131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:49]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom fram í ræðu minni — og ég vísaði jafnframt í umsögn Samkeppnisstofnunar varðandi styrkingu, eða veikingu eftir atvikum — að Samkeppnisstofnun segi að það sé vissulega rétt að þarna komi meira fjármagn og fleiri aðilar en jafnframt séu lögin veikt. Samkeppnisstofnun færir rök fyrir því hvernig það er gert.

Síðan skulum við ekki gleyma því að hluti af starfsemi Samkeppnisstofnunar er færður annað. Hvernig mun þeirri starfsemi reiða af í hinni nýju Neytendastofu þar sem gert er ráð fyrir einum einstaklingi í einhverju undarlegu samkrulli með annarri starfsemi á vegum núverandi Löggildingarstofu sem sinnir rafmagnseftirlitinu o.s.frv.? Það á eftir að koma í ljós hvernig þetta allt muni gera sig.

Gagnrýnin gengur fyrst og fremst út á það að verið sé að veikja stofnunina í stjórnsýslulegu tilliti, auk þess sem verið er að herða á hinum pólitísku tökum á þessari stofnun. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það eru alvarlegar ásakanir að tala um hefndaraðgerðir. Enn þá alvarlegra er samt ef þær reynast vera sannar. Hér hræða dæmin. Við höfum t.d. verið að ræða um Mannréttindaskrifstofu. Þar höfum við líka notað þessi orð.

Ég hef talað um landverði sem voru beittir ofsóknum, bara hreinlega beittir ofsóknum fyrir mótmæli á hálendinu gegn stórvirkjunum. Það er staðreynd. Dæmin hræða. Ferill þessarar ríkisstjórnar er nefnilega ekki góður, hann er ekkert mjög fallegur þegar þessi mál eru skoðuð.