131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:11]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er einn sá galli á persónu minni að athygli mín dofnar þegar ég hlýði á ræðu sem er lengri en 15–20 mínútur og þar af leiðandi náði ég ekki öllu því sem hv. þingmaður ræddi í sinni löngu og merku ræðu. Það er þó eitt atriði sem ég ætla að koma inn á og það er stjórn fyrirtækisins.

Nú er það þannig að ráðherra ræður og rekur forstjóra Samkeppnisstofnunar og hann gæti — kannski ekki núverandi ráðherra en ráðherra sem væri óbilgjarn — haft afskipti af ákvörðunum og látið forstöðumanninn … (Gripið fram í.) Nei, og gæti látið forstöðumanninn vita að það mætti reka hann. Forstöðumaðurinn er gjörsamlega háður ráðherranum með allt sitt lifibrauð. Núna er lagt til að það verði þriggja manna stjórn og þrír menn til vara þannig að ráðherrann yrði að reka fimm manns úr stjórninni … (Gripið fram í: Hver skipar í hana?) Ráðherrann, en þeir eru óháðir eftir það. Þeir eru skipaðir til fjögurra ára þannig að hann á mjög bágt með að reka þá. (Gripið fram í.) Það er mjög erfitt að koma þeim frá þannig að þetta er miklu óháðara fyrirbæri og stjórnskipun en er núna, a.m.k. frá sjónarhorni stjórnmála. Hann yrði sem sagt að reka stjórnina sem ég sé ekki hvernig er hægt og þá kæmu varamenn inn og hann yrði að reka þá líka.

Varðandi hæfisskyldu við skipun stjórnar — menn hafa bent á Fjármálaeftirlitið í því sambandi. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með mjög takmörkuðum hópi fyrirtækja, Samkeppnisstofnun nánast öllum, líka háskólum. Það er því orðið vandséð hvar á að finna menn sem ekki koma nálægt atvinnulífi beint eða óbeint eða eru þátttakendur í því, t.d. sem kennarar við háskóla. Þá er orðið fátt um fína drætti þegar ekki má leita að fólki neins staðar. Þess vegna hafa menn hafa slakað á hæfisskilyrðum en ég vil benda á að í greininni kemur fram að menn skulu uppfylla alls konar skilyrði og mega ekki vera tengdir því máli sem þeir fjalla um.