131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:44]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður las orðrétt margar síður úr greinargerð eða umsögn Samkeppnisstofnunar, eins og ég sýni hérna. Reyndar vantaði eitt orð, mjög, í upplestri hennar en ég bætti því inn í huganum.

En þetta er nákvæmlega það sama og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson las í morgun eða um hádegisbilið. Það getur vel verið að þingmenn séu svona tregir að það þurfi að lesa tvisvar ofan í þá. (Gripið fram í: Já.) (Gripið fram í: Í suma.)

Þegar ég minnti hv. þingmann á að málið væri á forræði efnahags- og viðskiptanefndar og við værum að ræða nefndarálit þaðan, frá meiri hluta og 1. og 2. minni hluta, og það væri ekki á forræði ráðherrans þá sagðist hún engan áhuga hafa á sjónarmiðum mínum. Það er hennar fullkomni réttur en ég ætla að vona að það gildi ekki um alla aðra þingmenn. Reyndar betlaði hv. þingmaður aftur og aftur til ráðherrans og vildi endilega fá einhver sjónarmið frá henni. Talandi um ráðherraræði, það er niðurlæging fyrir Alþingi að betla til ráðherrans þegar málið er á forræði þingsins. (Gripið fram í.)

Talandi um pólitísk afskipti af stjórnum Samkeppnisstofnunar þá vil ég lesa hér á þingskjali 342 fyrirspurn til viðskiptaráðherra um könnun á viðskiptaháttum tryggingafélaga og banka frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur:

„Er ráðherra reiðubúinn að leita álits Samkeppnisstofnunar á því hvort ástæða sé til að kanna hvort verðsamráð eða ólöglegir viðskiptahættir tíðkist hjá tryggingafélögunum eða í bankakerfinu, sbr. upphafsákvæði 5. gr. samkeppnislaga?“

Hvað þýðir þetta? Alþingi sjálft er að skora á ráðherrann að hafa afskipti af Samkeppnisstofnun. Þetta er með ólíkindum og þetta er þingskjal. Það liggur fyrir í þingskjölum þingsins að hv. þingmaður skorar á ráðherrann að hafa afskipti af Samkeppnisstofnun. Hv. þingmaður treystir ekki Samkeppnisstofnun.