjórnar verði í eðli sínu hið sama og hlutverk samkeppnisráðs að þessu leyti. Einnig leiðir af lögbundnu hlutverki samkeppnisráðs að það er verkefni ráðsins að móta áherslur við beitingu og framkvæmd samkeppnislaga. Er þetta sambærilegt við fyrirhugað hlutverk stjórnarinnar. Það sem helst skilur að er að stjórninni er ætlað að fylgjast með rekstri Samkeppniseftirlitsins og ráða forstjóra þess og ákveða honum starfskjör. Er þetta orðað með þeim hætti í frumvarpinu að stjórnin fari með yfirstjórn yfir Samkeppniseftirlitinu. Samkeppnisráð hefur ekki það hlutverk. Nánar er fjallað um áhrif þeirrar breytingar í umfjöllun um 5. gr. frumvarps til nýrra samkeppnislaga“ sem fjallað er um síðar í þessu áliti.

„Jafnframt verður það að teljast verulegur ágalli á þessum tillögum að engin sjálfstæð úttekt hefur farið fram á því hvernig núverandi stjórnsýslufyrirkomulag hefur reynst í raun, a.m.k. var hvorki rætt við fulltrúa samkeppnisráðs né Samkeppnisstofnunar sem hafa rúmlega tíu ára reynslu af núverandi fyrirkomulagi. Verður ekki heldur séð að gerð hafi verið könnun á stjórnsýslufyrirkomulagi samkeppnismála annars staðar og hvernig það hafi reynst.“

Það eru mjög alvarlegar athugasemdir sem hér koma fram, eins og ég hef reyndar áður vísað til, að á vinnslustigi þessa máls hafi aldrei verið leitað til þeirra sem hafa starfað samkvæmt lögunum, aldrei verið við þá rætt, þeir aldrei spurðir hvernig mál hefðu þróast eða hvernig þetta hefði gengið. En röksemdin fyrir breytingum er fengin með útúrsnúningi á orðum forstjóra stofnunarinnar í ársskýrslu sinni.

Í öðru lagi er það sjónarmið sett fram fyrir þessum breytingum að eftirlit með samkeppnisreglum sé lítill hluti af störfum Samkeppnisstofnunar. Nefndin vísar til starfsemi Federal Trade Commission sem er stofnun alveg eins uppbyggð og Samkeppnisstofnun, þ.e. sú stofnun annast bæði eftirlit með samkeppnisreglum og eftirlit með reglum sem ætlað er að tryggja vernd neytenda. Hafa bandarísk stjórnvöld lýst því yfir að framkvæmd samkeppnisreglna og reglna um neytendavernd styðji hvor aðra og skynsamlegt og gagnlegt sé að þetta hvort tveggja sé gert í einni og sömu stofnuninni.

Í þriðja lagi er talað um að störf að neytendamálum trufli einbeitingu í samkeppnismálum.

„Samkeppnisstofnun fær ekki séð að þessar forsendur [sem voru uppi þegar þetta skipulag var sett á laggirnar] hafi breyst. Jafnframt ber að hafa í huga að tilgangur reglna um gagnsæi markaðarins er ekki síst sá að efla virka samkeppni. Þannig sagði í greinargerð með núgildandi lögum að í „frumvarpinu er lögð áhersla á að efla gagnsæi markaðarins með upplýsingamiðlun enda er það grundvallarforsenda fyrir þróun virkrar samkeppni að seljendur og kaupendur vöru og þjónustu beri gott skynbragð á verð, viðskiptakjör, gæði o.fl.“.

Samkeppnisstofnun bendir einnig á í þessu sambandi að samkeppnissvið stofnunarinnar hefur notið sérfræðiþekkingar þeirra sem starfa við neytendavernd og öfugt. Starfsmenn sem vinna að verkefnum tengdum gagnsæi markaðarins hafa gert athuganir sem nýst hafa í samkeppnismálum. Það er t.a.m. mjög gagnlegt varðandi framkvæmd á samkeppnisreglum að hafa beinan aðgang að starfsmönnum sem reyndir eru í að framkvæma verðkannanir. Slíkar kannanir geta gefið mikilvægar vísbendingar í samkeppnismálum. Jafnframt hafa starfsmenn þessara sviða veitt aðstoð við úrvinnslu stærri mála á samkeppnissviði og við framkvæmd húsleita.

Að mati Samkeppnisstofnunar hefur það alls ekki verið svo í reynd að framkvæmd þessara verkefna hjá sömu stofnun hafi reynst illa eða skapað vandkvæði. Þvert á móti hefur þetta gefist vel og alls ekki dregið úr einbeitingu Samkeppnisstofnunar í samkeppniseftirliti né haft áhrif til hins verra á vinnu að óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.“

Fjórðu rökin sem hæstv. viðskiptaráðherra notar fyrir þeim hugmyndum sem hún hefur hér lagt fyrir þingið og meiri hlutinn hyggst lögfesta eru þau að samkeppnisyfirvöld geti ekki við óbreyttar aðstæður sinnt nauðsynlegum verkefnum. Ég held að ekki þurfi að orðlengja það og ég er búinn að fara yfir það fyrr í ræðu minni að meginatriðið, ef menn raunverulega meina það að vilja að samkeppnisyfirvöld geti tekið á þeim málum sem koma upp, er að setja meira fjármagn í stofnunina. Forstjórinn hefur lýst því yfir að núgildandi reglur séu með því besta sem gerist, það eina sem vanti sé mannskapur og fjármagn. Það er það einasta sem þurfi að koma til ef menn vilja hraða málsmeðferð í þessum málaflokki.

