131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:18]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Umræðan hér í dag hefur verið nokkuð mikil og menn hafa verið að fara yfir, eðlilega, þetta frumvarp til samkeppnislaga. Við höfum lagt mikla vinnu í þetta mál í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og skoðað allar hliðar þess. Það er ekki óeðlilegt að það sé mikil umræða um þetta mál vegna þess að umræðan er einnig mikil í þjóðfélaginu um samkeppnismál. Við höfum heyrt á fólki að það vill hafa samkeppnisstofnanir og eftirlitsstofnanir virkar, og þær eiga að sjálfsögðu að gæta hagsmuna okkar sem neytenda.

Þess vegna er mjög mikilvægt að okkur takist vel upp í slíkri löggjöf. Reglurnar þurfa að vera einfaldar, skilvirkar og þær verða að njóta trausts. Löggjöf eins og sú sem við ræðum hér þarf að vera í sífelldri endurskoðun. Við erum í raun ekki að breyta efnisákvæðum samkeppnisreglna, heldur snúa breytingarnar að skipulagi samkeppniseftirlits og viðbrögðum samkeppnisyfirvalda við tilteknum samkeppnisaðstæðum.

Menn hafa rætt um það, bæði hér í dag og eins við 1. umr., að við séum bregðast við einhverju ástandi, þ.e. að það sé eitthvað mikið að hjá núverandi samkeppnisyfirvöldum. (Gripið fram í: Já.) Þetta er ekki rétt, og ég sagði það einnig við 1. umr. að við erum að horfa fram á við, við erum í ákveðinni þróun. Það er komin á þetta 10 ára reynsla og það er ekkert óeðlilegt að mál séu tekin upp og skoðuð, enda breytist markaðurinn mjög hratt.

Helstu rökin fyrir þessum lögum eru að það eigi að einfalda stjórnsýsluna. Þessi einföldun er auðvitað mjög sterk rök fyrir þessu frumvarpi, við erum að gera stjórnsýslu á sviði samkeppnismála einfaldari og skilvirkari með því að taka út eitt millistig, þ.e. samkeppnisráð. Það verður eitt stjórnvald, Samkeppniseftirlit, sem mun taka ákvarðanir samkvæmt frumvarpinu. Í dag er það þannig að samkeppnisráð, Samkeppnisstofnun og áfrýjunarnefnd samkeppnismála annast daglega stjórnsýslu á því sviði sem samkeppnislögin taka til. Gegnir samkeppnisráð lykilhlutverki í stjórnsýslu samkeppnismála en það er aðalúrskurðaraðilinn á neðra stjórnsýslustigi. Samkeppnisstofnun undirbýr síðan mál sem lögð eru fyrir samkeppnisráð og ráðgjafarnefndir þess og annast dagleg störf ráðsins.

Þrátt fyrir að samkeppnisráð sé aðalúrskurðaraðilinn á neðra stjórnsýslustiginu sér Samkeppnisstofnun að mestu um málsmeðferð þar til ákvörðun er tekin í málinu. Þannig aflar Samkeppnisstofnun gagna, gefur aðilum máls kost á að tjá sig, veita umsögn um málið o.s.frv. Þá getur Samkeppnisstofnun tekið bráðabirgðaákvarðanir í ákveðnum tilvikum, auk þess sem stofnunin fer með ákvörðunarvald á afmörkuðum sviðum samkvæmt nánari reglum sem samkeppnisráð setur.

Framangreint fyrirkomulag hefur þótt óþarflega flókið og tímafrekt. Ekki var að finna sérstakan rökstuðning í lögskýringargögnum fyrir því við setningu samkeppnislaga. Hin nýju samkeppnisyfirvöld voru einfaldlega steypt í mót þáverandi verðlagsyfirvalda. Núverandi fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt og fram hefur komið að milliliðalaus málarekstur hafi verið erfiður þar sem aðilar máls hafa ekki haft beinan aðgang að þeirri stjórnsýslu sem ákvörðunarvaldið hefur, þ.e. samkeppnisráði. Nú er lagt til að samkeppnisráð falli niður og að Samkeppnisstofnun, sem mun kallast Samkeppniseftirlit, muni sjálf hafa ákvörðunarvald. Að öðru óbreyttu ættu aðilum máls þar með að vera tryggð tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum í málarekstri á framfæri við þá sem ákvörðun taka.

