131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:16]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Stjórnin er skipuð og situr svo í fjögur ár. Á þeim fjórum árum hefur ráðherra ekkert yfir henni að segja. Það getur vel verið að hún verði pólitískt skipuð, sérstaklega ef í stjórn komast flokkar sem hafa áhuga á slíku. En eftir að búið er að skipa hana þá er hún óháð ráðherranum. Það er nú einu sinni þannig að fólk hefur sjálfstæðar skoðanir, ekki bara á þingi.

Hv. þingmaður spurði ítrekað, og þá vaknaði athygli mín undir ræðu hans, til hvers þessi vegferð væri farin. Ég hélt að því hefði verið svarað, bæði í greinargerð og í nefndaráliti. En ég get svo sem farið yfir það einu sinni enn. Það er vegna þess að stjórnskipulagið þykir óþarflega flókið. Nú erum við með samkeppnisráð, Samkeppnisstofnun og áfrýjunarnefnd samkeppnismála, sem fjalla um þessi mál. Þetta er mjög flókið fyrirkomulag.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að einfalda þetta, þannig að það sé eitt stjórnvald, Samkeppniseftirlitið, sem hefur eftirlit með öllu. Þannig verða væntanlega úrskurðirnir hraðari og atvinnulífið veit því fyrr hvað má og hvað má ekki. Það er mjög mikilvægt. Ég man ekki betur en að eitthvað sé í gangi gagnvart tryggingafélögunum, sem hefur verið í gangi í átta ár. Þetta er allt of seinvirkt. Hvaða þýðingu hefur það að segja mönnum hvað þeir máttu ekki gera átta árum seinna? Atvinnulífið þarf strax að fá að vita hvað það má gera og hvað ekki. Það er því mikilvægt að þessar stofnanir vinni hratt og vel og að stjórnskipulagið sé ekki óþarflega þunglamalegt frá hendi löggjafans. Þetta er vegferðin, herra forseti, til að skerpa á samkeppninni og gera hana skilvirkari.