131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:35]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom víða við í ræðu sinni og við margt í hennar máli er vert að gera athugasemdir, en tækifæri gefst til að fara ítarlegar í það síðar í þessari umræðu.

Ég tel rétt að staldra við eitt atriði á þessu stigi og það er sjónarmið sem hv. þingmaður reifaði varðandi 16. gr. frumvarpsins sem varðar breytingar sem m.a. fela í sér að samkeppnisyfirvöldum er með skýrum hætti fengin heimild til að skipta upp fyrirtækjum sem hafa gerst brotleg við ákvæði samkeppnislaga. Þarna er um að ræða skýra heimild. Það er rétt sem hv. þingmaður benti á að samkeppnisyfirvöld hafa talið sig hafa þessa heimild en henni hefur ekki verið beitt og það hafa verið efasemdir um að í núverandi ákvæði fælist sú heimild sem þarna er vísað til. En þarna er þetta komið með ótvíræðum hætti inn og mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að með því að setja þetta fram með þessum hætti sé verið að styrkja þetta ákvæði samkeppnislaganna vegna þess að þarna er verið að gefa skýra heimild sem ekki var fyrir hendi í lögunum áður. Í þessu sambandi er kannski rétt að taka fram að það almennt orðaða ákvæði sem samkeppnisyfirvöld hafa talið að fæli í sér þessa heimild er að mínu mati og margra annarra allt of veikt ákvæði, allt of veik lagaheimild til þess að grípa til jafnafdrifaríkra aðgerða og túlkunin kveður á um.

En þarna er sem sagt komin inn ný skýr heimild sem úrræði fyrir Samkeppniseftirlit í málum af þessu tagi og ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér um að þarna sé um að ræða styrkingu á þessu ákvæði.