131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:13]

Frsm. 1. minni hluta (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það reyndist og rétt vera hjá hv. þingmanni að hann virðist ekki geta fylgst með ræðum sem ná yfir tiltekinn tíma. Það er alveg augljóst. Með þeim fyrirspurnum sem hér hafa verið bornar upp staðfestir hann að hann hefur ekki fylgst vandlega með þeirri umræðu sem hér hefur farið fram.

Það kom ítrekað fram í ræðu minni og kemur fram einnig í umsögnum sem fylgja þessu máli að sú réttarvernd sem embættismenn hafa í dag gagnvart afskiptum stjórnmálamanna verður miklum mun meiri en sú vernd sem hugsanlegur verðandi forstjóri hefur sem byggir alfarið á þriggja manna pólitískt skipaðri stjórn — alfarið — sem er skipuð til tiltekins tíma, til fjögurra ára, og forstjórinn á allt sitt undir þeirri pólitískt skipuðu stjórn.

Að setja fram þá fullyrðingu að sú staða gefi honum meira sjálfstæði en sú réttarvernd sem embættismenn í dag hafa — við þeim verður ekki hróflað nema eftir tilteknum lögbundnum leiðum — er algerlega fráleitt. Neytendasamtökin settu reyndar fram athyglisvert sjónarmið þar sem þau lögðu til að forstjórinn hefði svipaða stöðu og hæstaréttardómarar hafa, hann yrði þá ekki settur af nema með dómi. Það er athyglisvert sjónarmið. Ef það er það sem meiri hlutinn raunverulega vill væri eðlilegra að fara þá leið.

Hér hefur verið dregið mjög skilmerkilega fram að réttarstaða þess forstjóra sem tekur við sem á allt sitt undir pólitískt skipaðri stjórn — og ekki bara það, heldur verður hafður undir eftirliti um það að hann gæti meðalhófs í aðgerðum sínum — verður gjörólík því fyrirkomulagi sem viðgengst í dag.