Því hefur verið haldið fram í umræðunni í dag og eins við 1. umr. að hér sé um að ræða ákveðnar hefndaraðgerðir, það sé verið að refsa Samkeppnisstofnun fyrir framgang hennar í olíumálinu. Sá málflutningur er alveg með ólíkindum og hér hafa ekki verið færð nein rök fyrir því að segja slíkt. Menn hafa einfaldlega farið út í að nefna dæmi um önnur mál og halda að það geti réttlætt slíkan málflutning. Ég er því ósammála. Við erum nefnilega að styrkja samkeppniseftirlitið, við erum að verja auknu fjármagni til samkeppnisyfirvalda og sjálfstæði þeirra verður aukið.

Ef það frumvarp sem við ræðum hér verður að lögum er áætlað að fjárframlög til samkeppnisyfirvalda aukist um samtals 60 milljónir, m.a. vegna þess að gert er ráð fyrir að sérfræðingum verði fjölgað um sjö, úr 10 í 17, á tveimur árum. Ef þetta er ekki styrking þá veit ég ekki hvað.

Varðandi sjálfstæði stofnunarinnar í 6. gr. er alveg ljóst að verið er að auka það með frumvarpinu og þá með því að kveða á um að þriggja manna stjórn ráði forstjóra í stað þess að ráðherra ráði forstjóra eins og nú er. Það er lagt til að það verði hlutverk stjórnar Samkeppniseftirlitsins að móta áherslur í starfi stofnunarinnar og fylgjast með starfsemi og rekstri hennar. Í frumvarpinu og breytingartillögu hv. efnahags- og viðskiptanefndar er lagt til að áður en Samkeppniseftirlitið tekur meiri háttar efnislegar ákvarðanir skuli þær bornar undir stjórnina til samþykktar eða synjunar. Þar er átt við ákvarðanir um niðurstöðu mála en ekki ákvarðanir um hvort hefja eigi rannsókn einstakra mála eða ráðast í rannsóknaraðgerð á borð við húsleit.

Þess vegna hefði stjórnin í því tilfelli sem hv. þingmenn eru að vísa hér í hefndaraðgerðir og olíumálið ekki getað stoppað til að mynda húsleitir hjá olíufélögunum.

Þetta stjórnskipulag er sambærilegt skipulagi Fjármálaeftirlitsins og þykir það hafa reynst vel þar.

Virðulegi forseti. Ég vil örstutt koma inn á þá gagnrýni sem heyrst hefur varðandi hæfi stjórnarmanna. Hv. þingmenn hafa velt fyrir sér af hverju ákvæðið hafi verið tekið út þar sem kveðið var á um að stjórnarmenn mættu ekki hafa beinna eða verulegra hagsmuna að gæta í atvinnustarfsemi. Þetta ákvæði þótti of takmarkandi og það gæti orðið erfitt að finna hæfa stjórnarmenn ef það væri til staðar. Það má minna á að umboðsmaður Alþingis benti á það í áliti sínu frá 30. ágúst 1993, um hæfi aðalmanna í samkeppnisráði, að sú hætta gæti fylgt mjög ströngum hæfisskilyrðum að þeir sem mesta þekkingu og reynslu hefðu á hlutaðeigandi sviði yrðu útilokaðir frá því að gegna opinberu embætti. Engu að síður eru strangar reglur um hæfi stjórnarmanna í frumvarpinu. Slíkar reglur eru að sjálfsögðu nauðsynlegar til að tryggja trúverðugleika stofnunarinnar. Kveðið er til að mynda á um að stjórnarmenn skuli hafa sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum og menntun sem nýtist á sviði samkeppnismála, og að stjórnarmenn og forstjóri skuli hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga verulegra hagsmuna að gæta né mála er varða aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega. Stjórnarmenn og forstjóri mega aldrei hafa verið sviptir forræði á búi sínu, þeir skulu hafa óflekkað mannorð og mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða samkeppnislög.

Í frumvarpinu eru því strangar reglur um hæfi stjórnarmanna.

Virðulegi forseti. Þetta eru helstu atriðin sem hafa verið gagnrýnd í dag. Ég ætla ekki að fara miklu nánar út í þetta, þetta kom fram í framsögu hv. þm. Péturs Blöndals sem er formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Það er staðfastlega skoðun mín að við séum að stíga rétt skref með þessu frumvarpi. Það er mjög mikilvægt að efla samkeppnisyfirvöld og ekki síst í okkar litla landi. Við erum með lítinn markað og það er mikilvægt. Við fórum ítarlega yfir málið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og meiri hlutinn telur það fullunnið.