131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:46]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar EES-samningurinn var gerður á sínum tíma fór fram mikil umræða í þjóðfélaginu og hér á Alþingi um grundvallaratriði af þessu tagi. Var okkur þá sagt að forsenda samningsins væri sú, og hann væri byggður á þeirri hugsun, að dómsvald yrði ekki framselt út úr landinu. Ég minni á að í efnahags- og viðskiptanefnd sagði Stefán Már Stefánsson prófessor að spurningin snerist um að fara aðrar leiðir en að framselja dómsvaldið úr landinu, sem hann telur að við séum að gera með þessari lagabreytingu, til að ná sama takmarki um einsleitni á markaðnum. Ég tek undir það.