131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:37]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vandi hv. þm. Péturs H. Blöndals er sá að heimur hans er annaðhvort svartur eða hvítur. Það getur verið varasamt að taka mark á þeim sem starfa við tengd málefni eða starfsemi. Þýðir það þá að ekkert mark eigi að taka á þeim? Svart/hvítt.

Það sem ég gat um sérstaklega í máli mínu og kemur fram í álitsgerð minni er að sú spurning komi upp hvort menn séu að standa vörð um eigin hagsmuni. Hvernig finnum við út úr því? Við finnum út úr því með málefnalegri umræðu þar sem rök eru vegin.

Ég verð að segja að mér finnst þau rök sem Samkeppnisstofnun setur fram vera mjög sannfærandi. Ef svo er á að sjálfsögðu að taka tillit til þeirra. Vitanlega á að spyrja þá sem hafa reynsluna og þekkja til mála, sem vita hvar skórinn kreppir og eru þar af leiðandi meðvitaðir um hvar úrbóta er þörf. Auðvitað á að leita álits hjá slíkum aðilum og hlusta grannt á þá. Hér hefur það ekki verið gert í samræmi við heimsmynd hv. þm. Péturs H. Blöndals um hinn svart/hvíta heim.