131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:35]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir viðvörun hv. þingmanns við þróun til lögregluríkis þar sem einstakir glæpamenn neyða löggjafann í sífellu til að skerða og þrengja réttindi og einkarétt einstaklinga.

Mig langar til að ræða við hv. þingmann um sérfræðingaveldið. Þjóðfélagið er sífellt að verða flóknara og flóknara og þeir einu sem hafa virkilega vit á samkeppnismálum eru starfsmenn Samkeppnisstofnunar, þeir sem hafa vit á skattamálum eru starfsmenn skattstofa og þeir sem hafa vit á tollamálum eru starfsmenn tollsins.

Telur hv. þingmaður ekki varasamt ef þeir aðilar eiga að hafa mjög mikil áhrif á lagasetningu sem geta hugsanlega þurft að smíða sér vopn í baráttunni við einstaklinga, neytendur og borgara? Gæti það ekki orðið hættulegt ef við tökum of mikið mark á þeim sem standa í baráttunni við einstaklingana og borgarana og þurfa aukin vopn í hendurnar? Hv. þingmaður vísaði mjög mikið til álitsgerðar Samkeppnisstofnunar, sem er einmitt í þeirri stöðu að vita allt um málið og eiga við borgara.

Hv. þingmaður setti spurningarmerki við það að háskólamenn eða háskólamenntun ætti að hafa einhvern forgang í stöðuveitingum. Þá nefndi hv. þingmaður hæfisskilyrði til að skipa stjórn. Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 30. ágúst 1993 segir að sú hætta geti fylgt mjög þröngum hæfisskilyrðum að þeir sem mesta þekkingu og reynslu hafa á hlutaðeigandi sviði verði útilokaðir frá því að gegna opinberu embætti.

Það er nánast ekkert svið eftir sem ekki á í samkeppni í einhverjum skilningi. Meira að segja háskólarnir eru komnir í samkeppni, grunnskólarnir eru farnir að auglýsa eftir nemendum þannig að það gæti orðið erfitt að finna mann í þjóðfélaginu sem væri algjörlega óháður og kæmi aldrei til álita að Samkeppnisstofnun mundi fjalla um hann eða fyrirtæki hans.