Hér segir áfram í umsögn stofnunarinnar, sem er niðurstaðan:

„Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að allar helstu forsendur fyrir tillögum frumvarpanna um breytingar á stjórnsýslu í samkeppnismálum fá ekki staðist. Engin rök hafa komið fram sem styðja það að þessar tillögur efli skilvirkni eða geri samkeppnisyfirvöldum betur kleift að sinna verkefnum sínum. Þvert á móti geta þessar tillögur veikt samkeppnisyfirvöld.

Fram kemur í frumvarpi til nýrra samkeppnislaga að nýtt stjórnskipulag í samkeppnismálum sé sambærilegt skipulagi Fjármálaeftirlitsins. Samkeppnisstofnun bendir á að það er verulegur ágalli á þessum tillögum um nýtt stjórnskipulag að engin sjálfstæð úttekt fór fram á því hvernig núverandi fyrirkomulag hefur reynst í raun. Það liggur því ekkert fyrir um það að skipulag Fjármálaeftirlitsins sé á einhvern hátt heppilegra eða skilvirkara en núgildandi stjórnskipulag í samkeppnismálum. Jafnframt liggur ekkert fyrir um það að kerfi sem kann að henta í eftirliti með fjármálamarkaði eigi við í samkeppnismálum.

Í ljósi þessa alls varar Samkeppnisstofnun alvarlega við framangreindum tillögum um breytingar á stjórnsýslu. Stofnunin telur það vægast sagt mjög óheppilegt fyrir samkeppniseftirlit að gerðar séu svo mikilvægar breytingar á samkeppnislögum á gölluðum forsendum. Hætt er við því að slíkt muni ekki skila árangri heldur fela í sér afturför í framkvæmd samkeppnislaga hér á landi. Samkeppnisstofnun leggst vitaskuld ekki gegn breytingum á stjórnsýslu samkeppnismála sem fela í sér framfarir. Til þess að unnt sé að leggja fram tillögur sem stuðla að aukinni skilvirkni og meiri afköstum samkeppnisyfirvalda þarf hins vegar að fara fram vönduð úttekt á núverandi kerfi og reynslunni af framkvæmd þess.“

Virðulegi forseti. Hér hef ég í áliti mínu rakið mjög ítarlega þær athugasemdir sem fyrir liggja um það frumvarp sem hér er ætlunin að fara að lögfesta. Kjarni málsins er sá að núgildandi fyrirkomulag er í góðu lagi. Það virkar, það sýnir árangur, það eina sem skortir er fjármagn til að fjölga starfsmönnum. Þetta hafa menn vitað lengi. Hins vegar liggur fyrir að meiri hlutinn á hinu háa Alþingi hefur lengi haft mikinn áhuga á því að veikja samkeppnislögin og draga úr eftirliti. Þá umræðu hafa bæði Verslunarráðið og Samtök atvinnulífsins leitt til margra ára og nú sjáum við árangur af þeirri umræðu. Nú sjáum við það að fulltrúar þessara hópa hér á Alþingi eru að keyra fram hugmyndir sem hugnast þeim mjög vel. (Gripið fram í: Á móti …) Það er í raun og veru sorglegt að þetta skuli vera gert með þessum hætti, að ekki sé nú minnst á framlag hæstv. viðskiptaráðherra og upphlaup hennar í fjölmiðlum þess efnis að aðrir sem að þessum málum koma skilji þau ekki, hafi misskilið það svo gjörsamlega og snúið öllu á haus, eins og hún sagði um athugasemdir hv. þm. Ögmundar Jónassonar, Helga Hjörvars og Gunnars Örlygssonar í fréttaviðtali ekki alls fyrir löngu. Án þess að koma með nokkuð sem máli skiptir inn í þessa umræðu er valin sú leið að kalla þá sem hafa gert athugasemdir og viljað virkilega efla samkeppnislögin … Það skiptir viðskiptalífið, almenning og launamenn máli. Það skiptir alla neytendur í þessu landi máli.

Vissulega munum við fylgjast mjög vandlega með því hver framvinda málsins verður. Ef svo illa fer að þetta mál nái fram að ganga á hinu háa Alþingi munum við fylgjast mjög vandlega með því hvernig úr því verður unnið. Auðvitað slær það allan almenning að í kjölfar þess að stofnunin og eftirlitið skilar meiri árangri en áður þekkist skuli koma fram hugmyndir um að leggja stofnunina niður. Enn höfum við ekki fengið skýr svör um það hvaða hugmyndir meiri hlutinn hefur um áframhaldandi störf forstjóra Samkeppnisstofnunar.

Með þessu verður fylgst og eftir þessu verður litið.